4. desember 2006

Fyrirlestur um íslenska mófugla

Á morgun, sale þriðjudaginn 5. desember, kl. 20:00 á ráðhúsloftinu, mun Tómas G. Gunnarsson, fuglafræðingur og forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsness, segja okkur frá íslenskum mófuglum.

Í fyrirlestrinum, sem verður skreyttur ljósmyndum Daníels Bergmann, verður fjallað almennt um íslenska mófugla, líffræði þeirra, sérstöðu Íslands og náttúruvernd.

Fyrirlesturinn er í boði Umhverfishóps Stykkishólms, Náttúrustofu Vesturlands og Háskólaseturs Snæfellsness.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

auglysing

13. nóvember 2006

Fræðastörf í Stykkishólmi
á vegum Náttúrustofu Vesturlands og Háskólaseturs Snæfellsness

Þriðjudagskvöldið 21. nóvember klukkan 20.00 á ráðhúsloftinu, Hafnargötu 3
verður opin kynning á starfsemi og rannsóknum Náttúrustofunnar og Háskólasetursins.

Forstöðumennirnir Róbert A. Stefánsson og Tómas G. Gunnarsson flytja erindi um starfsemi þessara tveggja rannsóknastofnana og segja frá rannsóknum þeirra og nokkrum niðurstöðum fram til þessa. Að fyrirlestrum loknum verður farið með gesti um húsnæði stofnananna og rannsóknastofur skoðaðar.

Þessi uppákoma er einstakt tækifæri fyrir alla sem hafa áhuga á að kynna sér hvaða fræðastörf fara fram í ráðhúsi bæjarins.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis

Fræðastörf

11. október 2006

Líf og fjör á Náttúrustofunni

Um þessar mundir vinna 10 starfsmenn á Náttúrustofu Vesturlands í u.þ.b. 9 stöðugildum eða fleiri en nokkru sinni fyrr. Fimm starfsmenn hafa að jafnaði starfað á Náttúrustofunni undanfarin ár í fjórum stöðugildum en síðla sumars voru ráðnir fimm til viðbótar í tímabundin störf í tengslum við tvö rannsóknarverkefni um mink. Annars vegar eru rannsóknir vegna fyrirhugaðs tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins um útrýmingu minks á Snæfellsnesi, sem hefst vorið 2007, en hins vegar eru rannsóknir til að meta áhrif þverunar Kolgrafafjarðar á þéttleika og landnotkun minks á svæðinu.

Í næstu viku er fyrirhugað að kynna starfsemi Náttúrustofu Vesturlands á opnum fundi Umhverfishóps Stykkishólms í ráðhúsi Stykkishólmsbæjar. Kynningin verður auglýst nánar síðar en aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

6. október 2006

Vetrarstarf Umhverfishóps Stykkishólms

Fyrir skömmu var haldinn félagsfundur Umhverfishóps Stykkishólms, þar sem lögð voru drög að vetrarstarfi hópsins. Áhugi var meðal félaga á því að halda uppteknum hætti er varðar opna fræðslufyrirlestra og komu fram ýmsar óskir og hugmyndir um efni s.s. um moltugerð, rannsóknir á svæðinu á vegum Náttúrustofu Vesturlands og Háskólaseturs Snæfellsness, fugla og leirur á Vesturlandi og hreindýr á Íslandi. Umhverfishópurinn mun í vetur einnig standa fyrir umhverfisbíói þar sem sýndar verða valdar fræðslumyndir um umhverfismál og standa fyrir fuglaskoðunarferð næsta vor. Eins og áður verður náin samvinna við Náttúrustofu Vesturlands um viðburði á vegum félagsins. Að gefnu tilefni skal tekið fram að félagið er öllum opið og aðild að því er án skuldbindingar og félagsgjalda. Viðburðir á vegum hópsins verða auglýstir nánar þegar að þeim kemur en þeir eru öllum opnir.

 

28. ágúst 2006

Höfrungur strandar við Stykkishólm

Mánudaginn 21. ágúst kom Valgerður Laufey Guðmundsdóttir auga á strandaðan höfrung við Móvík austan Stykkishólms og tilkynnti það áhaldahúsinu. Bogi og Hermann brugðu sér á staðinn og kölluðu Náttúrustofuna sömuleiðis út. Um var að ræða u.þ.b. 180 cm langan hnýðingstarf en hnýðingar eru algengastir höfrunga við Ísland. Honum var komið á flot en fljótlega varð ljóst að hann gekk ekki heill til skógar því hann átti í öndunarerfiðleikum og leitaði ávallt upp á land á ný. Að lokum var því brugðið á það örþrifaráð að aflífa dýrið.

