9. desember 2005

Háskólasetur í Stykkishólm

Háskólasetur Snæfellsness verður stofnað í Stykkishólmi á árinu 2006. Þetta kemur fram í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi frá Alþingi. Náttúrustofa Vestur-lands og Stykkishólmsbær hafa á undanförnum mánuðum unnið að málinu í samvinnu við Háskóla Íslands og er sú vinna nú að bera ávöxt. Gert er ráð fyrir að Háskólasetur Snæfellsness verði rannsóknasetur, tadalafil þar sem unnið verður að náttúrurannsóknum í náinni samvinnu við Náttúrustofuna. Til að byrja með verður einn starfsmaður ráðinn en vonir standa til að í framtíðinni verði þeir fleiri og að nemar í framhaldsnámi í náttúrufræðum muni nýta sér aðstöðuna í Stykkishólmi. Þeir sem vilja kynna sér nánar út á hvað hugmyndin gengur, case geta skoðað greinargerð hér .

 

 

 

 

 

 

 

 

28. nóvember 2005

Litla kálfiðrildi í Stykkishólmi

Fimmtudaginn 24. nóvember sl. fann Símon Karl Sigurðarson óvenjulegt fiðrildi á flögri í eldhúsi í Lágholti. Hann kom með það til greiningar á Náttúrustofu Vesturlands og kom í ljós að um var að ræða fiðrildi sem ýmist er nefnt litla kálfiðrildi eða litli kálskjanni (Artogeia rapae eða Pieris rapae). Líklegast er að fiðrildið, sem er mjög algengt um alla Evrópu, að fjarlægum eyjum eins og Íslandi undanskildum, hafi borist á heimili Símonar með grænmeti eða ávöxtum. Vænghaf fiðrildisins er um 45 mm. Lirfan lifir á káli og veldur ásamt frænda sínum, stóra kálskjanna eða stóra kálfiðrildi ( Pieris brassicae L.), töluverðu tjóni. Fiðrildið berst hingað öðru hvoru en hefur ekki náð að festa sig í sessi.

Fleiri myndir af litla kálfiðrildi

 

8. nóvember 2005

Náttúrustofuþing á Húsavík

Sjö náttúrustofur starfa á landinu. Forstöðumenn og hluti af starfsfólki þeirra og stjórnarmönnum komu saman í Hvalamiðstöðinni á Húsavík 3.-4. nóvember síðastliðinn til að ræða sín mál en á Húsavík starfar yngsta náttúrustofa landsins, Náttúrustofa Norðausturlands. Fundurinn var gagnlegur og er ljóst að samstarf milli náttúrustofa fer vaxandi. Ný stjórn Samtaka náttúrustofa (SNS) var kosin en hana skipa Sveinn Kári Valdimarsson, formaður, Ingvar A. Sigurðssson og Guðrún Á. Jónsdóttir.

Eftir hádegi seinni daginn var haldið opið málþing þar sem starfsemi náttúrustofa var kynnt ásamt því að haldin voru áhugaverð erindi um klasa og náttúrustofur, fræðasetur, þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum og ástand rjúpnastofnsins og horfur. Málþingið var vel sótt og sköpuðust þar fjörlegar umræður.

Myndir (Ingvar A. Sigurðsson)

1.  Samstarfssamningur Samtaka náttúrustofa og Hólaskóla – háskólans á Hólum undirritaður.

2. Hluti gesta á Náttúrustofuþingi.

3. Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hélt ræðu við upphaf þingsins.

13. október 2005

Þann 6. október sl. stóð Umhverfishópur Stykkishólms fyrir skoðunarferð á virkjanasvæði Múlavirkjunar á Snæfellsnesi. Á þriðja tug fullorðinna og myndarlegur barnahópur mætti í ferðina. Farið var að stöðvarhúsinu, stíflu efst í Straumfjarðará og að Hraunsfjarðarvatni. Áhugi fólks fyrir framkvæmdunum var mikill og sköpuðust líflegar umræður á staðnum. Meðfylgjandi eru fáeinar myndir úr ferðinni.

