18. desember 2008
Jólakveðja
Smellið á myndina til að skoða betur.
4. desember 2008
Hegrarnir orðnir 8 talsins
smellið á myndina til að skoða hana betur
Nýlega var hér greint frá 7 gráhegrum í Stykkishólmi. Í gær sá Daníel Bergmann 8 gráhegra á sama stað og fylgir hér ljósmynd hans af fimm þeirra.
26. nóvember 2008
Sjö gráhegrar í Stykkishólmi
smellið á myndina til að skoða hana betur
Í gær sá starfsmaður NSV sjö unga gráhegra í Landey, gengt Skipavíkurhöfn, þar sem þeir hímdu í strekkings suðvestanátt. Gráhegri er árlegur vetrargestur í Stykkishólmi sem og víðar á landinu en hér er algengast er að sjá einn eða örfáa í einu. Yfirleitt er um að ræða ungfugla sem flækst hafa hingað frá heimkynnum sínum í Evrópu. Gráhegrinn étur einkum fisk sem hann veiðir í fjörum og stöðuvötnum. Með útteygðan háls er hann um 100 cm á hæð og með 155-175 cm vænghaf. Vængir eru breiðir og flýgur fuglinn með hægum, þunglamalegum vængjatökum.
Sigurður Bjarnason náði fuglunum á meðfylgjandi mynd. Athugið að það sem virðist vera einn fugl næstlengst til hægri eru í raun tveir því annar stendur að mestu á bak við hinn.
21. nóvember 2008
Fræðsluerindi í fjarfundarbúnaði
Fimmtudaginn 27. nóv. kl. 12:15 – 12:45 flytur Jón Ágúst Jónsson, líffræðingur á Náttúrustofu Austurlands, erindi sem hann nefnir: „Áhrif skógræktaraðgerða á viðarvöxt og kolefnisbindingu í ungum asparskógi“
Í Stykkishólmi er hægt að fylgjast með erindinu í Egilshúsi og á Hvanneyri í
Landbúnaðarháskólanum (Vesturstofu í Ásgarði).
Nánar má lesa um fræðsluerindi Náttúrustofa og á hvaða stöðum hægt er að fylgjast með þeim með því að smella á auglýsinguna hér fyrir ofan.
29. október 2008
Vinningshafar Vísindavöku
ÁVísindavöku sem haldin var af hópnum W23 þann 18. október síðastliðinn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga var gestum boðið að taka þátt í getraun. Verðlaun voru sigling fyrir tvo fullorðna í boði Sæferða. Dregið var úr réttum svörum og upp komu nöfn tveggja ungra stúlkna, þeirra Lenu Örvarsdóttur 9 ára og Kristínar Olsen 8 ára. Myndin var tekin af þeim stöllum þegar þær tóku við vinningunum. Aðstandendur Vísindavökunnar óska þeim til hamingju með vinningana og þakka þeim og öðrum fyrir þátttökuna.
29. október 2008
Fyrirlestrar náttúrustofa í fjarfundabúnaði hefjast á ný
Fræðsluerindum náttúrustofa er varpað um land allt með fjarfundabúnaði. Þau hefjast á ný nk. fimmtudag kl. 12:15 og nefnist fyrsta erindi vetrarins „Fýllinn í Jökulsárgljúfrum”, sem flutt verður af Aðalsteini Erni Snæþórssyni, líffræðingi á Náttúrustofu Norðausturlands. Með því að smella á meðfylgjandi mynd/auglýsingu má fá upplýsingar um það hvar fylgjast má með fyrirlestrinum. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.
21. október 2008
Áhugaverður fyrirlestur á fimmtudag
Næstkomandi fimmtudag flytur Hlynur Óskarsson, vistfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands, áhugaverðan fyrirlestur um votlendi.
Votlendi setur mikinn svip á íslenska náttúru og myndar samofið net frá fjörum og leirum upp um ósa, ár og vötn til mýra og flóa. Í erindi sínu, sem Hlynur nefnir „Úr fúafeni í fuglaparadís – Gildi og nýting votlendis í gegnum tíðina,” fjallar hann um margþætt gildi votlendis og rekur sögu nýtingar þess frá upphafi Íslandsbyggðar til dagsins í dag.
Fyrirlesturinn er á vegum Náttúrustofu Vesturlands og Umhverfishóps Stykkishólms. Hann verður haldinn fimmtudaginn 23. október kl. 20 á ráðhúsloftinu, Stykkishólmi. Að vanda eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
21. október 2008
Skemmtileg Vísindavaka
Vísindavaka var haldin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði síðastliðinn laugardag. Þar kynntu starfsemi sína aðilar sem mynda klasann W23 ásamt útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar í Ólafsvík.
Framtakið mæltist gríðarlega vel fyrir og mættu a.m.k. 150 manns til að skoða ýmis kvikindi, lifandi og dauð, auk þess sem starfsmenn útskýrðu vinnu sína og ýmis tól og tæki sem einnig voru til sýnis. Sérstaka athygli vakti hversu vel yngri kynslóðin skemmti sér.
Aðilar W23 klasans (Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetur Snæfellsness, Vör – sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull) þakka Snæfellingum frábærar viðtökur og vænta áframhaldandi góðs samstarfs við íbúana.
Fjölmargir gesta á Vísindavöku tóku þátt í getraun. Í vinning voru tvö gjafabréf fyrir tvo í siglingu frá Stykkishólmi með Sæferðum. Í getrauninni var spurt um eftirfarandi (svör skáletruð):
1. Hvaða stofnanir standa að W23?
Háskólasetur Snæfellsness, Náttúrustofa Vesturlands, Vör-Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull.
2. Hvar er stærsta kríuvarpið á Snæfellsnesi?
Við Rif.