Náttúrustofan mældi höfrunginn, krufði og tók úr honum sýni sem send verða til rannsókna á Hafrannsóknastofnuninni og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þekkt er meðal margra hvalategunda að synda á land en það er talið sjaldgæft meðal hnýðinga.

frett

frett

 

minni frett

 

  1. mynd. Menja von Schmalensee fylgist með höfrungnum eftir að hann var settur á flot.
  2. mynd. Hnýðingurinn strandaður.
  3. mynd. Menja kryfur höfrunginn og Birta, Sara, Björg, Ísól, Ásta og Aron fylgjast með.
  4. mynd. Helen Jewell og Menja, starfsmenn Náttúrustofunnar, kryfja höfrunginn.

Ljósmyndir: Róbert A. Stefánsson

11. júlí 2006

Starfsfólk óskast

Líffræðingar og aðstoðarmenn við minkarannsóknir
Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi óskar eftir að ráða starfsfólk í fimm 100% stöður:

Líffræðingar/náttúrufræðingar (B.S. eða meiri menntun). Tvær stöður til rannsókna á villtum minkum. Starfið felst einkum í veiðum á minkum í lífgildrur, radíómerkingum, athugunum á afdrifum merktra minka og úrvinnslu rannsóknagagna. Önnur staðan mun einnig fela í sér athuganir á minkahræjum. Reynsla af rannsóknavinnu og/eða veiðum er æskileg.

Aðstoðarmenn við vettvangsrannsóknir. Þrjár þriggja til fjögurra mánaða tímabundnar stöður aðstoðarmanna við minkarannsóknir á Snæfellsnesi. Starfið felst að mestu í lagningu og vitjun um minkalífgildrur og merkingum á villtum minkum. Líffræðimenntun og/eða reynsla af minkum og/eða veiðum er æskileg en ekki nauðsynleg.

Umsækjendur verða að geta hafið störf sem allra fyrst.

Umsóknir ásamt upplýsingum um náms- og/eða starfsferil skulu hafa borist til Náttúrustofu Vesturlands eigi síðar en 20. júlí næstkomandi. Umsóknir má senda bréfleiðis á Náttúrustofu Vesturlands, Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi eða í tölvupósti ánsv@nsv.is.

Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofutíma í s. 433 8121. Hægt er að nálgast upplýsingar um starfsemi Náttúrustofu Vesturlands á www.nsv.is.

29. júní 2006

Vatnamýs á Snæfellsnesi

Nýverið fann Sigurborg Sturludóttir, grunnskólakennari í Stykkishólmi, furðulegar “mosakúlur” við bakka Hraunsfjarðarvatns á Snæfellsnesi, sem hún færði Náttúrustofunni til greiningar. Þar sem ekki er starfandi grasa- eða mosafræðingur á Náttúrustofu Vesturlands var ein kúla send til Harðar Kristinssonar, grasafræðings á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í ljós kom að um var að ræða svokallaða vatnamús, sem myndast hefur úr lifandi mosa, sennilega fyrir tilstilli strauma og öldugangs í vatninu

Kúlulaga fyrirbrigði í vötnum hafa almennt verið flokkuð í þrennt: 1) kúluskítur eins og í Mývatni og Akanvatni í Japan, 2) áðurnefndar vatnamýs úr dauðum lífrænum efnum og 3) vatnamýs úr lifandi mosa eða þörungum. Fram kemur í grein Ævars Petersen um vatnamýs í Náttúrufræðingnum (58. tölublað bls. 31): „Af þessum þremur hópum eru þessar [síðastnefndu] myndanir langsjaldgæfastar og virðast ekki hafa fundist hérlendis.”

Hér gæti því verið um að ræða fyrsta eintakið sem fundist hefur af þessu fyrirbæri á Íslandi, hvorki meira né minna.

Starfsfólk náttúrustofunnar fór ásamt Sigurborgu á vettvang í fyrradag til að gera frekari athuganir við fundarstaðinn við Hraunsfjarðarvatn. Þar beið þeirra óskemmtileg sjón því myndunarstaður vatnamúsanna er nú kominn í bólakaf í vatnið.  Vatninu (sem er á Náttúruminjaskrá) var nýverið breytt í miðlunarlón fyrir Múlavirkjun en það hefur í för með sér miklar sveiflur á yfirborði þess.

Tvær kúlur sem Sigurborg safnaði eru því allt sem eftir er af myndarlegri vatnamúsabreiðu, en að sögn hennar voru 10-20 kúlur á staðnum áður en honum var sökkt. Önnur kúlan er á leiðinni til Bergþórs Jóhannssonar til frekari rannsókna en hin er til sýnis á Náttúrustofunni.

Vatnamus
Vatnamus

 

29. júní 2006

Aðmíráll í Stykkishólmi

Á undanförnum vikum hefur sést mikill fjöldi fiðrilda af erlendum uppruna á Íslandi, sérstaklega á austan- og sunnanverðu landinu. Miðvikudaginn 28. júní fann Ólafía Gestsdóttir lifandi aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) í stofunni hjá sér í Árnatúni í Stykkishólmi en fiðrildið hefur væntanlega villst inn um glugga.