Hluti hópsins við stöðvarhúsið við Straumfjarðará í Dufgusdal.

Göngubrú hefur verið sett yfir Straumfjarðará að stöðvarhúsinu.

Stíflan efst í Straumfjarðará.

Hluti hópsins við Hraunsfjarðarvatn. Horn í baksýn.

 

4. október 2005

 

Vistvernd í verki

Í kvöld mun Umhverfishópur Stykkishólms standa fyrir fyrirlestri um verkefnið „Vistvernd í verki“.  Bryndís Þórisdóttir, verkefnisstjóri mun flytja fyrirlesturinn og svara spurningum. Þeir sem vilja kynna sér verkefnið nánar geta heimsótt heimasíðu Landverndar á http://www.landvernd.is/vistvernd/ .
Fyrirlesturinn verður á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi og hefst kl. 20:00. Allir hjartanlega velkomnir.

 

4. október 2005

Nýtt símanúmer Náttúrustofu Vesturlands

Nýtt símkerfi hefur verið tekið í notkun hjá Stykkishólmsbæ og Náttúrustofu Vesturlands.  Símanúmer Náttúrustofunnar er 433-8121 og bein númer starfsmanna eru eftirfarandi:

Róbert Arnar Stefánsson 433-8122
Menja von Schmalensee 433-8121
Sigríður E. Elisdóttir 433-8121
Þórunn Sigþórsdóttir 433-8123
Sigrún Bjarnadóttir 433-8123

 

16. september 2005

Grunnskólakrakkar skoða lífríki sjávar

Í gær og í dag hafa þrír bekkir Grunnskólans í Stykkishólmi, annar, þriðji og nýjundi, heimsótt Náttúrustofu Vesturlands. Tilgangurinn var að fræðast um fiska í sjó. Fiskmarkaður Íslands útvegaði fiska og voru þeir skoðaðir að utan og innan. Börnin sýndu mikinn áhuga og er þökkuð heimsóknin.

 

1. september 2005

 

Umhverfisfulltrúi kominn til starfa

Í dag hóf störf á Náttúrustofunni Þórunn Sigþórsdóttir, ferðamálafræðingur, sem ráðin hefur verið í starf umhverfisfulltrúa. Um hálft starf er að ræða en hún mun vinna að umhverfismálum sveitarfélaga á Snæfellsnesi í tengslum við vottun þeirra hjá samtökunum Green Globe 21. Þórunn er boðin velkomin til starfa.

26. ágúst 2005

Flundra breiðist út

Í sumar hafa Náttúrustofu Vesturlands borist nokkrar tilkynningar um flatfiska í ám og vötnum. Er hér um að ræða flundrur (Platichthys flesus ) sem nýlega hafa numið land á Íslandi og virðast vera orðnar nokkuð algengar um sunnan- og vestanvert landið. Það sem gerir flundruna ólíka flestum öðrum sjávarfiskum er að hún sækist eftir ísöltu vatni og finnst gjarnan í og við árósa, lón og firði með lágri seltu. Hún þolir einnig ferskt vatn stutta stund og gengur jafnvel upp í ár og vötn. Flundran er útbreidd um grunnsævi Evrópu allt frá Miðjarðar- og Svartahafi í suðri til norðurstranda Skandinavíu og Rússlands í norðri. Þar til nýlega fannst hún ekki við Ísland en síðustu misseri hefur orðið vart við flundrur t.d. í Ölfusá, Varmá og Hlíðarvatni á Suðurlandi. Á Snæfellsnesi hafa flundrur fundist í Straumfjarðará, Staðará, Lárvaðli og Hraunsfirði ofan stíflu.

Flundran getur orðið um 30 cm löng og eru árlega um 10 þúsund tonn af henni veidd í gildrur og net í Evrópu.

