28. nóvember 2007

Silkitoppa í Stykkishólmi

Silkitoppa

Í dag sást fuglinn silkitoppa koma í æti við hús í Stykkishólmi. Um er að ræða spörfugl sem gjarnan flækist til Íslands að haust- og vetrarlagi frá norðan- og austanverðri Evrópu. Íslenskar silkitoppur sækja töluvert í æti sem fólk setur í garða sína og virðast sérstaklega hrifnar af rauðum eplum. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru silkitoppur (lengd 18 cm) mjög fallegir fuglar.

Fuglavernd gaf nýlega út endurbætta útgáfu af bæklingi um garðfugla (þar sem m.a. er að finna silkitoppu). Eintök af honum má nálgast á Náttúrustofu Vesturlands eða hjá Daníel Bergmann.

 

27. nóvember 2007

Fræðsluerindi Náttúrustofanna

erindi

Fimmtudaginn 29. nóvember n.k., nurse frá kl. 12:15-12:45, flytur Erpur Snær Hansen, Ph.D., líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands erindið: „Lágmarks fæðugjafatíðni íslenskra sjófugla – hungurmörk foreldraumhyggju“.

Erindið má sjá og heyra í fjarnámsveri Stykkishólmsbæjar í Egilshúsi.

 

13. nóvember 2007

Náttúrustofuþing haldið í þriðja sinn

Þann 21. nóvember næstkomandi munu Samtök náttúrustofa á Íslandi (SNS) standa fyrir náttúrustofuþingi. Þetta er í þriðja skipti sem slíkt þing er haldið í tengslum við ársfund félagsins.

Samtök náttúrustofa (www.sns.is) voru stofnuð árið 2002 og eru aðilar að þeim Náttúrustofa Norðurlands vestra, Náttúrustofa Norðausturlands, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúrustofa Reykjaness, Náttúrustofa Vesturlands og Náttúrustofa Vestfjarða.

Tilgangur Náttúrustofuþinga er að vekja athygli á og kynna starfsemi náttúrustofa og samvinnu þeirra við aðrar skyldar stofnanir í landinu, svo sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Háskóla Íslands og aðra háskóla.

Dagskrá þingsins er fjölbreytt og er gert ráð fyrir að birta fyrirlestra náttúrustofanna á heimasíðu Náttúrustofu Vestfjarða (www.nave.is) og heimasíðu samtakanna (www.sns.is) eftir þingið.

Þingið verður haldið á Náttúrugripasafni Bolungarvíkur og hefst kl. 12:00 þann 21. nóvember 2007.

Þingið er öllum opið og má sjá dagskrá þingsins með því að smella hér.

 

29. október 2007

Mýs á köldum klaka

mynd

Miðvikudagskvöldið 31. október nk. mun Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, halda fyrirlestur um hagamúsina. Sagt verður frá uppruna hagamúsarinnar og útbreiðslu, lífsskilyrðum á Íslandi, rannsóknum Esterar á hagamúsum á Kjalarnesi undanfarin ár og þeim þáttum sem hafa áhrif á fjölda hagamúsa eftir árstíðum og á milli ára.

Hagamúsin barst til landsins við landnám en hefur mjög lítið verið rannsökuð þar til nú. Rannsóknir Esterar marka því nokkur tímamót og varpa ljósi á lífsskilyrði hagamúsarinnar, sem hér lifir á vestur- og norðurmörkum útbreiðslusvæðis síns.

Fyrirlesturinn verður haldinn á lofti ráðhúss Stykkishólmsbæjar kl. 20:00. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

25. október 2007

Snæuglan enn í bænum

Snæugla
Smellið á myndina til að skoða hana betur.

Snæuglan er enn innan bæjarmarka Stykkishólms. Meðfylgjandi er önnur ljósmynd sem Daníel Bergmann náði af henni í dag.

 

25. október 2007

Snæugla í Stykkishólmi

Snæugla
Smellið á myndina til að skoða hana betur.

Undir kvöld í gær tilkynnti Ann Linda Denner Náttúrustofunni um snæuglu nálægt húsi sínu í Ásklifi í Stykkishólmi. Starfsmaður Náttúrustofunnar mætti að sjálfsögðu strax á staðinn og fann ugluna.

Hringt var í ljósmyndara og náði Daníel Bergmannhttp://www.danielbergmann.com/ meðfylgjandi mynd, sem er merkilega góð miðað við erfiðar aðstæður; strekkingsvind, súld og myrkur.