Vestlendingar, lítið í garðinn ykkar eftir litríkum fiðrildum! Við tökum gjarnan við tilkynningum um þau.

Admiralsfidrildi

29. júní 2006

Refagreni í þjóðgarði

Náttúrustofa Vesturlands hefur nú lokið árlegri athugun á fjölda refagrenja í ábúð í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli en heimsótt eru öll þekkt refagreni á svæðinu. Í ár eru þrjú grenjanna í ábúð. Samkvæmt gögnum frá veiðimanni svæðisins, Leifi Ágústssyni, sem ná frá 1989-2001 og vöktun Náttúrustofunnar síðan þá hafa eitt til fimm greni verið í ábúð árlega; að meðaltali um 3 greni á ári. Árið 2001 var síðast leyft að veiða refi í þjóðgarðinum.

refur

Ljósmynd: Róbert A. Stefánsson

 

28. júní 2006

Hún á afmæli í dag…

Í dag, 28. júní, eru fimm ár liðin síðan þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, opnaði formlega Náttúrustofu Vesturlands við hátíðlega athöfn á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi. Fjöldi fólks var viðstatt þessa skemmtilegu athöfn í frábæru veðri eins og í dag. Þar á meðal voru ráðherrar, alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, fræðimenn, starfsfólk ráðhússins o.fl.

Jákvæðnin sem þá lá í loftinu hefur sem betur fer loðað við starfsemina, sem hefur verið fjölbreytt og kraftmikil. Við stefnum að sjálfsögðu á að svo verði áfram.

21. júní 2006

Glókollurinn hefur ekki náð sér aftur

Nú í vor voru 43 skógræktarreitir á Vesturlandi heimsóttir fjórða árið í röð til að kanna útbreiðslu glókolls. Engin breyting virðist hafa orðið frá fyrra ári því glókolls varð aðeins vart á tveim svæðum, í Hvammsskógi í Skorradal og í Vatnaskógi.

Náttúrustofa Vesturlands hefur frá árinu 2003 kannað útbreiðslu glókolls (Regulus regulus) á Vesturlandi að vorlagi. Glókollur er minnsti fugl Evrópu og nýlegur landnemi í íslenskum skógum, sem helst lifir á sitkalús. Árið 2003 fannst glókollur í 9 skógræktarreitum á Vesturlandi en ári síðar hafði glókollum greinilega fjölgað og fundust á 20 stöðum af 43 sem leitað var á. Veturinn 2004-5 varð hins vegar hrun í stofninum því glókollar fundust aðeins á tveim stöðum vorið 2005 og 2006. Líkleg orsök stofnhrunsins er talin vera fæðuskortur.

Rannsókn Náttúrustofunnar er eina kerfisbundna úttektin á útbreiðslu glókolls í heilum landshluta á Íslandi.

Glokollur

(ljósmynd: Daníel Bergmann)

 7. júní 2006

Bæklingur um fuglalíf Breiðafjarðar kominn út         

Breiðafjarðarnefnd hefur gefið út glæsilegan bækling um fuglalíf á Breiðafirði. Textagerð og hönnun var í höndum starfsfólks Náttúrustofu Vesturlands en flestar ljósmyndir voru teknar af þeim hæfu náttúruljósmyndurum Daníel Bergmann og Jóhanni Óla Hilmarssyni. Áhugasömum er bent á að nálgast má bæklinginn hjá ferðaþjónustuaðilum á Vesturlandi, Náttúrustofu Vesturlands og á heimasíðu Breiðafjarðarnefndarwww.breidafjordur.is.

Fuglalif

7. júní 2006

Rjúpum fækkar

Náttúrustofa Vesturlands hefur í samvinnu við áhugamenn fylgst með fjölda rjúpna að vorlagi á talningarsvæði við sunnanverðan Hvammsfjörð frá árinu 2001. Fjöldi karra að vorlagi er góður mælikvarði á þéttleika rjúpna en þá eru þeir áberandi, bæði í útliti og háttum. Samkvæmt nýlegri talningu voru 8 karrar á svæðinu sem talið var, sem er nokkur fækkun frá fyrra ári eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Rjúpnaveiðar voru aftur leyfðar haustið 2005 eftir friðun árin 2003 og 2004.

linurit

Niðurstöður rjúpnatalninga á talningarsvæði Náttúrustofu Vesturlands við sunnanverðan Hvammsfjörð árin 2001-2006.

12. maí 2006

Háskólasetur Snæfellsness tekur til starfa

Háskólasetur Snæfellsness hefur hafið starfsemi sína, en aðsetur þess er á jarðhæð ráðhússins í Stykkishólmi.Tomas Gretar

Tómas G. Gunnarsson dýrafræðingur var ráðinn forstöðumaður í lok mars og er hann fluttur í Stykkishólm ásamt fjölskyldu. Hann lauk BS prófi í líffræði fráHáskóla Íslands 1997, MS prófi í dýravistfræði frá sama skóla árið 2000 og doktorsprófi í stofnvistfræði frá University of East Anglia í Bretlandi 2004. Tómas hefur einkum fengist við rannsóknir á fuglastofnum. Hann hefur gegnt rannsóknastöðu við University of East Anglia frá 2004 og hefur einnig sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands. Tómas er kvæntur Lindu Rós Sigurbjörnsdóttur sjúkraþjálfara og eiga þau synina Bjart og Gunnar.