 

8. júní 2005

Fuglaskoðun Náttúrustofunnar

Síðastliðinn laugardag fór 13 manna hópur í fuglaskoðunarferð í boði Náttúrustofu Vesturlands.  Farið var í blíðskaparveðri hringinn í kringum Snæfellsnes.  Alls sáust 42 tegundir fugla, en athyglisverðast var þó að sjá skutulandarpar á Hofgarðatjörn og hvorki fleiri né færri en 11 skeiðandarsteggi á vötnunum í Staðarsveit.  Að auki sást háhyrningsvaða út af Hellnum.  Meira….

 

28. maí 2005

Flaggað í Stykkishólmi

Í veðurblíðunni í Stykkishólmi í gærmorgun var dreginn að húni Benchmark fáni Green Globe 21 en honum var flaggað við Ráðhúsið.  Síðar sama dag var Bláfánanum flaggað þriðja árið í röð við Stykkishólmshöfn.

Green Globe 21 Benchmarked fáninn táknar að sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi hafa mætt viðmiðum Green Globe 21, sem er annað þrep af þremur í vottunarferlinu. Bláfáninn er alþjóðlegt merki sem hefur þann tilgang að stuðla að verndun hafs og stranda.

Bláfánann hljóta þeir einir sem leggja sig fram um að auka gæði og þjónustu stranda og smábátahafna ogstuðla að verndun umhverfis.

 

25. maí 2005

Umhverfisfulltrúi

Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi auglýsir eftir umhverfisfulltrúa til að sinna umhverfismálum sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi. Um er að ræða 50% stöðu, sem felur í sér eftirfylgni og vinnu vegna Green Globe 21 vottunar sveitarfélaganna ásamt vinnu að málefnum Staðardagskrár 21.

Umsækjandi þarf að hafa áhuga á umhverfismálum, hafa góða enskukunnáttu og samskiptahæfileika. Þá er nauðsynleg þekking á helstu tölvuforritum, s.s. Word, Excel og Powerpoint. Menntun eða reynsla á sviði umhverfismála eða náttúrufræða er æskileg en ekki skilyrði.

Um réttindi og skyldur fer skv. kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga.

Umsóknum ásamt upplýsingum um menntun og starfsferil skal skila bréfleiðis til Náttúrustofu Vesturlands fyrir 15. júní. Nánari upplýsingar veitir Menja í s. 438 1122 eða menja@nsv.is .

Náttúrustofa Vesturlands, Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi.

 

20. maí 2005

Vöktun rjúpunnar

Um þessar mundir standa yfir talningar vegna vöktun rjúpnastofnsins. Verkefnið er undir stjórn Ólafs K.

Nielsen, fuglafræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands, en unnið í samstarfi við náttúrustofur og áhugafólk víða um land. Meðal þess sem er gert, er að heimsækja sömu svæði á hverju vori og telja rjúpur. Fjögur slík svæði eru á umráðasvæði Náttúrustofu Vesturlands, eitt við Hundastapa á Mýrum en þrjú við sunnanverðan Breiðafjörð, þ.e. í Litla-Langadal, við Dunká og á Dagverðarnesi.Meira…

3. maí 2005

Glókollastofninn hruninn!

Nú í vor kannaði Náttúrustofa Vesturlands útbreiðslu glókolls ( Regulus regulus ) á Vesturlandi eins og vorin tvö þar á undan. Svo virðist sem glókollum hafi fækkað verulega frá fyrra ári eftir fjölgun og útbreiðsluaukningu árið á undan, því nú fundust glókollar aðeins á tveim svæðum af þeim 43 sem leitað var á, samanborið við 20 af 43 svæðum í fyrra.

Talið er að glókollur hafi fyrst orpið á Íslandi í kjölfar þess að óvenjulega margir einstaklingar hröktust hingað til lands haustið 1995 (Gunnlaugur Pétursson og Gunnlaugur Þráinsson 1997).