3. Hvaða landspendýr lifði á Íslandi þegar maðurinn nam hér land?
Tófa.
4. Hvað er Snæfellsjökull hár?
1.446 metrar.
5. Getur hitastig sjávar farið undir frostmark án þess að hann frjósi?
Já.
Tveir vinningshafar voru dregnir úr hópi þeirra sem svöruðu spurningunum rétt.
Kristín Olsen, Munaðarhól 6, 360 Hellissandi
Lena Örvarsdóttir, Holtabrún 6, 355 Ólafsvík
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá Vísindavökunni.
![]() |
||
![]() |
||
![]() |
||
![]() |
||
![]() |
||
![]() |
||
![]() |
||
Smellið á myndirnar til að skoða þær betur.
15. október 2008
Þér er boðið á Vísindavöku!
Í FSN í Grundarfirði þann 18. október 2008 kl. 14:00-18:00
Skemmtilegt og fræðandi fyrir alla fjölskylduna.
Vísindavakan er opinn dagur fyrir alla sem vilja koma og kynna sér starfsemi W23 hópsins og náttúrufarsrannsóknir á Snæfellsnesi. Tilvalið að taka börnin með!
Vísindavakan er haldin af W23 hópnum í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina. W23 er samstarf fjögurra aðila á Snæfellsnesi: Háskólaseturs Snæfellsness, Náttúrustofu Vesturlands, Varar Sjávarrannsóknarseturs við Breiðafjörð og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Markmið hópsins er að auka rannsóknir og hvers kyns samstarf stofnananna, með bættum skilningi á náttúru Vesturlands og fjölgun starfa í náttúruvísindum að leiðarljósi. Heiti samstarfsins er W23 sem vísar í vestlæga hnattstöðu Snæfellsness og hraða lognsins á svæðinu.
Nánar má lesa um dagskrá vísindavökunnar með því að smella hér.
30. september 2008
Vel lukkað Náttúrustofuþing á Snæfellsnesi
![]() |
![]() |
![]() |
Í síðustu viku átti á fjórða tug starfsmanna náttúrustofa fund í Stykkishólmi um málefni náttúrustofa, þ.á.m. um samstarf sín á milli. Í kjölfarið buðu náttúrustofur til Náttúrustofuþings, opinnar ráðstefnu í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Þingið var geysilega vel heppnað, þétt pakkað af áhugaverðum fyrirlestrum. Aðsókn var mjög góð en 80-90 manns mættu til að hlýða á erindi um hvítabirni, erni, aðfluttar tegundir, fjörur, eldfjallagarð o.fl.
Þeir sem ekki áttu heimangengt geta skoðað útdrætti fyrirlestra með því að smella hér. Ljósmyndir af fundum náttúrustofanna og vettvangsferðum í tengslum við þá má sjá hér.
Náttúrustofa Reykjaness verður gestgjafi næsta Náttúrustofuþings haustið 2009.
22. september 2008
Breyting á dagskrá Náttúrustofuþings
Náttúrustofuþing verður haldið í Grundarfirði næstkomandi föstudag, 26. september. Af óviðráðanlegum orsökum forfallaðist einn fyrirlesaranna, Tómas G. Gunnarsson. Í hans stað mun Kristinn Haukur Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands halda fyrirlestur sem hann kallar: „Verndun tegunda og búsvæða – með örninn í brennidepli”. Með því að smella á myndina hér fyrir ofan má sjá uppfærða dagskrá í samræmi við þessa breytingu.
10. september 2008
Náttúrustofuþing á Snæfellsnesi
Föstudaginn 26. september bjóða náttúrustofur til opinnar ráðstefnu í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði frá kl. 14:00-18:15. Þar munu náttúrustofurnar og boðsfyrirlesarar flytja fyrirlestra um ýmis áhugaverð málefni. Allir velkomnir. Dagskrána má sjá hér. Til að prenta hana er best að vista hana fyrst og prenta svo.
Náttúrustofur eru sjö talsins, dreifðar vítt og breitt um landið. Þær mynda með sér Samtök náttúrustofa (SNS), sem er samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra. Undanfarin ár hefur skapast sú hefð að náttúrustofurnar skiptist á að halda ráðstefnu haust hvert. Að þessu sinni er gestgjafinn Náttúrustofa Vesturlands og verður þingið haldið í Stykkishólmi og Grundarfirði en fyrir utan að bjóða til opinnar ráðstefnu munu náttúrustofurnar funda um sín innri mál á fimmtudeginum og fram að hádegi föstudagsins.
18. júní 2008
Tveir ernir finnast dauðir
Nýlega fundust tveir dauðir ernir og var þeim skilað til Náttúrustofu Vesturlands. Ernirnir voru báðir merktir en endurheimtur merktra einstaklinga eru mikilvægar til að auka þekkingu okkar á íslenska arnarstofninum.
Fyrri endurheimtan var örn sem merktur var sem ungi í merkingaleiðangri Náttúrustofunnar og Náttúrufræðistofnunar Íslands við mynni Hvammsfjarðar sumarið 2005. Hann fannst nú dauður tæplega 40 km frá eða í Svefneyjum á norðvestanverðum Breiðafirði og hafði líklega verið dauður í 3-4 vikur. Landeigendur færðu Náttúrustofunni hræið.
Seinni endurheimtan var fullorðinn fugl, sem Trausti Tryggvason merkti sem unga árið 1994 við Hvammsfjörð. Grundfirðingurinn Herdís Tómasdóttir (Ditta) kom hræinu til Náttúrustofunnar en það fann hún á göngu við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi, um 40 km vestan merkingarstaðar. Í ljós kom að örninn var 14 ára gamall og því líklega þriðji elsti örn sem vitað er um á Íslandi en hinir tveir voru 16 og 18 ára og fundust báðir árið 2005. Þess má geta að grútarblautur, fullorðinn örn fannst á svipuðum slóðum fyrir ári síðan. Hann drapst skömmu síðar í Húsdýragarðinum.