Háskólasetur Snæfellsness er sjálfstætt starfandi rannsóknasetur Háskóla Íslands, sem einkum er ætlað er að stunda og efla rannsókna- og fræðastarf á svæðinu. Lögð verður áhersla á rannsóknir á náttúru Snæfellsness og Breiðafjarðar í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir og háskóla. Þá mun Háskólasetrið vinna að því að efla tengsl Háskóla Íslands og annarra rannsóknastofnana við atvinnu- og þjóðlíf á Snæfellsnesi. Setrið mun vinna náið með Náttúrustofu Vesturlands.

Rannsóknir á vegum Háskólaseturs Snæfellsness eru þegar hafnar. Um er að ræða rannsóknir á vistfræði vaðfuglastofna og tilvist þeirra í fjörum en mikilvægi Breiðafjarðar fyrir vaðfugla á vorfari er á heimsmælikvarða. Vonir standa til að rannsóknir á öðrum þáttum lífríkis á svæðinu geti einnig hafist á þessu ári. Frekari uppbygging og stefnumótun Háskólasetursins verður ofarlega á verkefnaskrá á næstu misserum.

Háskólasetur Snæfellsness verður kynnt íbúum svæðisins á opnum fundi síðar í maí. Hann verður auglýstur nánar þegar þar að kemur.

11. maí 2006

Starfsemi Umhverfishóps Stykkishólms

Nú hefur Umhverfishópur Stykkishólms verið starfræktur í tvö ár með góðum árangri en þegar þetta er skrifað eru skráðir félagar 58 talsins. Þar sem nýtt starfsár er að taka við finnst mér við hæfi að líta um öxl og gefa ykkur smá yfirlit um það sem fram hefur farið á vegum hópsins á nýliðnu starfsári.

Stjórn hópsins var ásamt undirritaðri skipuð þeim Lárusi Á. Hannessyni (varaformaður), Sigríði Elísabet Elisdóttur (gjaldkeri) og Róberti Arnari Stefánssyni (ritari), en stjórnin var öll endurkjörin á aðalfundinum nú í apríl. Í vetur var áhersla lögð á fræðslu og stóð hópurinn fyrir nokkrum áhugaverðum fyrirlestrum, öllum í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands. Má nefna erindi þeirra Bryndísar Þórisdóttur um Vistvernd í verki, Ólafs Karls Nielsens um rjúpu, Menju von Schmalensee um lífrænt ræktaðar afurðir, Stefáns Gíslasonar um orkusparnað á heimilum og Daníels Bergmanns um garðfugla. Fyrirlestrar voru yfirleitt mjög vel sóttir og mæting á bilinu 16 til 27 manns.

Tvær ferðir voru farnar á starfsárinu, annars vegar fuglaskoðunarferð um Snæfellsnes í samvinnu við Náttúrustofuna, en hins vegar vettvangsferð að virkjunarsvæði Múlavirkjunar. Báðar ferðir heppnuðust framar vonum og mun hópurinn tvímælalaust efna til fleiri slíkra ferða í framtíðinni.

Umhverfishópurinn beitti sér einnig með pistlaskrifum fyrir því að fjölga safntunnum í bænum í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld og fyrir því að hér yrði komið af stað verkefninu “Vistvernd í verki”, sem þrjú stærstu sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru nú þátttakendur í.

Flestir félagar hópsins eru á tölvupóstlista þar sem sendar eru út tilkynningar um áhugaverða viðburði og önnur mál tengd umhverfismálum. Meðal efnis sem dreift var á síðasta starfsári var hvatning til að skoða umhverfisvottunarleiðir stofnana og fyrirtækja, fróðleik um gróðurhúsaáhrif, árlegum lista Birdlife International um fugla í útrýmingarhættu, upplýsingum um tölvuleik um umhverfismál og skil á eggjabökkum svo eitthvað sé nefnt.

Hópurinn er opinn öllum sem vilja láta sig umhverfið varða og ekki eru nein félagsgjöld. Allir viðburðir á vegum hópsins hafa verið án endurgjalds og standa vonir til að svo geti verið áfram. Þeir sem hafa áhuga á að ganga í hópinn og/eða komast á útsendingarlistann geta haft samband við undirritaða á menja@nsv.is eða í síma 433 8121 og 898 6638 á Náttúrustofu Vesturlands.