Í glókollaleit Náttúrustofunnar árið 2003 fundust glókollar á 9 stöðum af 38 (24%) en árið 2004 voru glókollar á 20 af 43 stöðum (47%). Í ár eru sem sagt glókollar á 2 af 43 stöðum (5%). Þessar tölur eru allar lágmarkstölur, því hugsanlegt er að glókollur finnist í skógi þótt hann svari ekki glókollasöngnum sem spilaður var af geisladiski.

Orsakir þessarar fækkunar eru ekki kunnar, þótt nokkrar tilgátur hafi verið settar fram. Ekki er þó ólíklegt að tíðafar og/eða breytingar á fæðuframboði hafi þar leikið lykilhlutverk.

(ljósmynd: Daníel Bergmann)

28. apríl 2005

Fuglafyrirlestur vel sóttur

Í gærkvöldi hélt Guðmundur A. Guðmundsson fyrirlestur á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi um farfugla, þar sem hann fjallaði m.a. um hæfileika þeirra til rötunar. Margt athyglisvert kom fram í máli Guðmundar en meðal þess var að fuglar nota sólaráttavita, segulsvið jarðar, stjörnur, lykt, hljóð o.fl. til að rata á milli vetrar- og sumardvalarstaða sinna. Sumir þeirra ferðast þúsundir kílómetra á tiltölulega skömmum tíma tvisvar á ári.  Fyrirlesturinn var vel sóttur og sköpuðust áhugaverðar umræður í kjölfarið. Meira….

 

25. apríl 2005

Hvernig rata fuglarnir?

Næstkomandi miðvikudagskvöld (27. apríl) boðar Náttúrustofa Vesturlands til fyrirlestrar um farfugla:Hvernig rata farfuglarnir?   Fyrirlesari er Guðmundur A. Guðmundsson, fuglafræðingur á Náttúrfræðistofnun Íslands.  Fyrirlesturinn verður haldinn á ráðhúsloftinu, Hafnargötu 3, kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

22. apríl 2005

Útbreiðsla glókolls á Vesturlandi

Glókollur er nýlegur landnemi en hefur fjölgað hratt og breiðst út síðastliðin 10 ár.  Náttúrustofa Vesturlands hefur kannað útbreiðslu glókolls á Vesturlandi á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni norður í Gilsfjörð.  Nánar má lesa um útbreiðslu glókolls í nýlegri grein sem birt var í Blika í febrúar sl. og skrifuð var af Róberti Arnari Stefánssyni og Sigrúnu Bjarnadóttur.  Einnig má nálgast greinina hér .

 

12 . apríl 2005

Snjógæs á Hvanneyri

Á sunnudag sást snjógæs ( Anser caerulescens ) innan um aðrar gæsir á Hvanneyri í Borgarfirði. Snjógæsir sjást árlega á Íslandi, oftast í fylgd blesgæsa (Anser albifrons ), sem fara um Ísland vor og haust á milli vetrarstöðva á Írlandi og S kotlandi og varpstöðva á V-Grænlandi. Snjógæsin verpur í Alaska, á heimskautasvæðum Kanada og á NV-Grænlandi.

Mikill fjöldi blesgæsa hefur viðdvöl á Hvanneyri en þar hefur ákveðið svæði af þeim sökum verið verndað með svokallaðri búsvæðavernd.

 

6. apríl 2005

Skýrsla um ástand skólpmála í Stykkishólmi

Náttúrustofa Vesturlands hefur gefið út skýrslu um ástand sjávar við strendur Stykkishólms með tilliti til saurgerla mengunar. Skýrslan byggir á rannsókn þar sem fylgst var með gerlamengun í sjó og fjörum við útrásir í bænum í heilt ár. Niðurstöðurnar munu gagnast við hönnun og ákvarðanatöku varðandi framkvæmdir sem leggja þarf út í til að uppfylla reglugerðir sem nú styttist í að taki að fullu gildi.

