Náttúrustofa Vesturlands (NSV) – West Iceland Nature Research Center

  • Miðlun
    • Fréttir
    • Skýrslur og greinargerðir
    • Ritaskrá
    • Umhverfishópur
    • Fróðleikur
    • Tenglar
  • Verkefni
    • Almennt
    • Grunnrannsóknir
    • Þjónustuverkefni
  • Náttúrustofan
    • Lög
    • Reglugerðir
    • Hlutverk
    • Náttúrustofur
    • Um NSV
    • Stjórn NSV
    • Starfsfólk
  • Starfsfólk
Forsíða Miðlun Fréttir ársins 2002

4. desember 2002

Tvær silkitoppur ( Bombycilla garulus ) voru í Hólmgarði, seek föstudaginn 29. nóvember. Ann Linda Denner tilkynnti um fuglana og sagði þá hafa setið í reynitré og gætt sér á berjum.

Silkitoppa er fallegur spörfugl, ambulance 18-21 cm á lengd. Hún er auðgreind á skrautlegum fjaðurham sínum. Grunnlitur er grábleikur og höfuðtoppur áberandi. Silkitoppan verpur í norðurhluta barrskógabeltisins frá Skandinavíu og austur um. Hún er óreglulegur flækingur á Íslandi en kemur stundum í stórum hópum. Alls sáust silkitoppur á 8 stöðum á landinu í nóvember.

Á Íslandi sækja silkitoppur í reyniber og önnur aldin í görðum, en nú er lítið um æti fyrir þær hér og þiggja þær þá gjarnan epli eða annað álíka góðgæti.

Róbert A. Stefánsson, Náttúrustofu Vesturlands

(Teikn. úr Collins Bird Guide 1999, K. Mullarney, L. Svensson, D. Zetterström, P.J. Grant.  Harper Collins Publ. Ltd.)

 

29. nóvember 2002

164 minkar veiddir til merkingar

Nú er lokið öðrum áfanga rannsóknar Náttúrustofu Vesturlands á minkastofninum á Snæfellsnesi. Fyrsti áfanginn hófst síðsumars 2001 og stóð út októbermánuð sama ár, þegar minkar voru veiddir í lífgildrur og merktir á öllu Snæfellsnesi. Annar áfangi fór fram í sumar og haust þegar veiðar fyrra árs voru endurteknar. Gildrum var k omið fyrir víða um sýsluna og minkar sem veiddust merktir með frostmerki á læri afturfótar og örmerki undir húð á baki. Þegar veiðimenn svo drepa mink sjá þeir merkið sem hvítan blett eða hár á læri afturfótar. Þá má ganga úr skugga um hvar og hvenær minkurinn var merktur með því að senda hann til Náttúrustofunnar, þar sem lesið er af merkinu.

Hvatinn að framkvæmd verkefnisins var að þrátt fyrir að minkur hafi verið veiddur frá því fljótlega eftir landnám hans fyrir um 70 árum, hafa þær veiðar ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir, jafnvel þótt ríki og sveitarfélög hafi kostað um 850 milljónum á núvirði til minkaveiða á síðustu 45 árum. Skýringa þess er e.t.v. að leita í því að tegundin hefur mikla aðlögunarhæfni, er frjósöm og skammlíf. Þær fækkunaraðgerðir sem notaðar hafa verið hingað til eru því aðeins líklegar til að skila staðbundnum og tímabundnum árangri.

Markmið rannsóknarinnar eru að fá upplýsingar um stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi, áhrif veiða á stofninn, náttúruleg vanhöld minka og ferðir þeirra en öll þessi atriði munu hjálpa til við að skipuleggja veiðar betur og ná þannig frekar árangri.

Í fyrra voru 84 minkar veiddir til merkingar og í ár veiddust jafn margir. Af þessum 168 minkum hafa 15 endurheimst með veiðum minkabana en vitað er að 14 drápust af öðrum orsökum. Því er ljóst að 139 merktir minkar ganga enn lausir eða hafa drepist af náttúrulegum orsökum.