Menja von Schmalensee,
formaður Umhverfishóps Stykkishólms

 

9. maí 2006

Minkarannsóknir Náttúrustofunnar kynntar í Skotlandi

Í síðustu viku sótti forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands ráðstefnu um minka á Suðureyjum, sem er um 3.000 km2 eyjaklasi við vesturströnd Skotlands. Forstöðumanni var boðið á ráðstefnuna til að kynna nýlegar rannsóknir Náttúrustofunnar á mink á Snæfellsnesi og vakti kynningintalsverða athygli. Sérstaklega þótti mönnum athyglisvert að sjá að verðlaunakerfi eins og notað hefur verið við minkaveiðar á Íslandi virðist ekki hafa haft umtalsverð neikvæð áhrif á stærð minkastofnsins. Slík kerfi eru ekki notuð við stjórnun minkaveiða annars staðar í Evrópu.

Ráðstefnan var á vegum verkefnisstjórnar átaks um útrýmingu minks á Suðureyjum (Hebridean Mink Project) en þar er minkur talinn hafa valdið talsverðu tjóni á sjófuglabyggðum. Nýlokið er fyrri áfanga útrýmingarherferðar sem hófst haustið 2001 og kostaði um 220 milljónir íslenskra króna. Hún hefur skilað þeim árangri að tekist hefur að útrýma mink á suðurhluta eyjaklasans eða um þriðjungi flatarmáls eyjanna. Minkur er enn algengur á stærstu eyjunni, Isle of Lewis and Harris. Áætlað er að útrýming minks á öllum eyjaklasanum kosti um 550 milljónir króna. Ekki eru nein önnur dæmi annars staðar í heiminum um markvissa útrýmingarherferð á mink. Íslendingar gætu því mögulega lært mikið af Skotunum ef reynd verður allsherjar útrýming minks á Íslandi.

minkur

5. apríl 2006

Aðalfundur Umhverfishóps Stykkishólms

Aðalfundur Umhverfishóps Stykkishólms verður haldinn MÁNUDAGINN 10. apríl kl. 20.00 á ráðhúsloftinu.

Dagskrá fundarins:

1) Ársskýrsla formanns.
2) Samþykkt nýrra félaga.
3) Tillögur um breytingar á samþykktum.
4) Kosning stjórnar.
5) Önnur mál.

Léttar veitingar í fljótandi og föstu formi verða á boðstólum í boði Náttúrustofu Vesturlands.
Aðalfundurinn í fyrra var einstaklega vel heppnaður og skemmtilegur eins og mörgum er eflaust í fersku minni og er það von stjórnar að þessi aðalfundur gefi ekkert eftir.

Til að geta áætlað magn veitinga eru þeir sem hafa hug á að mæta beðnir um að senda tilkynningu til Menju á menja@nsv.is.
Gestir eru velkomnir en hafa ekki kosningarétt nema þeir gangi fyrst í félagið og þurfa þá að hafa gert það fyrir aðalfundinn (með því að hafa samband við Menju).
7. mars 2006

Einn af hverjum fjórum minkum veiðast

Á Snæfellsnesi voru að jafnaði um 800 minkar haustin 2001 og 2002. Þetta eru niðurstöður rannsókna Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi en stofnunin hefur í samvinnu við Háskóla Íslands og veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar staðið fyrir minkarannsóknum síðustu árin með það að markmiði að finna út heildarstærð íslenska minkastofnsins. Mat á stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi er mikilvægur áfangi að því lokatakmarki en með þessum upplýsingum er í fyrsta sinn hægt að reikna út veiðiálag á tilteknu svæði. Á Snæfellsnesi var veiðiálag á mink um 25% árin 2002 og 2003. Athyglisvert er að þetta veiðiálag er á svipuðu róli og miðað er við þegar nýta á stofna fugla og spendýra á sjálfbæran hátt. Þessar vísbendingar ásamt því að fjöldi veiddra minka hér á landi hefur vaxið nær samfellt frá því veiðar hófust, benda til að veiðiálagið á íslenska minkastofninum sé ekki nægilega mikið til að hafa neikvæð áhrif á stærð heildarstofnsins milli ára, þótt veiðin hafi vissulega oft staðbundin og tímabundin áhrif til verndunar lífríkis. Niðurstöðurnar voru kynntar á alþjóðlegri vísindaráðstefnu um veiðar á villtum fuglum og spendýrum, sem haldin var í Danmörku í síðustu viku.

Stofnstærðarmatið byggir á veiðum og endurheimtum og hófst með prófun á aðferðafræðinni í Skagafirði haustið 2000. Haustin 2001 og 2002 voru síðan veiddir í lífgildrur og merktir samtals 168 minkar á Snæfellsnesi til að meta stærð stofnsins þar. Endurheimtur voru með hefðbundnum minkaveiðum og var góð samvinna við veiðimenn á svæðinu nauðsynleg til þess að vel tækist til. Talið er líklegast að nú hafi allar endurheimtur skilað sér. Um merkilegan áfanga er að ræða því aldrei áður hefur tekist að meta stærð minkastofns á tilteknu landssvæði með vísindalegum aðferðum, hvorki hér á landi né erlendis, enda þykir tegundin sérstaklega erfið viðureignar til stofnstærðarmælingar.

