Sjúkdómurinn plasmacytosis er hægfara veirusýking sem fundist hefur í aliminkum víða um heim en ekki hefur tekist að finna lækningu við. Mörg smituð dýr sýna aldrei einkenni sýkingar en sjúkdómurinn dregur verulega úr frjósemi annarra og getur smám saman leitt til dauða þeirra. Árið 1970 voru minkar aftur fluttir til Íslands eftir langt hlé. Þeir reyndust smitaðir afplasmacytosis og olli sjúkdómurinn minkabændum þungum búsifjum þar til honum var útrýmt af búum með niðurskurði á árunum 1983-1985. Rannsókn Karls Skírnissonar o.fl. (1990) á útbreiðslu sjúkdómsins á árunum 1986-1987 leiddi í ljós að sýkingin hafði borist í villta minkastofninn frá minkabúum og fannst á norðan- og norðaustanverðu landinu frá Skagafirði austur á Hérað.

Eins og áður hefur komið fram hafa minkaveiðimenn sent Náttúrustofunni minkahræ til rannsókna. Blóðsýni úr hræjunum voru send til greiningar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum í þeim tilgangi að kanna útbreiðslu veirusjúkdómsins nú. Samkvæmt þeim niðurstöðum sem liggja fyrir, no rx eru smituð dýr enn í hæstri tíðni á Norður- og Norðausturlandi en sýkingartíðnin þar hefur hækkað frá fyrri rannsókn og útbreiðslan er að aukast, því smituð dýr hafa fundist mun víðar en áður.

 

Blóðsýking í villta minkastofninum