Gera má ráð fyrir að árið 2004 megi reikna út stofnstærð að hausti út frá endurheimtum en fáir minkar ná meira en tveggja ára aldri, þótt dæmi séu um allt að 7 ára mink. Endurheimturnar gefa mikilvægar upplýsingar, sem vonandi munu nýtast til að bæta stjórnun minkaveiða og gera þær árangursríkari.

Mikilvægt er að allir veiddir minkar á Vesturlandi séu sendir til Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi til rannsóknar, svo rannsóknin verði sem áreiðanlegust. Hlutur veiðimanna í verkefninu er mikilvægur og hafa margir þeirra brugðist vel við og sent veiði sína. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.

Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands.

 

14. nóvember 2002

Krossnefur í Stykkishólmi

Á haustin og vorin, þegar fuglar ferðast oft langar leiðir milli varpstöðva og vetrarstöðva, villast alltaf einhverjir af leið og flækjast þá stundum óvenjulegir fuglar til landsins. Á það sérstaklega við eftir suðvestanáttir á haustin.

Á síðunni var nýlega sagt frá gráhegrum í Stykkishólmi. Sjaldséðari flækingsfugl, en þó næstum árvissan Íslandsvin, fann Eiríkur Helgason í fjárhúsi sínu við skógræktarsvæðið að Grensási í seinni hluta október. Hann sá fuglinn hamast innan á glugga fjárhússins og handsamaði hann. Um var að ræða krossnef ( Loxia curvirostra ), sem er stór finkutegund (lengd 17 cm). Hann lifir víða í barrskógum í norðlægum löndum en finnst einnig á ákveðnum svæðum sunnar, allt suður til N-Afríku og Mexíkó. Helsta einkenni krossnefs er sterklegt nef þar sem efri og neðri hluti skoltsins svegjast hvor til sinnar hliðar og ganga því á víxl þegar fuglinn bítur saman (líkt og skæri), sem er líklega aðlögun að því að ná fræjum úr könglum barrtrjáa. Litur krossnefja er breytilegur, ýmist gráleitur (ungar), gul-grænleitur (kvenfuglar) eða rauður (karlfu glar). Fuglinn hjá Eiríki er að líkindum kvenfugl.

Krossnefir ferðast oft um í hópum í ætisleit og hafa stundum flækst hundruð fugla til Íslands í einu, síðast fyrir ári síðan. Komur svo margra fugla í einu hafa gjarnan verið tengdar fæðuskorti á heimaslóðum í Skandinavíu eða Rússlandi. Vitað er um eina varptilraun krossnefja á Íslandi en það var árið 1994 í Fljótshlíð.

Róbert A. Stefánsson

Myndatextar:

1.    Krossnefurinn í Stykkishólmi (ljósm. RAS)

2.    Töluverður litamunur getur verið á krossnefjum (teikn. úr Lars Jonsson 1992. Birds of Europe. Christopher Helm Ltd.

 

6. nóvember 2002

Fleiri gráhegrar

Í gær var sagt frá því hér á síðunni að gráhegri hefði sést í Stykkishólmi að undanförnu.  Í dag fór svo Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofunnar í stuttan bíltúr um bæinn og fann FIMM unga gráhegra í hópi við Landeyjarsund.  Miðað við það hversu stutt var leitað er ekki ólíklegt að fleiri leynist í nágrenninu.  Hafið því augun opin.

 

5. nóvember 2002

Gráhegri í Stykkishólmi

Gráhegri hefur sést í Stykkishólmi að undanförnu.  Hann sást fyrst 24. október við Maðkavík en hefur síðan sést við höfnina og aftur við Maðkavík í gær 4. nóvember.

Gráhegrar eru stórir og tilkomumiklir vaðfuglar.  Þeir verpa ekki á Íslandi en nokkrir flækjast hingað á hverju hausti og sjást þá helst í fjörum og við ár og vötn sem ekki frjósa.  Þeir eru háfættir og hálslangir, ljósir á kvið en með gráa vængi.  Einnig má sjá svartar flikrur á kvið og höfði.  Á flugi eru þeir fremur þunglamalegir en eru auðþekkjanlegir á breiðum og löngum vængjum, sem minna reyndar dálítið á arnarvængi nema bognari.  Að auki greinast þeir frá örnum á flugi á lögnum fótum sem skaga aftur fyrir stélið.  Vænghafið er 155-175 cm. en standandi eru þeir 84-102 cm. á hæð, eftir því hvort hálsinn er uppréttur.