 

22. mars 2005

Farfuglarnir koma

Vorið er á næsta leyti. Eitt skýrasta dæmi þess er að farfuglarnir eru byrjaðir að koma til landsins. Einn sá fyrsti, sílamáfurinn, kemur jafnan til landsins í mars en svo tínast tegundirnar inn allt fram í maí. Hann hefur sést á suðvesturhorni landsins undanfarna daga en virðist ekki enn kominn á Snæfellsnes. Aðrar tegundir sem eru farnar að tínast til landsins en eru að litlu leyti komnar á Snæfellsnes eru hettumáfar, skógarþrestir, tjaldar, álftir og gæsir. Í gær sá svo Tómas G. Gunnarsson, fuglafræðingur, fyrstu tvær brandendurnar í grennd við varpstöðvarnar í Borgarfirði, nánar tiltekið á Borgarvogi við Borgarnes. Þær hafa aldrei fyrr sést jafn snemma á Íslandi.

Náttúrustofa Vesturlands tekur gjarnan við upplýsingum um komu farfugla á Vesturlandi í síma 438 1122.

 

16. mars 2005

Minkur á Hrafnaþingi

Í dag 16. mars,  klukkan 12.15, mun Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands flytja erindið “Eru viðhorf til minksins á rökum reist?” á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Möguleikhúsinu (http://www.ni.is/efst/erindi_robert_menja_05.html ).

Óhætt er að fullyrða að minkurinn sé á meðal óvinsælustu dýra landsins. Margir Íslendingar hafa sterkar skoðanir á honum, lífsháttum hans og áhrifum á aðrar tegundir og eru þessi viðhorf að jafnaði neikvæð. Sagt verður frá niðurstöðum íslenskra rannsókna sem hjálpað gætu til við að varpa ljósi á það hvort viðhorfin til minksins séu á rökum reist.

Aðskotadýr í íslenskri náttúru

Þrátt fyrir efasemdaraddir í upphafi, átti minkur ekki í erfiðleikum með að glíma við íslenska náttúru og skapaði sér fljótlega orðspor sem öflugt og afkastamikið rándýr sem léti fátt lifandi óáreitt. Af þeim sökum er dýrið oft stórt í hugum þeirra sem minna til hans þekkja og grimmt í augum flestra. Meirihluti fólks er þeirrar skoðunar að minkurinn sé aðskotadýr í náttúru landsins, sem eigi að uppræta ef mögulegt er. En er það raunhæfur möguleiki?

Áhrif á aðrar tegundir
Neikvætt orðspor minksins hefur einkum mótast af því að fái hann tækifæri til, drepur hann gjarnan meira en hann kemst yfir að éta. Þannig eru mörg dæmi um að minkur hafi á skömmum tíma skemmt eða eyðilagt þétt vörp nokkurra fuglategunda, einkum sjófugla.  Þannig getur hann haft töluverð svæðisbundin áhrif og líklegt er að hann hafi átt þátt í fækkun tegunda á landsvísu, þótt sennilega sé algengara að áhrif hans séu minni.

Í fyrirlestrinum mun Róbert fjalla um framangreind viðhorf til minksins og sýna rannsóknaniðurstöður sem tengjast þeim beint og óbeint.

 

25. febrúar 2005

Ísland örum skorið

Á næsta fundi Umhverfishóps Stykkishólms, sem haldinn verður á ráðhúsloftinu nk. fimmtudag (3. mars) kl. 21.00, verður umfjöllunarefnið virkjanaáform íslenskra stjórnvalda. Kynntur verður bæklingurinn „Ísland örum skorið“ sem nýlega var gefinn út. Auk þess verður fjallað stuttlega um „Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma“ þar sem metnir hafa verið helstu virkjanakostir með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og umhverfisáhrifa.

Mætum öll og kynnum okkur þessi mál svo við getum mótað okkur skoðun á þessum mikilvæga málaflokki.