Ernirnir tveir verða sendir til Náttúrufræðistofnunar til frekari rannsókna, m.a. á mögulegri dánarorsök.
Samkvæmt upplýsingum á vef Náttúrufræðistofnunar eru nú 65 arnarpör á Íslandi og urpu 43 þeirra í vor, sem er nokkuð hærra hlutfall en undanfarin ár. Ernir eru alfriðaðir og gilda sérstakar reglur um umgengi við varpstaði þeirra,sbr. 19. grein villidýralaganna.
Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með vöktun arnarstofnsins og hafa arnarungar verið merktir á vegum stofnunarinnar í áratugi, lengst af í góðu samstarfi við fuglaáhugamenn. Á síðari árum hafa Náttúrustofa Vesturlands og Náttúrustofa Vestfjarða í auknum mæli komið að vöktuninni og frá því í aldarbyrjun hafa allir ungar á þekktum hreiðrum verið merktir. Það merkingarátak mun í framtíðinni skila auknum upplýsingum um lífshætti arnarins. Verði vegfarendur varir við dauðan örn eru þeir hvattir til að tilkynna það til Náttúrustofunnar eða Náttúrufræðistofnunar.
Upplýsingar um arnarvarpið 2008 má finna á heimasíðuNáttúrufræðistofnunar.
11. júní 2008
Skýrsla um minkarannsóknir
Út er komin skýrsla um rannsóknir á minkum á Snæfellsnesi árin 2006 og 2007 í tengslum við tilraunaverkefni umhverfisráðuneytisins um svæðisbundna útrýmingu minks. Rannsóknin og skýrslan var unnin af Náttúrustofu Vesturlands í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og Pál Hersteinsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Í skýrslunni eru kynntar niðurstöður rannsókna á stofnstærð, náttúrulegum vanhöldum minka og árangri veiðiátaks árið 2007 á Snæfellsnesi. Alls voru 58 minkar veiddir í lífgildrur haustið 2006 og í þá sett senditæki til að fylgjast með ferðum þeirra og afdrifum. Stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi var áætluð 514 dýr í nóvemberbyrjun 2006 (95% vikmörk 257-771). Náttúruleg vanhöld voru mikil um haustið en minnkuðu eftir því sem frá leið. Vanhöld vegna veiða urðu nokkuð jafnt og þétt yfir veturinn en hlutfallslega mest snemma vors. Í júlí 2007 lifði enn um fjórðungur af þeim merktu minkum sem voru á lífi í byrjun september árið áður. Samkvæmt merkingum og endurheimtum veiddist ríflega fimmti hver minkur úr hauststofninum árið 2007, sem er svipað hlutfall og árin 2002 og 2003 (Róbert A. Stefánsson o.fl. 2006a, 2006b). Dánarorsök var ákvörðuð hjá 30 merktum minkum og drápust 13 þeirra af náttúrulegum orsökum en 17 vegna veiða. Af þeim merktu minkum sem veiddust, voru 5 veiddir af veiðimönnum veiðiátaksins en 12 af öðrum veiðimönnum, flestir áður en átakið sjálft hófst. Minkum virðist hafa fækkað frá hausti 2006 (fyrir veiðiátak) til haustsins 2007 (eftir veiðiátak). Ekki er hægt að segja til um hvort ástæða fækkunarinnar sé aukin vanhöld vegna veiða eða náttúrulegra þátta. Til þess hefði þurft að stunda rannsóknir á viðmiðunarsvæði auk rannsóknarsvæðisins en ekki fékkst fjármagn til þess.
Veiðiátakinu er stjórnað af Umhverfisstofnun en það mun standa til ársloka 2009. Engar beinar rannsóknir fara fram á árangri veiðiátaksins við Eyjafjörð og ekki heldur á Snæfellsnesi seinni árin tvö. Öllum afla minkaveiðimanna verður þó áfram safnað á báðum átakssvæðum til rannsókna á aldursdreifingu, líkamsástandi o.fl. til að fá vísbendingar um það hvort veiðiátakið hafi áhrif á þá stofnþætti.
Nálgast má skýrsluna hér fyrir neðan með því að smella á forsíðuna. Prentúgáfa skýrslunnar er 4,32 mb. en netútgáfan 633 kb.
Vefútgáfa 633 kb | Prentútgáfa 4,32 mb |
9. júní 2008
Ísland fyrst í Evrópu
Í gær, 8. júní, tóku sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull á móti skjölum til staðfestingar því að hafa hlotið umhverfisvottun frá Green Globe vottunarsamtökunum. Viðstaddir hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru m.a. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Alþingis og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis, Sturla Böðvarsson, þingmenn, sveitarstjórnafólk og fjöldi annarra gesta. Ísland getur þar með státað sig af því að vera fyrsta landið í Evrópu með umhverfisvottuð samfélög en fram til þessa hefur aðeins þremur öðrum samfélögum í heiminum tekist að ná vottun.
Green Globe eru einu vottunarsamtökin sem votta starfsemi heilla samfélaga. Viðmið og staðlar þeirra byggja á sömu hugmyndafræði og Staðardagskrá 21 og kemur Green Globe vinna sveitarfélaganna á Snæfellsnesi því í stað Staðardagskrárvinnu þeirra. Með því að ganga inn í vottunarferli Green Globe hefur Snæfellsnes þó stigið skrefinu lengra, þar sem umhverfisvinnan er nú reglulega metin af óháðum þriðja aðila.
Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg til að stíga þetta mikilvæga skref í sögu umhverfismála á Íslandi. Vottunarverkefnið hófst formlega árið 2003 fyrir tilstilli þeirra hjóna Guðlaugs heitins og Guðrúnar Bergmann, sem unnu ötullega að verkefninu frá upphafi, og hefur sömuleiðis notið ómetanlegrar ráðgjafar Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings hjá Umís í Borgarnesi. Starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands hafa tekið þátt í stefnumótun og stjórn verkefnisins nánast frá upphafi og starfsmaður þess, Þórunn Sigþórsdóttir, er jafnframt starfsmaður Náttúrustofunnar. Sveitarstjórar og sveitarstjórnir á Snæfellsnesi hafa sýnt mikla framsýni með þátttöku í verkefninu og er þá ógetið fjölda annarra sem stuðlað hafa að framgangi þess.
Náttúrustofa Vesturlands óskar þjóðinni allri til hamingju með þennan merka áfanga.
Finna má nánari upplýsingar um verkefnið á www.nesvottun.is.
smellið á myndina til að skoða hana betur.
Framsögumenn og nokkrir aðstandendur verkefnisins. Efri röð frá vinstri: Benedikt Benediktsson oddviti Helgafellssveitar, Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Guðrún Bergmann frumkvöðull, Róbert A. Stefánsson formaður Framkvæmdaráðs Snæfellsness sem undirbúið hefur vottunina og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands og Kjartan Bollason frá Háskólanum á Hólum, úttektaraðili Green Globe á Íslandi. Neðri röð frá vinstri: Eggert Kjartansson oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Sturla Böðvarsson forseti Alþingis, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar og Þórunn Sigþórsdóttir umhverfisfulltrúi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.
smellið á myndina til að skoða hana betur.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti í ræðu sinni vottun Snæfellsness í alþjóðlegt samhengi og fjallaði m.a. um mikilvægi þess að íbúar jarðar taki höndum saman um að bæta umgengni sína við náttúruna. Hann hrósaði Snæfellingum í hástert fyrir frumkvæði sitt til framfara í umhverfismálum.
smellið á myndina til að skoða hana betur.
Menja von Schmalensee, fyrrum varaformaður Framkvæmdaráðs Snæfellsness, límir nýja merkið á skiltið við Haffjarðará aðfaranótt 8. júní. Merkið er tákn um að Snæfellsnes hafi hlotið vottun Green Globe samtakanna.
4. júní 2008
Fyrst í Evrópu – Fjórðu í heiminum
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær auk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, taka þann 8. júní formlega á móti vottun frá alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtökunum Green Globe.
Þetta er merkur áfangi í sjálfbærnisögu Íslands, því sveitarfélögin eru þau fyrstu í Evrópu til að hljóta vottun fyrir stefnu og framkvæmd í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála og fjórða svæðið í heiminum til að ná slíkum árangri.
Eiginlegt vinnuferli hófst árið 2003, en frá þeim tíma hafa orðið geysilegar breytingar á umhverfisstjórnun sveitarfélaganna. Allir leikskólar og fimm grunnskólar af sjö á Snæfellsnesi hafa fengið Grænfánann, hafnirnar í Stykkishólmi og á Arnarstapa eru komnar með Bláfánann en báðir fánarnir undirstrika aukna umhverfisstjórnun og sjálfbærni í rekstri viðkomandi staða.
Úrgangsmál hafa verið stórlega bætt og í öllum sveitarfélögum er nú tekið á móti flokkuðum úrgangi og flest heimili eiga þess kost að vera með endurvinnslutunnu. Stefna sveitarfélaganna er mun skýrari og markvissari í öllum rekstri, innri verkferlar hafa verið bættir og innkaup beinast að umhverfisvottuðum vörum, auk þess sem ýmis öryggismál hafa verið endurskoðuð og yfirfarin.
Vottunarferlið hefur því eflt og skerpt ýmsar áherslur í rekstri sveitarfélaganna og gert þau enn betri fyrir íbúana, um leið og meira tillit er tekið til náttúrunnar. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er aðili að vottuninni og því fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi til að hljóta umhverfisvottun. Á Snæfellsnesi eru jafnframt fleiri vernduð svæði sem falla undir hið vottaða svæði.
Vottun Green Globe verður endurnýjuð árlega og sveitarfélögin setja sér jafnframt markmið um áframhaldandi árlegar úrbætur í rekstri sínum.
Kjartan Bollason úttektaraðili Green Globe á Íslandi mun afhenda forsvarsmönnum sveitarfélaganna og þjóðgarðsverði viðurkenningar um vottunina í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði sunnudaginn 8. júní kl. 14:30. Viðstaddir þessa tímamótaathöfn verða meðal annars forseti Íslands, forseti Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, alþingismenn og aðrir góðir gestir. Allir eru velkomnir.
Dagskrána má nálgast hér.
8. maí 2008
Krónprins hitti kóng
Í fyrradag kom Friðrik krónprins Danmerkur, Mary krónprinsessa og íslensku forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, í opinbera heimsókn til Stykkishólms. Þau heimsóttu Grunnskólann, Vatnasafnið, Norska húsið og kynntu sér dönsk áhrif á húsagerðarlist í Stykkishólmi.
Seinni hluta heimsóknarinnar var varið í siglingu um sunnanverðan Breiðafjörð á Særúnu, skipi Sæferða. Siglt var um eyjarnar í mynni Hvammsfjarðar, þar sem tækifæri gafst til að komast í mikla nálægð við konung fuglanna, haförn, og toppskarfa, ritur, fýla og lunda. Þá var plógur settur út og gestir gæddu sér á ferskum hörpudiski og ígulkerjahrognum. Punkturinn yfir i-ið var svo þegar háhyrningafjölskylda (5 einstaklingar) slóst í för og fylgdi skipinu drjúga stund.