Kostnaður ríkis og sveitarfélaga við minkaveiðar árið 2005 nam um 45 milljónum en um einum milljarði króna hefur verið varið til minkaveiða frá því að byrjað var að greiða fyrir veidda minka árið 1939.

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee, líffræðingar, vinna bæði að minkarannsóknum í samvinnu við Pál Hersteinsson, prófessor við Háskóla Íslands. Þau starfa nú á Náttúrustofu Vesturlands en hófu minkarannsóknir sínar árin 1996 og 1997, fyrst sem hluti rannsóknaverkefna til meistaraprófs við Háskóla Íslands, en nú sem hluti af rannsóknaverkefnum til doktorsprófs við sama skóla. Rannsóknir þeirra miðast m.a. við að afla upplýsinga um og smíða líkan af minkastofninum þannig að unnt verði að skilja betur þá þætti sem stjórna stærð hans. Skort hefur upplýsingar um ýmsa þætti sem nauðsynlegt er að hafa þekkingu á til að geta stjórnað dýrastofni með markvissum hætti, s.s. stofnstærð, náttúruleg afföll og veiðiálag. Í áframhaldandi rannsóknum Náttúrustofunnar verða m.a. samþættaðar upplýsingar um staðbundna stofnstærð minka og erfðasamsetningu, aldursdreifingu, frjósemi og mökunarkerfi minksins til að reikna út stærð minkastofnsins á landsvísu og gera líkan af honum, sem m.a. má nota til veiðistjórnunar.

Auk rannsókna á mink stundar Náttúrustofa Vesturlands m.a. rannsóknir á þáttum sem gætu haft áhrif á viðkomu arnarstofnsins í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands, rannsóknir á útbreiðslu glókolls á Vesturlandi og vöktun á refum í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þar að auki sinnir stofnunin umhverfismálum og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.

 

7. mars 2006

Garðfuglar

Á morgun, miðvikudaginn 8. mars, verður haldinn fyrirlestur í boði Náttúrustofu Vesturlands og Umhverfishóps Stykkishólms. Fyrilesturinn verður haldinn á ráðhúsloftinu og hefst kl. 20:00.

Daníel Bergmann, ljósmyndari, fuglaáhugamaður og stjórnarmaður í Fuglavernd, fjallar um fuglalíf í görðum landsmanna, sérstaklega um þá fugla sem sjást í görðum að haust- og vetrarlagi. Fjallað verður um möguleika fuglanna til að þrauka veturinn og hvernig fóðrun fuglavina hefur áhrif á það.

Daníel mun sýna glæsilegar myndir af fuglum en hann hefur á síðustu árum getið sér gott orð fyrir framúrskarandi náttúruljósmyndir og hefur m.a. gefið út þrjár ljósmyndabækur um náttúru landsins, auk þess sem myndir hans hafa birst í innlendum og erlendum tímaritum.

Fuglavernd hefur nýlega gefið út bækling um garðfugla og umönnun þeirra og verður honum dreift ókeypis til áhorfenda.

auglysing

 

6. mars 2006

Glókollar bíða afhroð

Í vetrarfuglatalningu sem fram fór í janúar 2006 á vegum Náttúrufræði-stofnunar sást aðeins einn glókollur (Regulus regulus). Sá var á Tumastöðum í Fljótshlíð en árið áður fundust í vetrarfuglatalningu 17 glókollar, 107 árið 2003 og 127 árið 2002. Vísbendingar um að ekki væri allt með felldu með stofninn sunnanlands og vestan komu þegar fram um áramótin 2004/2005 og grunur manna var rækilega staðfestur vorið 2005 í talningum Náttúrustofu Vesturlands (sjá eldri frett a nsv.is) og í Skógvistarrannsóknum Náttúrufræðistofnunar í Skorradal.
Sjá ítarlegri upplýsingar á vef NÍ http://www.ni.is/efst/glokollurinn.htm

 

21. febrúar 2006

Orkusparnaður á heimilum

Á morgun, miðvikudaginn 22. febrúar, mun Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, UMÍS, halda fyrirlestur um raforkunotkun í heimahúsum út frá umhverfislegu, en þó einkum fjárhagslegu sjónarmiði. Mælingar sýna að með því að huga að þessum þáttum má ná fram umtalsverðum sparnaði á venjulegu heimili. Einnig verður rætt um umhverfismerkingar og orkumerkingar heimilistækja, kaupverð og líftímaverð.

Fyrirlesturinn verður haldinn á ráðhúsloftinu, kl. 20.00 og eru allir velkomnir.

orkusparnadur

14. febrúar 2006

Háskólasetur Snæfellsness stofnað

Síðastliðinn fimmtudag var haldinn stofnfundur stjórnar Háskólaseturs Snæfellsness.