Talið er að flestir gráhegrar komi hingað frá Noregi en hafi villst af leið sinni suður til mið-Evrópu.

Tekið er við ábendingum um sjaldgæfa og/eða óvenjulega fugla á Náttúrustofu Vesturlands í síma 438 1122 eða í tölvupósti nsv@stykkisholmur.is

Róbert A. Stefánsson,

forstöðumaður.

Á meðfylgjandi mynd má sjá gráhegrann í fjöruborðinu í Maðkavík.  Íris Huld tók myndina með stafrænni myndavél í gegnum fjarsjá Náttúrustofunnar.

Heimild: www.skessuhorn.is
30. október 2002

Lítil mengun vegna frárennslis í Snæfellsbæ og Stykkishólmi
Sparnaður upp á hundruðir milljóna ef tekið verður tillit til hagstæðra sjávarfalla

Bæjarstjórnir Snæfellsbæjar og Stykkishólms hafa fengið Náttúrustofu Vesturlands til að mæla mengun vegna frárennslis í sjó á hvorum staðnum fyrir sig. Náttúrustofan hefur skilað skýrslum yfir ástand í frárennslismálum á báðum stöðum og bendir útkoman til þess að hugsanlega geti bæði sveitarfélögin komist af með mun minni kostnað en áætlað var við að lengja og lagfæra útrásir í sjó. Sem kunnugt er eiga öll sveitarfélög landsins að vera búin að uppfylla skilyrði um frárennsli í sjó samkvæmt heilbrigðisreglugerð fyrir árið 2005. „Ástandið er mjög gott og staðfestir það sem við höfum talið að hér væri mikil hreinsun vegna mikilla sjávarfalla,“ segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar. Það þarf hugsanlega að lengja sumar útrásirnar en að öðru leyti viljum við meina að stöðug vöktun með reglulegum mengunarmælingum ætti að nægja. Ef það fæst viðurkennt þurfum við ekki að leggja í kostnað upp á 300 – 500 milljónir við hreinsun. Við munum með öðrum orðum fara fram á það við umhverfisráðuneytið að það verði metið þegar gerðar eru kröfur um lengingu útrásanna hverjar aðstæður eru frá náttúrunnar hendi. Það er ljóst að ef það verður tekið til greina erum við að tala um sparnað upp á fleiri hundruð milljónir króna,“ segir Kristinn.

„Samkvæmt skýrslunni er aðeins mengun við eina útrás hjá okkur sem þýðir að þær kröfur sem við eigum að uppfylla eins og staðan er í dag er ekki í neinu samhengi við raunveruleikann,“ segir Óli Jón Gunnarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar. „Heildarframkvæmdir hjá okkur vegna lenginga og samtenginga útrása eru um 200 milljónir samkvæmt áætlun en við erum að tala um að við getum helmingað þá upphæð ef okkar rök eru tekin gild og ég sé ekki forsendu til annars,“ segir Óli Jón.

Eldri fréttir

Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargatu 3, 340 Stykkishólmur
s. 433-8121
GSM 898-6638
Fax 438-1705
nsv@nsv.is

www.nesvottun.is
www.breidafjordur.is
www.ni.is
www.ust.is
www.hafro.is
www.fuglavernd.is
... fleiri tenglar

Þessi vefur notar vafrakökur! Vafrakökur
Allur réttur áskilinn 2015 - Anok margmiðlun ehf
  • /Miðlun
    • /Fréttir
    • /Skýrslur og greinargerðir
    • /Ritaskrá
    • /Umhverfishópur
    • /Fróðleikur
    • /Tenglar
  • /Verkefni
    • /Almennt
    • /Grunnrannsóknir
    • /Þjónustuverkefni
  • /Náttúrustofan
    • /Lög
    • /Reglugerðir
    • /Hlutverk
    • /Náttúrustofur
    • /Um NSV
    • /Stjórn NSV
    • /Starfsfólk
  • /Starfsfólk