Menja von Schmalensee, líffræðingur og sviðsstjóri Náttúrustofunnar, er dönsk að uppruna og var persónulegur leiðsögumaður höfðingjanna í ferðinni. Hún sagði þeim frá því sem fyrir augu bar og fræddi gestina um sérstöðu náttúru Breiðafjarðar.
Veitingahúsið Narfeyrarstofa sá um glæsilegar veitingar um borð. Á matseðli kokksins, Sæþórs Þorbergssonar, var breiðfirskt lostæti s.s. reykt hnísa og lundi, gæsa- og svartbaksegg, loðnuhrogn, kræklingur, þorskur og rauðspretta.
Stórkostleg náttúra Breiðafjarðar virtist koma krónprinsinum þægilega á óvart. Hann hafði orð á því í lok ferðarinnar að svæðið væri lítið kynnt náttúruperla sem jafnaðist fyllilega á við t.d. Gullfoss og Geysi.
Hér gefur að líta nokkrar ljósmyndir úr sjóferðinni.
Smellið á myndirnar til að skoða þær betur. Click on images to enlarge.
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
Ljósmyndir 2 og 3 tók Gunnlaugur Árnason, myndir 4 og 7 tók Sigurður R. Bjarnason og myndir 1, 5 og 6 tók Ólafur K. Ólafsson.
8. maí 2008
Margir skelltu sér í bíó
Í gær sýndi Páll Steingrímsson mynd sína um æðarfuglinn, Fuglar og fólk í Norðurkoti, á ráðhúsloftinu. Jón Einar Jónsson, líffræðingur á Háskólasetri Snæfellsness, sem einmitt leggur stund á æðarrannsóknir, aðstoðaði Pál við textagerð myndarinnar. Aðsókn var frábær og virtust áhorfendurnir 50 kunna vel að meta sýninguna.
7. maí 2008
Frábær aðsókn að skemmtilegum fyrirlestri
![]() |
Í gær hélt Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur, fyrirlestur á ráðhúsloftinu um eldvirkni á Snæfellsnesi. Aðsóknin var frábær þar sem 56 gestir mættu. Fyrirlesturinn var vel fluttur og virkilega áhugaverður. M.a. benti Haraldur á að að fjölmörg rannsóknatækifæri eru fyrir hendi þegar kemur að jarðfræðirannsóknum á Snæfellsnesi. Líflegar umræður spunnust í kjölfar erindisins.
5. maí 2008
Bíósýning – Fólk og fuglar í Norðurkoti
Smellið á auglýsinguna til að skoða hana betur.
Fimmtudaginn 8. maí nk., kl. 20:00, verður boðið til frumsýningar nýrrar íslenskrar myndar um æðarfugl og æðarrækt eftir Pál Steingrímsson, kvikmyndagerðarmann. Sýning myndarinnar er í samvinnu við Háskólasetur Snæfellsness, Náttúrustofu Vesturlands og Umhverfishóp Stykkishólms.
Sýningin verður á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Nánar má lesa um bíósýninguna með því að smella á auglýsinguna hér fyrir ofan.
2. maí 2008
Eldvirkni á Snæfellsnesi
Smellið á auglýsinguna til að skoða hana betur.
Þriðjudaginn 6. maí nk. kl.20:00 mun Haraldur Sigurðsson, prófessor við Háskólann í Rhode Island, halda fyrirlestur á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi.
Nánar má lesa um fyrirlesturinn með því að smella á auglýsinguna hér fyrir ofan.
28. apríl 2008
Refurinn – Sannleikur og sagnir
Smellið á auglýsinguna til að skoða hana betur.
Á morgun, þriðjudaginn 29. apríl, kl. 20:00, verður haldið á Hótel Ólafsvík fræðsluerindi og skemmtun í tengslum við viðburðaviku á Vesturlandi. Meðal annars mun Páll Hersteinsson, fremsti sérfræðingur landsins um refinn, flytja fræðsluerindi og Sæmundur Kristjánsson mun segja sögur af samskiptum manna og refa. Dagskrá skemmtunarinnar má sjá með því að smella á auglýsinguna hér fyrir ofan.
25. apríl 2008
Fyrirlestur um skarfa
smellið á auglýsinguna til að stækka hana
Næstkomandi mánudagskvöld kl. 20 heldur Arnþór Garðarsson, prófessor við Háskóla Íslands, fyrirlestur á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi.
Tvær tegundir skarfa, dílaskarfur og toppskarfur, eru staðfuglar hér við land á grunnsævi (innan við 20 m dýpi) og verpa aðallega á hólmum og skerjum Breiðafjarðar og Faxaflóa. Báðar tegundirnar henta að mörgu leyti vel til rannsókna, einkum þó dílaskarfurinn sem hér verður fjallað um. Athuganir á skarfastofnunum hófust 1975 og beindust í fyrstu að því að kanna útbreiðslu og fjölda hreiðra með notkun loftmynda. Mikil niðursveifla varð í fjölda dílaskarfs upp úr 1990 og var stofninn í lágmarki (2500 hreiður) um 1994. Þá var byrjað á árlegum talningum og hafa þær staðið sleitulaust síðan. Frá 1998 hefur aldurssamsetning stofnsins verið metin árlega, bæði að haustinu (september) og síðla vetrar (febrúar). Frá árinu 2007 er einnig farið að meta varpárangur í einstökum byggðum.
