
Dagana 8. og 9. nóvember hélt Líffræðifélag Íslands yfirlitsráðstefnu um íslenskar líffræðirannsóknir en síðast var slík ráðstefna haldin árið 2011. Náttúrustofa Vesturlands var
nú með fleiri framlög á slíkri ráðstefnu en nokkru sinni fyrr, eða 10 talsins, ýmist á eigin vegum eða í samvinnu við aðrar stofnanir.
Starfsmenn Náttúrustofunnar fluttu fjögur erindi og voru meðhöfundar að þremur til viðbótar og voru auk þess á meðal höfunda þriggja veggspjalda sem kynnt voru á ráðstefnunni.
Málstofa um vernd og veiðar á íslenskum fuglum og spendýrum
Starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands var formaður nefndar, sem nýlega skilaði af sér viðamikilli skýrslu um vernd, veiðar og velferð íslenskra fugla og spendýra, þar sem fjallað er um lagalegt og stjórnsýslulegt umhverfi dýranna í alþjóðlegu samhengi og hvaða úrbætur þyrfti að gera á íslenska lagaumhverfinu. Á ráðstefnunni var heil málstofa helguð þessu málefni og var efni skýrslunnar kynnt í fimm erindum. Úttektin er hugsuð sem grunnur sem á má byggja áframhaldandi vinnu að gerð nýrra laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra, en getur einnig nýst í ýmsu öðru samhengi.
Síld, síldardauði, fuglalíf og botndýralíf við Kolgrafafjörð
Fjallað var um síldargöngur við norðanvert Snæfellsnes síðustu vetur og gríðarleg áhrif þeirra á fuglalíf svæðisins, sem Náttúrustofan hefur rannsakað. Fuglalífið fyrir og eftir síldargöngur var borið saman og atburðarásin í tengslum við síldardauðann veturinn 2012-13 rakin. Einnig var kynnt samvinnuverkefni Náttúrustofunnar, Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi og Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ um áhrif síldardauðans á lífríki botns og fjara í Kolgrafafirði. Frumniðurstöður þess sýna að miklar breytingar hafa orðið á lífríki botnsins eftir síldardauðann, tegundum hefur fækkað og er ein tegund burstaorma nú ríkjandi í botnsetinu en á meðan er lífríkið utan brúar mun fjölbreyttara og líkt því sem áður var inni á firðinum. Lífríkið mun væntanlega jafna sig aftur á nokkrum árum en reynt verður að útvega fjármagn til að fylgjast með þeirri þróun.
Skyldleikaæxlun í arnarstofninum
Fjallað var um samvinnuverkefni náttúrustofa, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Háskóla Íslands um erfðabreytileika í íslenska hafarnarstofninum. Stofninn átti erfitt uppdráttar á 20. öldinni þegar hann var aðeins um 20-25 pör frá 1920-1970. Síðan þá hefur örnum fjölgað hægt og eru nú um 70 pör í stofninum. Tekin voru blóðsýni úr 241 arnarunga og notuð til erfðagreiningar. Í ljós kom að erfðabreytileiki virðist lítill í stofninum. Kynjahlutfall unganna var skekkt í átt til kvenfugla og eftir því sem skyldleiki unga á sama setri var minni, því fleiri ungar höfðu komist á legg á því setri á árunum 2003-2011. Skyldleikaæxlun virðist því hamla vexti arnarstofnsins.
Fæðuval minksins breyttist á síðasta áratug, á sama tíma og minkum fækkaði mikið
Miklar breytingar virðast hafa orðið á lífríki sjávar á síðasta áratug, sem e.t.v. tengjast breyttu hita- og seltustigi. Sandsílastofninn hrundi með þeim afleiðingum að margir sjófuglar hafa átt í verulegum erfiðleikum, sérstaklega við Suður- og Vesturland. Hins vegar hefur refastofninn margfaldast að stærð síðan um 1970 þegar hann var í sögulegu lágmarki. Til að skoða hvort fæðuval minksins hefði tekið breytingum á þeim tíma sem minkastofninn dróst saman voru greindar fæðuleifar í mögum 662 minka, sem veiddust á Snæfellsnesi á árunum 2001-2009. Að auki voru stöðugar samsætur greindar í vöðva og beinum minka, m.a. til að öðlast meiri skilning á uppruna fæðunnar. Hafræn fæða var mikilvæg minknum en á tímabilinu breyttist fæðuvalið marktækt, sem helst fól í sér að neysla fugla minnkaði, auk þess sem fram komu vaxandi merki um vannæringu þegar leið á tímabilið; hvort tveggja sérstaklega hjá steggjum. Þrátt fyrir að minkur sé afar ósérhæfður í fæðuvali og þekktur tækifærissinni virðist sem hann hafi átt erfitt uppdráttar og ekki náð að laga sig að breytingum í umhverfi sínu á síðasta áratug. Verkefnið var hluti af doktorsverkefni Rannveigar Magnúsdóttur.
