Árið 2005 var formlega vígður nýr vegur yfir Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi. Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna þverunar Kolgrafafjarðar var lítið sem ekkert minnst á mink og mögulegar breytingar á þéttleika í kjölfar byggingar grjótfyllingar við fjörðinn. Þetta var kært í ljósi reynslu bænda og veiðimanna. Umhverfisráðherra tók þá ákvörðun að taka tillit til kæranna á þann hátt að setja það skilyrði fyrir framkvæmdinni að Vegagerðin léti í fyrsta skipti kanna með stöðluðum aðferðum hversu mikið mink fjölgaði í kjölfar byggingar vegfyllingar.

Rannsóknin snerist um að meta hvort framkvæmdin hefði áhrif á þéttleika (fjölda) minka en það var gert með því að meta þéttleikann fyrir og eftir framkvæmd. Til að fá áreiðanlegar og staðlaðar upplýsingar um hann var í þessu tilfelli nauðsynlegt að veiða dýrin, purchase setja á þau radíósenditæki og fylgjast með ferðum þeirra, m.a. til að útiloka (út frá hegðun og landnotkun merktra minka) að minkar, sem ekki hefðu veiðst, væru á svæðinu. Um leið fengust því upplýsingar um landnotkun, þ.e.a.s. hvernig minkarnir notuðu landið og hvort breyting yrði á því með tilkomu fyllingarinnar. Þessi nálgun til að mæla þéttleika minka var notuð vegna þess að minkur er “ósýnileg” tegund sem erfið er í talningu og vegna þess að ógjörningur er að staðla þéttleikamælingu sem gerð væri með aðstoð hunda eða með mati á ummerkjum eftir minka eingöngu. Til að auðvelda túlkun niðurstaðna var til samanburðar fylgst með breytingum á viðmiðunarsvæði þar sem engar vegaframkvæmdir eða aðrar breytingar voru gerðar. Að auki voru tölur um fjölda minka sem veiddust í nærliggjandi sveitarfélögum greindar og fylgst með því hvort breytingar yrðu á afrakstri æðarvarpa á svæðinu í kjölfar framkvæmdarinnar. Rannsóknirnar fóru fram haustið 2003 en seinni hluta þeirra var flýtt til haustsins 2006 vegna fyrirhugaðs útrýmingarverkefnis umhverfisráðuneytisins.
Sjá niðurstöður verkefnisins hér

Minkur - Áhrif vegfyllingar við Kolgrafafjörð