Á tímabilinu 1994-2007 fjölgaði í dílaskarfsstofninum í heild og voru hreiðrin orðin um 4500 vorið 2007. Frá 1998 hefur dregið úr viðkomunni (hlutfalli unga í september) en dauðsföll fullorðinna skarfa (um 15% á ári) hafa ekki breyst. Fjölgunin í stofninum virðist stafa af því að nýliðun varpfugla er meiri en nemur dauðsföllum þeirra, sem aftur mætti rekja til hagstæðra fæðuskilyrða, en fæðan er langmest marhnútur, auk sprettfisks, þyrsklings og smáufsa. Þótt fjölgun hafi orðið í stofninum, hafa fjöldabreytingar á einstökum svæðum ekki verið samstiga. Þannig hefur stofninn í suðvestanverðum Breiðafirði verið mjög lítill allt frá því um 1990 og skarfabyggðir í Vestureyjum hafa að mestu verið á undanhaldi í 30 ár. Undan Skarðströnd fjölgaði fram yfir aldamótin 2000 en síðan hefur fækkað jafnt og þétt. Á Gilsfirði og við Barðaströnd er sömu sögu að segja en fækkunin er minni. Á Hvammsfirði og Faxaflóa er fjölgunin enn mikil. Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að stofn dílaskarfs sé að nálgast takmörk sín og á næstunni verði mikil breyting á högum hans sem ætti að koma fram í þeim stofnþáttum sem nú eru metnir árlega. Hins vegar vantar tilfinnanlega vöktun á botnlífi og fiskum á grunnsævi sem væntanlega stýra viðgangi skarfa, sela, æðarfugls og fleiri áhugaverðra stofna.
Arnþór hefur um áratuga skeið rannsakað íslenska fugla, á síðari árum einkum sjófugla. Dílaskarfur hentar að mörgu leyti einkar vel til rannsókna og hefur Arnþór þróað aðferðafræði sem gerir kleift að fylgjast mjög náið með fjölda og varpútbreiðslu dílaskarfa.
21. apríl 2008
Berghlaupið við Morsárjökul, 20. mars 2007
Smellið á auglýsinguna til að stækka hana.
Miðvikudaginn 23. apríl nk. kl. 12:15-12:45 flytur Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur á Náttúrustofu Norðurlands vestra, erindi sem hann nefnir:Berghlaupið við Morsárjökul, 20. mars 2007.
Erindinu verður varpað um fjarfundarbúnað vítt og breitt um landið. Í Stykkishólmi er hægt að fylgjast með erindinu í Egilshúsi, en aðrir staðir þar sem hægt er að sjá fyrirlestrana eru:
Reykjavík: Háskóli Íslands, kjallari Odda
Ísafjörður: Háskólasetur Vestfjarða
Patreksfjörður: Þróunarsetur
Hólmavík: Grunnskólinn
Sauðárkrókur: Farskólinn Norðurlandi vestra
Akureyri: Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
Húsavík: Þekkingarsetur Þingeyinga
Egilsstaðir: Vonarland
Neskaupstaður: Verkmenntaskóli Austurlands
Vestmannaeyjar: Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja
14. apríl 2008
Green Globe úttekt á Snæfellsnesi
Í síðustu viku voru tveir úttektaraðilar frá Green Globe samtökunum staddir á Snæfellsnesi til að meta starfsemi sveitarfélaganna fimm (Eyja- og Miklaholtshrepps, Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar) og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og hvort hún væri í samræmi við markmið sjálfbærrar þróunar.
Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum unnið að undirbúningi þess að fá Green Globe vottun eins og lesa má um á heimasíðu verkefnisins,http://www.nesvottun.is/. Vinna að vottuninni miðar að því að bæta gæðastjórnun í rekstri sveitarfélaganna og þjóðgarðsins og mun auk þess m.a. nýtast svæðinu til markaðssetningar í ferðaþjónustu.
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá UMÍS í Borgarnesi, hefur verið einn aðal ráðgjafi verkefnisins. Hann var viðstaddur úttektina í síðustu viku og hefur skrifað ágæta frétt um hana og birt með myndum á heimasíðu fyrirtækis síns: http://www.environice.is/default.asp?sid_id=10217&tre_rod=001|002|&tId=2&fre_id=70637&meira=1
14. apríl 2008
Kynningarfundir vegna minkaveiðiátaks í Eyjafirði og á Snæfellsnesi
Umhverfisstofnun og umsjónarnefnd með minkaveiðiátaki boða til kynningarfundar um minkaveiðiátak í Eyjafirði og á Snæfellsnesi.
Sérstaklega eru boðuð til fundarins viðkomandi sveitarfélög og ráðgjafanefnd.
Fyrri fundurinn verður haldinn á Akureyri á morgun, þriðjudag.
Seinni fundurinn verður á efstu hæð ráðhúss Stykkishólmsbæjar, Hafnargötu 3 í Stykkishólmi, föstudaginn 18. apríl. Dagskrá hans verður sem hér segir:
12:00 | Kynning umsjónarnefndar með minkaveiðátaki Hugi Ólafsson umhverfisráðuneyti |
12:15 |
Veiðiátak á mink í Eyjafirði og á Snæfellsnesi |
12:45 | Rannsóknaniðurstöður minkarannsóknar á Snæfellsnesi Róbert Arnar Stefánsson Náttúrstofu Vesturlands |
13:15 | Fyrirspurnir |
14:30 | Fundi slitið |
25. mars 2008
Erindi um atferlisrannsókn á sauðfé á Ströndum
Smellið á auglýsinguna til að stækka hana.
Fimmtudaginn 27. mars nk., kl. 12:15-12.45, flytur Hafdís Sturlaugsdóttir, landnýtingarfræðingur á Náttúrustofu Vestfjarða, erindi sem hún nefnir: „Man sauður hvar gekk lamb“ og með hverjum? Atferlisrannsókn á sauðfé á ströndum.