Háskólasetur Snæfellsness er fræðasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Það er staðsett í Stykkishólmi og er fyrst og fremst rannsóknasetur með áherslu á náttúrurannsóknir á Snæfellsnesi og Breiðafirði, enda er náttúran þar með eindæmum fjölbreytt og rannsóknatækifæri óþrjótandi.

Fyrst um sinn verður um eitt stöðugildi að ræða en vonir standa til að þeim muni fjölga hratt, ekki síst með aðkomu háskólanema í framhaldsnámi í náttúrufræðum. Er hér um að ræða spennandi tækifæri til uppbyggingar á þekkingu og til að auka fjölbreytni í atvinnu og menntun á svæðinu.

Tilkoma setursins á sér nokkra forsögu en segja má að hugmyndin hafi formlega tekið að þróast eftir að starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands fóru á fund forstöðumanns Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands í nóvember 2003 með tillögu um að Háskólinn kæmi á fót rannsóknasetri í náinni samvinnu við Náttúrustofuna. Fulltrúar Háskólans voru strax jákvæðir, einkum vegna þess að með þessu móti væri ekki stofnuð ný einmenningsstofnun, heldur gæti starfsmaður setursins strax gengið inn í þá starfsemi og aðstöðu sem fyrir væri á Náttúrustofu Vesturlands. Þá skipti einnig máli að ekkert annað setur Háskólans var fyrir á Vesturlandi en Háskólinn vill gjarnan þjónusta alla landsbyggðina.

Fjármagn til stofnunar setursins var tryggt með framlagi ríkisins á fjárlögum ársins 2006, en auk þess leggur Stykkishólmsbær til fræðimannaíbúð fyrir gestafræðimenn og aðstöðu í ráðhúsi Stykkishólms og Náttúrustofa Vesturlands leggur m.a. til aðstöðu á rannsóknastofum.

Í fyrstu stjórn Háskólaseturs Snæfellsness sitja sex fulltrúar, þar af eru þrír tilnefndir af Háskóla Íslands. Formaður er Rögnvaldur Ólafsson, dósent í eðlisfræði og forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands en ásamt honum eru þeir Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði og Arnþór Garðarsson, prófessor í dýrafræði, fulltrúar Háskólans. Fulltrúi Stykkishólmsbæjar er Magnús I. Bæringsson, sjávarútvegsfræðingur, en Menja von Schmalensee, líffræðingur, er fulltrúi Náttúrustofu Vesturlands. Leitað hefur verið til Héraðsnefndar Snæfellinga um að hún tilnefni sjötta fulltrúann í stjórnina.

Nú þegar hefur verið auglýst eftir forstöðumanni og verður áhugavert að fylgjast með framgangi mála en að öllum líkindum hefjast rannsóknir á vegum setursins strax í vor.

haskolasetur
Smellið á myndina til að skoða hana betur.

 

1. febrúar 2006

Gæfur smyrill

Náttúrustofunni barst í dag tilkynning frá starfsfólki verslunar Skipavíkur í Stykkishólmi um að óvenjulega gæfur smyrill sæti þar á bílhúddi og hrærði sig hvergi. Ljósmyndari Náttúrustofunnar vatt sér á staðinn og náði meðfylgjandi myndum af fuglinum. Hægt var að ganga næstum alveg að honum en hann lét þó ekki handsama sig. Um er að ræða ungfugl og benti atferlið sterklega til þess að hann væri eitthvað slappur. Engin ytri merki voru þó um áverka og ekki var hann grútarblautur. Flestir smyrlar eru farfuglar en einstaka fugl heldur til á Íslandi yfir veturinn. Í síðustu viku sást einmitt smyrill í árlegri vetrarfuglatalningu Náttúrustofunnar í Kolgrafafirði (sjá eldri frétt).

smyrill smyrill
smyrill

1. febrúar 2006

Vetrarfuglar á Snæfellsnesi

Í janúar fór fram á Íslandi árleg talning vetrarfugla, sem skipulögð er af Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrustofa Vesturlands hefur frá árinu 2001 tekið þátt í verkefninu og talið vetrarfugla við Kolgrafafjörð og Hraunsfjörð á Snæfellsnesi (frá Eiði við Kolgrafafjörð að nyrðri brú yfir Hraunsfjörð).

Niðurstöður þessa árs má sjá í töflu sem hér fylgir. Samtals sáust 18 tegundir samanborið við 14-21 tegund hin árin en aldrei fyrr hafa sést eins margir fuglar á svæðinu eða 1.965. Rauðhöfðaönd sást í fyrsta skipti í þeim sex talningum sem gerðar hafa verið en 18 fuglar voru í Kolgrafafirði. Þá sáust tvær álftir við Eiði en þær hafa ekki komið fram í talningunum áður.
Að öðru leyti voru niðurstöðurnar að mestu svipaðar og fyrri ár.

tjaldar

Tjaldar og sendlingar á flugi í Kolgrafafirði, föstudaginn 27. janúar
(ljósmynd: Róbert A. Stefánsson).