Snæugla er stór (vænghaf um 1,5 m), hánorræn ugla sem einkum verpur í túndrum. Hún er óreglulegur varpfugl á hálendi Íslands og sést af og til allt árið, einkum á hálendinu eða jöðrum þess. Óvenjulegt er að sjá hana í byggð eins og í gær; ekki síst að sjá hana tylla sér á sjónvarpsloftnet á húsþaki. Að jafnaði eru snæuglur fremur styggar en þessi sat nokkuð róleg á meðan áhugamenn skoðuðu hana og mynduðu.

Snæuglan í Stykkishólmi er líklega fullorðinn kvenfugl.

Í birtingu í dag verður uglunnar leitað í bæjarlandinu. Þeir sem gefið geta upplýsingar um ferðir uglunnar í dag og næstu daga eru beðnir að hafa samband við Náttúrustofuna í s. 433 8121 eða 898 6638.

24. október 2007

Fræðsluerindi Náttúrustofanna

Fræðsluerindi

Fimmtudaginn 25. október n.k., frá kl. 12:15-12:45, flytur Gerður Guðmundsdóttir plöntuvistfræðingur (M.Sc.) hjá Náttúrustofu Austurlands erindið: „Kolefnisupptaka birkis og annarra lauftrjáa á Héraði við breytilegar umhverfisaðstæður“.

Erindið má sjá og heyra í fjarnámsveri Stykkishólmsbæjar í Egilshúsi.

 

8. október 2007

Stórkostlegar náttúruljósmyndir

ljosmyndasyning

Næstkomandi fimmtudagskvöld (11. október), kl. 20.00 á ráðhúslofti Stykkishólmsbæjar, standa Náttúrustofa Vesturlands og Umhverfishópur Stykkishólms fyrir ljósmyndasýningu sem enginn má missa af:

Daníel Bergmann, náttúruljósmyndari, sýnir myndir sem hann hefur tekið undanfarið ár, fjallar um tilurð þeirra og gefur góð ráð varðandi náttúru-ljósmyndun. Við sögu koma andfuglar í Mývatnssveit, fálkar og rjúpur, furðufuglar á Spáni, íslenskt fjallalandslag og máfar við Landey. Daníel er meðal okkar fremstu náttúruljósmyndara og sýnishorn af verkum hans má finna á vefnumwww.danielbergmann.com.

 Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir

Aðgangur ókeypis.

 


5. október 2007

Veiklulegur örn við Bjarnarhöfn

Í gær handsamaði heimafólk í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi ungan örn. Að sögn Hildibrandar Bjarnasonar hafði örninn líklega verið í grennd við bæinn í 2-3 daga en í gær virtist hann óvenju slapplegur. Var þá gengið að honum, hann tekinn án mikilla vandkvæða og settur í hús. Þar fékk hann kjöt og fisk (át hluta af þeim síðari) og virtist hressast nokkuð.

Hildibrandur lét Náttúrustofuna vita af þessu og þar sem svona atferli arnar er óeðlilegt, var ákveðið í samráði við Kristin Hauk Skarphéðinsson á Náttúrufræðistofnun Íslands að flytja örninn í Húsdýragarðinn í Reykjavík til frekari aðhlynningar. Starfsmaður Náttúrustofunnar sótti örninn og ók honum til móts við Kristin Hauk, sem kom honum í Húsdýragarðinn undir kvöld.

Um er að ræða kvenkyns unga frá síðasta sumri. Hlúð verður að honum þar til hann nær fullri heilsu á ný en þá verður honum sleppt.

mynd
mynd
mynd
mynd

Hildibrandur Bjarnason með örninn í fanginu.  Hjördís Jónsdóttir heldur í vænginn á einni myndinni. 

Myndir: Róbert A. Stefánsson.

 

25. september 2007

Fræðsluerindi hefjast á ný

Nú eru fræðsluerindi Samtaka náttúrustofa (SNS) að hefjast á ný. Þau verða haldin í hádeginu síðasta fimmtudag hvers mánaðar og má sjá þau og heyra í fjarnámsveri Stykkishólmsbæjar í Egilshúsi.

Fyrsta erindi vetrarins heldur Björgvin M. Leifsson, Náttúrustofu Norðausturlands, og kallar það: „Stórvaxnir brúnþörungar í þangfjörum eru skólpmengunarmælikvarðar“

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

mynd

 

18. september 2007

Starfsskýrsla Náttúrustofu Vesturlands komin á netið

Í ágúst sl. gaf Náttúrustofa Vesturlands út starfsskýrslu fyrir árin 2004-2006. Skýrslunni hefur verið dreift á hvert heimili í Stykkishólmi og einnig verið send til fagstofnana, samstarfsaðila og ýmissa annarra víða um land. Nú má einnig nálgast skýrsluna hér á heimasíðunni.