Þetta er 10. erindið í fyrirlestraröð náttúrustofa og verður varpað um fjarfundarbúnað vítt og breitt um landið. Í Stykkishólmi er hægt að fylgjast með erindinu í Egilshúsi, en aðrir staðir þar sem hægt er að sjá fyrirlestrana eru:
Reykjavík: Háskóli Íslands, kjallari Odda
Ísafjörður: Háskólasetur Vestfjarða
Patreksfjörður: Þróunarsetur
Hólmavík: Grunnskólinn
Sauðárkrókur: Farskólinn Norðurlandi vestra
Akureyri: Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
Húsavík: Þekkingarsetur Þingeyinga
Egilsstaðir: Vonarland
Neskaupstaður: Verkmenntaskóli Austurlands
Vestmannaeyjar: Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja
19. mars 2008
Rannsóknir kynntar á Raunvísindaþingi
Dagana 14.-15. mars sl. var haldið Raunvísindaþing á vegum Raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Þingið var haldið í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskólans.
Náttúrustofa Vesturlands kynnti hluta af sínum rannsóknum á þremur veggspjöldum. Eitt þeirra fjallaði um vöxt og þyngdarbreytingar hjá minkum, annað um niðurstöður rannsókna á áhrifum vegfyllingar við Kolgrafafjörð á þéttleika og landnotkun minka en það þriðja var aðferðafræðilegs eðlis og fjallaði um hönnun rannsókna á landnotkun dýra með hjálp senditækja.
Áhugasamir geta kynnt sér efni veggspjaldanna nánar með því að smella á þau hér fyrir neðan.
1. Vöxtur og árstíðabundnar þyngdarbreytingar minka.
|
2. Áhrif breytingar á búsvæði á þéttleika og landnotkun minka. |
3. Tími milli staðsetninga í rannsóknum á heimasvæðum dýra.
|
26. febrúar 2008
Fyrirlestur um áhrif vegfyllingar og þverunar fjarðar á þéttleika og landnotkun minks
Fimmtudaginn 28. febrúar nk. kl. 12:15-12:45 er komið að 9. erindinu í fyrirlestraröð náttúrustofa. Róbert A. Stefánsson flytur erindi sitt og Menju von Schmalensee: Áhrif vegfyllingar og þverunar fjarðar á þéttleika og landnotkun minks. Erindið verður flutt í Egilshúsi og verður varpað um fjarfundarbúnað vítt og breitt um landið.
Aðrir staðir þar sem hægt er að sjá fyrirlestrana eru:
Reykjavík: Háskóli Íslands, kjallari Odda
Ísafjörður: Háskólasetur Vestfjarða
Patreksfjörður: Þróunarsetur
Hólmavík: Grunnskólinn
Sauðárkrókur: Farskólinn Norðurlandi vestra
Akureyri: Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
Húsavík: Þekkingarsetur Þingeyinga
Egilsstaðir: Vonarland
Neskaupstaður: Verkmenntaskóli Austurlands
Vestmannaeyjar: Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja
4. febrúar 2008
Hefur veðurfar áhrif á æðarvarp?
Fyrirlestur þriðjudaginn 5. febrúar kl. 20 á ráðhúsloftinu.
Jón Einar Jónsson, Háskólasetri Snæfellsness, hefur rannsakað andfugla í rúman áratug og vinnur nú að rannsóknum á stofnvistfræði æðarfugls á Íslandi. Rannsóknir hans beinast einkum að því að kanna áhrif veðurfars, loftslagsbreytinga og gæða búsvæða á æðarfugl. Greiningarnar byggja að miklu leyti á gögnum um fjölda hreiðra frá æðarbændum. Í fyrirlestrinum kynnir hann nýjar niðurstöður um fjölda varpfugla, komutíma í varp og hvort veður hafi einhver áhrif á þessar breytur.
Fyrirlesturinn er í boði Umhverfishóps Stykkishólms, Náttúrustofu Vesturlands og Háskólaseturs Snæfellsness.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
30. janúar 2008
Fyrirlestur um áhrif móður á lífssögu fiska
Komið er að 8. erindinu í fyrirlestraröð náttúrustofa. Fimmtudaginn 31. janúar kl. 12:15-12:45 flytur Sveinn Kári Valdimarsson, Ph.D., líffræðingur á Náttúrustofu Reykjaness erindi sem hann nefnir: „Fjórðungi bregður til fósturs og lengi býr að fyrstu gerð“ – hugleiðingar um áhrif móður á lífsögu fiska. Erindinu er varpað um fjarfundabúnað vítt og breitt um landið, þ.á.m. til Stykkishólms. Aðrir staðir þar sem hægt er að sjá fyrirlestrana eru:
Reykjavík: Háskóli Íslands, kjallari Odda
Ísafjörður: Háskólasetur Vestfjarða
Sauðárkrókur: Farskólinn Norðurlandi vestra
Akureyri: Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
Húsavík: Þekkingarsetur Þingeyinga
Egilsstaðir: Vonarland
Neskaupstaður: Verkmenntaskóli Austurlands
Vestmannaeyjar: Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja
Nánari upplýsingar má sjá í meðfylgjandi auglýsingu.
Smellið á auglýsinguna til að skoða hana nánar.
21. janúar 2008
Vegfylling virðist hafa áhrif á landnotkun minka
Náttúrustofa Vesturlands hefur nú lokið við rannsókn á áhrifum vegfyllingar í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi á þéttleika og landnotkun minka. Rannsóknin var unnin að beiðni Vegagerðarinnar í kjölfar þess að fram komu áhyggjur af mögulegri fjölgun minks vegna framkvæmdarinnar.
Náttúrustofan kannaði þéttleika og landnotkun staðbundinna minka við Kolgrafafjörð haustið 2003, áður en vegfyllingin var gerð, og haustið 2006 til samanburðar, u.þ.b. tveim árum eftir að framkvæmdum lauk. Minkar voru veiddir í lífgildrur, þeir merktir með senditækjum og fylgst með landnotkun þeirra að haustlagi og fyrri hluta vetrar.