Breytingar á fjölda og varpárangri ritu
Náttúrustofan og Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi vöktuðu fjöldi hreiðra og varpárangur ritu í Hvítabjarnarey við Stykkishólm frá 2008-2013 og í björgunum á utanverðu Snæfellsnesi frá 2011-2013. Fjöldi hreiðra náði hámarki í Hvítabjarnarey og á utanverðu Snæfellsnesi árið 2012 en var lægstur árið 2011. Varpárangur var mun betri í Hvítabjarnarey en á utanverðu Snæfellsnesi á tímabilinu.
Hér fyrir neðan eru nánari upplýsingar um framlögin á ráðstefnunni og tenglar á útdrætti.
Fyrirlestrar
Fuglalíf við Kolgrafafjörð í ljósi síldargangna og –dauða
Höfundar: Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/143.htm
Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Tilkoma úttektar á lagalegri og stjórnsýslulegri stöðu og forsendur nefndar
Höfundar: Menja von Schmalensee, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Auður L. Arnþórsdóttir og Hólmfríður Arnardóttir
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/259.htm
Vernd villtra fugla og spendýra
Höfundar: Tómas G. Gunnarsson, Menja von Schmalensee, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Auður L. Arnþórsdóttir og Hólmfríður Arnardóttir
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/308.htm
Nytjaveiðar á villtum dýrum á Íslandi
Höfundar: Tómas G. Gunnarsson, Menja von Schmalensee, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Auður L. Arnþórsdóttir og Hólmfríður Arnardóttir
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/309.htm
Veiðar til að fyrirbyggja tjón. Hvenær og til hvers?
Höfundar: Menja von Schmalensee, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Auður L. Arnþórsdóttir og Hólmfríður Arnardóttir
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/261.htm
Sjávarspendýr við Ísland. Er þeim tryggð fullnægjandi vernd og veiðistjórnun?
Höfundar: Menja von Schmalensee, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Auður L. Arnþórsdóttir og Hólmfríður Arnardóttir
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/262.htm
Áhrif skyldleika á frjósemi íslenskra hafarna
Höfundar: Snæbjörn Pálsson, Gunnar Þór Hallgrímsson, Menja von Schmalensee, Róbert A. Stefánsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/150.htm
Veggspjöld
Breytingar á fæðuvali minks á Snæfellsnesi í upp- og niðursveiflu stofnsins
Höfundar: Rannveig Magnúsdóttir, Menja von Schmalensee, Róbert A. Stefánsson, David W. Macdonald og Páll Hersteinsson
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/260.htm
Hreiðurfjöldi og ábúð ritu í Hvítabjarnarey á Breiðafirði og í fjórum vörpum á utanverðu Snæfellsnesi
Höfundar: Árni Ásgeirsson, Róbert A. Stefánsson og Jón Einar Jónsson
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/319.htm
Áhrif síldardauða á botndýralíf í Kolgrafafirði
Höfundar: Valtýr Sigurðsson, Róbert A. Stefánsson, Jón Einar Jónsson, Árni Ásgeirsson og Jörundur Svavarsson
Útdráttur: http://biologia.is/files/agrip_2013/154.htm
Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargatu 3, 340 Stykkishólmur
s. 433-8121
GSM 898-6638
Fax 438-1705
nsv@nsv.is
www.nesvottun.is
www.breidafjordur.is
www.ni.is
www.ust.is
www.hafro.is
www.fuglavernd.is
... fleiri tenglar