Umhverfishópur Stykkishólms

 

8. febrúar 2005

Frítt í umhverfisbíó

Næstkomandi fimmtudagskvöld verður frítt í bíó í boði Umhverfishóps Stykkishólms og Náttúrustofu Vesturlands (10. febrúar kl. 20.00 á ráðhúsloftinu).

Sýnd verður á tjaldi breska, vandaða heimildamyndin „Árás á karlkynið“ sem er alvöru umhverfis-sakamálamynd!

Myndin var sýnd í Ríkissjónvarpinu sumarið 1995, en stendur enn algjörlega fyrir sínu. Hún er á ensku með íslenskum texta og stundum íslensku tali. Myndin er 50 mín. á lengd, en gera skal ráð fyrir u.þ.b. 20 mín. umræðu á eftir. Allir velkomnir og um að gera að draga vinina og/eða elstu börnin með.

 

20. janúar 2005

Hrakinn snjótittlingur – munið að gefa smáfuglunum!

Í morgun komu mæðgurnar Sunna Högnadóttir og Íris Huld Sigurbjörnsdóttir með snjótittling sem þær höfðu skotið skjólshúsi yfir. Sunna fann hann við húsvegg heimilis þeirra, þar sem hann bar sig fremur illa, og veitti honum gistingu síðustu nótt. Hann var settur í fuglabúr á Náttúrustofunni, þar sem hann hresstist brátt. Var honum því sleppt í birtingu og hefur hann því væntanlega brátt komist til félaga sinna.

Þegar jarðbönn eru líkt og nú, treysta smáfuglarnir á gjafir mannanna. Náttúrustofan skorar því á alla landsmenn að dreifa í garða sína fuglafræjum, kjötsagi eða öðrum mat sem fuglarnir geta nýtt sér.

 

12. janúar 2005

Talning vetrarfugla á Snæfellsnesi

Nú er lokið árlegri talningu vetrarfugla, sem skipulögð er af Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrustofa Vesturlands hefur frá árinu 2001 tekið þátt í verkefninu og talið vetrarfugla við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi (frá Eiði við Kolgrafafjörð að nyrðri brú yfir Hraunsfjörð).

Niðurstöður þessa árs má sjá í töflu sem hér fylgir. Samtals sást 21 tegund, sem er meira en fyrri ár (14-18 tegundir 2001-2004). Þrjár tegundir sáust í fyrsta skipti í talningu á þessu svæði: rjúpa, lómur og ógreindur svartfugl. Síðastnefndu tegundina tókst ekki að greina með vissu vegna fjarlægðar en um var að ræða stuttnefju, langvíu eða álku. Að öðru leyti voru niðurstöðurnar svipaðar og fyrri ár.

 

 

 

 

 

 

 

Gunnúlfsfell við Kolgrafafjörð í vetrarbúningi

(ljósm. Róbert A. Stefánsson)

Upplýsingar um vetrarfuglatalningar á landsvísu má finna á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

á slóðinni http://www.ni.is/vetrarfugl/Vet04/Vet04.htm

 

4. janúar 2005

Sjaldgæfir fuglar í Stykkishólmi

Tvær fremur sjaldséðar fuglategundir, haftyrðill ( Alle alle ) og gráþröstur (Turdus pilaris ), sáust í Stykkishólmi fyrir og um hátíðirnar. Högni Högnason fann aðframkominn haftyrðil í innkeyrslunni hjá sér við Silfurgötu þann 18. desember en fuglinn drapst undir mannahöndum skömmu síðar. Gráþrösturinn var hins vegar lifandi síðast þegar fréttist en Ann Linda Denner tilkynnti að hann hefði sést í garðinum hennar við Ásklif fyrir og um jólin.

Náttúrustofa Vesturlands tekur við upplýsingum um sjaldgæfa og aðra fugla á Vesturlandi. Þá er minnt á að Vetrarfuglatalningin á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands ( http://www.ni.is/vetrarfugl ) fer fram sunnudaginn 9. janúar.