Niðurstöður vetrarfuglatalningar Náttúrustofunnar í Kolgrafafirði og Hraunsfirði og samanburður við fyrri ár:
2001-2005
TEGUND
2006
Meðaltal
Lágmark
Hámark
Lómur
0
1
0
3
Himbrimi
2
0
0
1
Dílaskarfur
19
6
2
21
Toppskarfur
4
7
2
17
Ógr. skarfur
0
4
0
11
Álft
2
0
0
0
Stokkönd
129
91
42
196
Rauðhöfðaönd
18
0
0
0
Hávella
71
48
21
105
Æðarfugl
1.358
922
744
1085
Toppönd
25
29
14
44
Ógr. önd
0
0
0
2
Haförn
0
1
0
2
Fálki
0
0
0
1
Smyrill
1
0
0
1
Rjúpa
0
1
0
4
Tjaldur
225
178
0
490
Stelkur
0
3
0
10
Tildra
1
3
0
8
Sendlingur
71
129
0
407
Ógr. vaðfugl
0
0
0
2
Svartbakur
12
7
2
13
Hvítmáfur
16
29
13
70
Bjartmáfur
3
2
1
3
Hettumáfur
0
0
0
1
Rita
0
1
0
4
Haftyrðill
0
1
0
2
Teista
5
4
0
9
Ógr. svartfugl
0
2
0
11
Snjótittlingur
0
33
3
60
Hrafn
3
11
3
31
Samtals fuglar
1.965
1.514
1005
1888
Fjöldi tegunda
18
17
14
21

Sjá má upplýsingar um niðurstöður talninganna á landsvísu á slóðinnihttp://www.ni.is/vetrarfugl/Vet05/Vet05.htm

25. janúar 2006

Fyrirlestur um lífræna ræktun

Í gær var haldinn fyrirlestur, í boði Umhverfishóps Stykkishólms, um lífræna ræktun. Í fyrirlestrinum fjallaði Menja von Schmalensee, líffræðingur á Náttúrustofu Vesturlands, um það í hverju lífræn ræktun felst og hvaða munur er á lífrænt ræktuðum afurðum og hefðbundnum. Ýmsum spurningum var leitast við að svara, svo sem hvort lífrænt ræktuð matvara geti haft áhrif á heilsufar okkar og hvort við höfum efni á að kaupa slíkar vörur. Góð mæting var á fyrirlesturinn og sköpuðust skemmtilegar umræður að honum loknum.

fyrirlestur

 

19. janúar 2006

Betra líf með lífrænni ræktun

Fyrirlestur verður haldinn í boði Umhverfishóps Stykkishólms, þriðjudaginn 24. janúar kl. 20.00 á ráðhúsloftinu.

Í hverju felst lífræn ræktun og hvaða munur er á lífrænt ræktuðum afurðum og hefðbundnum? Getur lífrænt ræktuð matvara haft áhrif á heilsufar okkar? Höfum við efni á því að kaupa slíkar vörur? Þessum spurningum og fleirum verður leitast við að svara í fyrirlestri Menju von Schmalensee, líffræðings á Náttúrustofu Vesturlands, en hún mun fara um víðan völl og styðjast við niðurstöður viðurkenndra rannsókna. Opin umræða að fyrirlestri loknum. Allir velkomnir.

lifraen raektun

Smellið á auglýsinguna til að skoða hana betur (Pdf skjal).

 

6. janúar 2006

Ný heimasíða Náttúrustofu Vesturlands

Náttúrustofa Vesturlands hefur tekið í notkun nýja heimasíðu á slóðinni www.nsv.is . Efni “gömlu” heimasíðunnar hefur verið endurskoðað ásamt því sem uppsetning og útlit hefur tekið stakkaskiptum. Starfsfólk Náttúrustofunnar vann efni síðunnar í sameiningu en Menja von Schmalensee, hannaði útlit og var smíði vefsins í höndum Sigríðar E. Elisdóttur. Við hvetjum ykkur öll til að skoða síðuna og segja okkur hvað ykkur finnst, hvort sem það er gott eða slæmt.

 

2. janúar 2006

Hrakinn himbrimi

Á Náttúrustofunni hófst nýja árið með því að Daði Jóhannesson kom með hrakinn himbrima, sem hann hafði fundið mjög slappan í Stykkishólmshöfn á nýársdag. Að öðru leyti en því að vera mjög horaður var erfitt að sjá hvað amaði að fuglinum. Hlúð var að honum eftir fremsta megni en það dugði ekki til, því hann var dauður þegar að var komið næsta morgun. Meðfylgjandi ljósmynd var tekin af fuglinum lifandi í gær. Á henni má sjá að hann er nánast í sumarbúningi en langflestir himbrimar eru í vetrarbúningi um þessar mundir og líta út eins og efri fuglinn á meðfylgjandi teikningu. Neðri myndin sýnir fugl í sumarbúningi.

himbrimi
himbrimi