Síðasta ár var fjölbreytt í starfsemi Náttúrustofunnar eins og þau fyrri. Fastráðnir starfsmenn voru fjórir fyrri helming ársins, en Pálmi Freyr Sigurgeirsson hélt þá á önnur mið og eftir voru þá Róbert A. Stefánsson, Menja von Schmalensee og Theódóra Matthíasdóttir, öll í fullu starfi. Auk þeirra komu að stofunni nokkrir háskólanemar og tímabundnir starfsmenn. Hjá Náttúrustofunni hafa þó ekki unnið færri frá því á fyrstu árum stofunnar og kemur það fyrst og fremst til vegna tæplega 40% niðurskurðar ríkisframlaga til stofunnar frá árinu 2009. Vonir standa þó til að komandi ár beri með sér betri tíð.
Hér verður gefið örstutt yfirlit um helstu viðfangsefni ársins.
Rannsóknir
Rannsóknir skipuðu sem fyrr stóran sess í starfseminni, bæði vöktun valinna tegunda og búsvæða og grunnrannsóknir á ýmsum þáttum lífríkisins.
Á árinu var haldið áfram með margs konar vöktunarverkefni, sem komið hefur verið á koppinn á fyrri árum, en t.d. fuglar geta verið hagkvæmir ávitar á ástand lífríkisins. Þau voru ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra, sérstaklega Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og Náttúrufræðistofnun Íslands. Á meðal slíkra verkefna var vöktun hafarnar, mófugla, sjófugla, vatnafugla og vetrarfugla, auk vöktunar fiðrilda í Stykkishólmi og við Gufuskála og vöktun á ábúðarhlutfalli refagrenja í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.
Náttúrustofan hefur sérhæft sig í ágengum tegundum, þ.e. tegundum sem maðurinn hefur flutt út fyrir sitt náttúrulega útbreiðslusvæði og eru farnar að valda einhvers konar neikvæðum áhrifum. Slíkar tegundir hafa verið til vandræða víða um heim. Minkur og alaskalúpína eru þekktustu ágengu tegundirnar hér á landi og eru rannsóknir á þeim meðal mikilvægustu viðfangsefna Náttúrustofunnar. Gagnagrunnur Náttúrustofunnar um minkinn, sem er óvenju umfangsmikill miðað við gögn um ágeng rándýr annars staðar, varð til þess að tveim af starfsmönnum hennar var boðið að taka þátt í stofnun alþjóðlegs vinnuhóps um ágengar tegundir og sækja vinnufund hópsins í Berlín vorið 2015. Samstarfið gengur vel og lítur út fyrir að hópurinn sendi frá sér vísindagreinar á árinu 2016. Þá var árið 2015 sjötta sumar aðgerða Stykkishólmsbæjar gegn framandi og ágengum plöntum í bæjarlandinu. Aðgerðirnar hafa skilað miklum árangri gegn lúpínu og breytt ásýnd bæjarlandsins. Úttekt á tilraunareitum Náttúrustofunnar á skógrækarsvæðinu sumarið 2015 staðfestu þetta og sýndu fram á mikla gróðurframvindu þar sem lúpína hafði verið slegin. Grein um niðurstöðurnar birtist í næsta hefti Náttúrufræðingsins. Á árinu vann Náttúrustofan einnig að úttekt á útbreiðslu ágengra plöntutegunda á öllu Snæfellsnesi.
Starfsmenn Náttúrustofunnar hafa síðastliðin ár leiðbeint nokkrum háskólanemum við lokaverkefni sín. Síðasta vor varði Valtýr Sigurðsson meistaraprófsritgerð sína við H.Í. sem fjallaði um áhrif síldardauðans í Kolgrafafirði á botndýr. Leiðbeinendur hans voru m.a. Jón Einar Jónsson og Róbert A. Stefánsson. Einnig varði Aldís Erna Pálsdóttir nýlega meistararitgerð við H.Í. um æðarvörp í eyjum nærri Stykkishólmi, með áherslu á afrán og voru Jón Einar og Róbert leiðbeinendur hennar. Starfsmenn Náttúrustofunnar leiðbeindu einnig þremur nemendum Landbúnaðarháskóla Íslands við lokaverkefni sín á árinu en þau fjölluðu um áhrif síldardauðans á samsetningu þörunga í fjörum Kolgrafafjarðar, komutíma vaðfugla á leirur á vorin og náttúrufar á ferðamannastöðum. Þessi verkefni munu klárast 2016.
Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar voru m.a. kynntar á vinnufundi í Berlín, ráðstefnu Vistfræðifélags Íslands, ráðstefnu Líffræðifélags Íslands, Náttúrustofuþingi og fyrirlestrum í héraði.
Náttúruvernd og almenningsfræðsla
Þótt náttúrurannsóknir séu liður í náttúruvernd, hefur Náttúrustofan einnig sinnt þessum þætti með ýmsu öðru móti enda er eitt af lögbundnum hlutverkum hennar að „að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði“ (11. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur).
Náttúrustofa Vesturlands hefur árum saman unnið að úrbótum í umhverfismálum með sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi. Starfsemi sveitar-félaganna hefur borið EarthCheck umhverfisvottun síðan 2008 og er frammistaða þeirra mæld og tekin út árlega. Á árinu var auk hefðbundinna verkefna m.a. unnið að samantekt og kynningu um verkefnið, sem gefin verður út snemma á árinu 2016 og dreift inn á öll heimili á Snæfellsnesi.
Náttúrustofan sinnti einnig sem fyrr þjónustu fyrir Breiðafjarðarnefnd, en sú nefnd er umhverfis- og auðlindaráðherra til ráðgjafar um málefni Breiðafjarðar.
Fyrirhuguð er stóraukin sókn í þang og þara í Breiðafirði og er mikilvægt að tryggja að sú nýting verði sjálfbær þegar litið er til allra þátta lífríki fjarðarins, ekki síst til að vernda aðra atvinnuvegi við Breiðafjörð. Náttúrustofan hlaut undir lok ársins styrk frá Breiðafjarðarnefnd til að hefja gerð rannsóknaáætlunar um áhrif nýtingarinnar á annað lífríki en þörungana sjálfa. Óvíst er þó um fjármögnun rannsóknanna sjálfra.
Fræðsla fyrir almenning um náttúruna er mikilvægur hluti náttúruverndar. Á árinu lauk Náttúrustofan við gerð þriggja fræðsluskilta. Eitt þeirra fjallar um seli við Ytri Tungu í Staðarsveit, annað um síldardauðann í Kolgrafafirði og það þriðja um umhverfisvottunarverkefni Snæfellinga. Þá birtist á árinu grein eftir starfsmann Náttúrustofunnar í Fuglum, ársriti Fuglaverndar, um lagalega stöðu fuglaverndar. Staða fugla í lögum er í mörgum tilfellum ófullnægjandi og er úrbóta þörf.
Loks tóku starfsmenn stofunnar þátt í stefnumótun á sviði náttúruverndar og –rannsókna, t.d. með setu í nefnd sem á árinu endurskoðaði starfsreglur Veiðikortasjóðs. Einnig var forstöðumaður Náttúrustofunnar formaður Samtaka náttúrustofa.
Síðast en ekki síst fóru talsverðir kraftar í vinnu við að hækka framlag ríkisins til náttúrustofa. Það tókst því ríkisfjárveitingin var hækkuð um 21% í fjárlögum 2016 frá fyrra ári. Er það í fyrsta skipti eftir hrun sem framlag til Náttúrustofunnar hækkar milli ára, eftir samfellt niðurskurðartímabil.
Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee
Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargatu 3, 340 Stykkishólmur
s. 433-8121
GSM 898-6638
Fax 438-1705
nsv@nsv.is
www.nesvottun.is
www.breidafjordur.is
www.ni.is
www.ust.is
www.hafro.is
www.fuglavernd.is
... fleiri tenglar