Aðeins einn minkur hélt sig við fjörðinn haustið 2003. Hann dvaldi nær eingöngu við vesturströnd fjarðarins en notaði lítið það svæði sem síðar átti eftir að fara undir veg og vegfyllingu. Haustið 2006 voru a.m.k. þrír minkar staðbundnir við fjörðinn. Heimasvæði þeirra allra skaraðist við vegfyllinguna en enginn minkur fannst á því svæði sem minkurinn notaði haustið 2003. Vegfyllingin var ekki sérlega eftirsótt sem staður fyrir minkabæli en virtist aftur á móti vera lykilsvæði til fæðuöflunar fyrir mink.
Erfitt er að fullyrða um það hvort fjölgun staðbundinna minka eftir tilkomu vegfyllingarinnar hafi verið afleiðing hennar eingöngu, þótt vísbendingar séu um það. Breytingar í landnotkun minka við Kolgrafafjörð haustið 2006 benda hins vegar sterklega til að vegfyllingin skipti þá miklu máli og hafi bætt búsetuskilyrði fyrir minka við fjörðinn.
Nálgast má lokaskýrslu verkefnisins hér fyrir neðan með því að smella á forsíðuna. Prentúgáfa skýrslunnar er 4,05 mb. en netútgáfan 1,76 mb.
16. janúar 2008
Greinargerð um ástand hörpudisksstofnsins
Náttúrustofa Vesturlands og Háskólasetur Snæfellsness hafa látið Jónas Pál Jónasson, sjávarlíffræðing, vinna fyrir sig greinargerð um hörpudiskinn á Breiðafirði. Þar er gefið ítarlegt yfirlit um þær upplýsingar sem liggja fyrir um ástand hörpudisksstofnsins en hann hefur verið í mikilli lægð á þessum áratug. Lítið hefur breyst þrátt fyrir veiðibann frá því snemma árs 2003.
Jónas stundar doktorsnám á reki þorsklirfa við Háskóla Íslands. Hann hefur sjálfur talsvert rannsakað hörpudisk og lauk t.a.m. meistaraprófsritgerð um tegundina. Í greinargerðinni rekur hann líffræði hörpudisks, sögu veiðanna, þróun stofnsins í Breiðafirði og ræðir um framtíð veiða og rannsókna í Breiðafirði.
Rakin eru gögn sem tengjast hruni stofnsins í Breiðafirði, sem benda til þess að nokkrir samverkandi þættir hafi orsakað hrunið en að þeir mikilvægustu hafi verið nýliðunarbrestur og fiskveiðidauði.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér nánar efni þessarar áhugaverðu greinargerðar geta skoðað hana í heild sinni með því að smella á forsíðumyndina hér að neðan.
8. janúar 2008
Áhrifa síldargengdar gætir í fuglalífi á Breiðafirði
Undanfarna daga hefur staðið yfir árleg vetrarfuglatalning vítt og breitt um landið en Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um þessar árlegu talningar. Við sunnanverðan Breiðafjörð voru að þessu sinni talin þrjú svæði og sá Náttúrustofan um eitt þeirra að venju.
Róbert A. Stefánsson, starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands, taldi svæði sem nær frá Eiði við vestanverðan Kolgrafafjörð að vegfyllingu yfir Hraunsfjörð; svæði sem hann hefur nú talið árlega frá því í janúar 2001. Að þessu sinni sá hann 19 fuglategundir og voru fuglar nú fleiri en nokkru sinni frá því vöktun þessa svæðis hófst eða 3.554.
Óvenjulega mikil síld hefur haldið til í sunnanverðum Breiðafirði undanfarna mánuði eins og tíundað hefur verið í fjölmiðlum. Kom það greinilega fram í niðurstöðum talninganna, þar sem óvenjulega mikið var af þeim fuglategundum sem helst sækja í uppsjávarfisk, t.d. máfum, skörfum, toppöndum og teistum. Á svæði Náttúrustofunnar voru t.a.m. 7 sinnum fleiri svartbakar og um þrisvar sinnum fleiri hvítmáfar en þeir höfðu áður verið flestir. Einnig er athyglisvert að æðarfugli hefur fjölgað nokkuð jafnt og þétt á svæðinu á síðustu 8 árum en ekki er vitað hvort sú fjölgun stafar af raunverulegri fjölgun æðarfugla eða tilflutnings á milli svæða.
Auk talningarsvæðis Náttúrustofunnar taldi Tómas G. Gunnarsson við Stykkishólm og Jón Einar Jónsson svæði við Álftafjörð en báðir eru starfsmenn Háskólaseturs Snæfellsness.
Finna má nánari upplýsingar um niðurstöður vetrarfuglatalninga, þ.á.m. á öðrum svæðum á Vesturlandi, á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands,http://www.ni.is/dyralif/fuglar/vetrarfuglar/talning2007/talning02-07.
1. mynd. Á talningarsvæði Náttúrustofunnar við Kolgrafafjörð og Hraunsfjörð hafa sést 14-21 tegund og um 1.000-3.500 fuglar. Fjöldi fugla hefur vaxið frá því vöktun svæðisins hófst og skýrist sá vöxtur að miklu leyti af fjölgun æðarfugls. Orsakir hennar eru ókunnar.
1. tafla. Niðurstöður fuglatalningar við hluta Kolgrafafjarðar og Hraunsfjarðar í janúar 2008 og samanburður við fyrri talningar.
Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargatu 3, 340 Stykkishólmur
s. 433-8121
GSM 898-6638
Fax 438-1705
nsv@nsv.is
www.nesvottun.is
www.breidafjordur.is
www.ni.is
www.ust.is
www.hafro.is
www.fuglavernd.is
... fleiri tenglar