Starfsskýrsla

 


11. september 2007

Rannsókna- og vöktunaráætlun fyrir Breiðafjörð

Á morgun hefst á Hótel Stykkishólmi tveggja daga vinnufundur 26 sérfræðinga um lífríki Breiðafjarðar. Viðfangsefni fundarins er að fjalla um lykilþætti í lífríkinu og útbúa rannsókna- og vöktunaráætlun fyrir svæðið.

Breiðafjarðarnefnd hafði frumkvæði að þessari vinnu með því að óska eftir því við náttúrustofurnar á Vesturlandi og Vestfjörðum og Náttúrufræðistofnun Íslands að þær gerðu slíka áætlun. Þær lögðu til að haldinn yrði sérfræðingafundur og þangað boðið öllum helstu sérfræðingum landsins um lífríki svæðisins ásamt öðrum sérfræðingum sem taldir væru geta lagt málinu lið. Fulltrúar ofangreindra stofnana, Háskólaseturs Snæfellsness og Sjávarrannsóknasetursins Varar mynduðu undirbúningshóp síðastliðið vor, sem unnið hefur að undirbúningi fundarins. Þar munu mæta fulltrúar flestra náttúrurannsóknastofnana landsins.

Tómas Gunnarsson á Háskólasetri Snæfellsness hefur verið formaður undirbúningshópsins en fulltrúar Náttúrustofunnar voru Menja og Róbert.

Nú er allt klárt fyrir morgundaginn og er vonast eftir árangursríkum fundi næstu tvo dagana.

 

29. ágúst 2007

Aðvörun vegna risahvannar

Á síðustu árum er farið að bera nokkuð á plöntunni risahvönn (einnig kölluð tröllahvönn Heracleum mategazzianum; enska: Giant Hogweed) í íslenskum görðum, enda þykir plantan nokkur prýði. Náttúrustofa Vesturlands varar hins vegar eindregið gegn því að plantan sé höfð í görðum, sérstaklega þar sem börn gætu komist í snertingu við hana. Safi úr plöntunni er einstaklega ertandi og komist hann í snertingu við húð geta myndast mjög slæm blöðrukennd útbrot, sem versna enn ef sólarljós skín á húðina með safanum á. Útbrotin líkjast brunasárum bæði í útliti og tilfinningu. Berist safi úr plöntunni á húð skal tafarlaust þvo hana, helst með sápu. Safinn drepur húðfrumur og í sumum tilfellum einnig undirliggjandi vefi og geta sár því verið allt að 6 mánuði að gróa og ljót ör myndast. Ör eftir safann geta verið bláleit í nokkur ár eftir að útbrotin hafa gróið. Berist safinn í augu getur hann valdið tímabundinni eða varanlegri blindu.

Risahvönn líkist 1,5 – 4 m hárri útgáfu af ætihvönn, er harðgerð og mjög ágeng. Hver planta getur myndað allt að 50.000 fræjum, en tæplega fjórðungur þeirra er líklegur til að spíra. Plantan er mikil plága í Norður-Evrópu og eru víða hafnar skipulagðar herferðir til að hefta útbreiðslu hennar.

Ef einhver telur sig vera með plöntuna í garði sínum er eindregið mælt með því að hún verði fjarlægð strax. Tekið skal fram að við meðhöndlun plöntunnar er mjög mikilvægt að hlífa húð og augum og æskilegt er að föt og hanskar séu vatnheld. Best er að grafa plönturnar upp að vori og láta þær þorna upp áður en þeim er fargað. Fræforði í jarðveginum getur dugað í 7-8 ár, svo mikilvægt er að endurtaka uppgröftinn á hverju ári þar til plöntunni hefur verið útrýmt. Til að hefta útbreiðslu risahvannar skal ekki setja leyfar hennar og fræ í safnkassa eða miðlægar moltugerðir, heldur farga henni með venjulegu rusli.

Frekari upplýsingar má t.d. finna á

http://www.ni.is/grodur/rannsoknir/agengartegundir/risahvannir

http://en.wikipedia.org/wiki/Giant_Hogweed

risahvonn risahvonn

28. ágúst 2007

Ódýr og ljúffengur kvöldmatur?

Margir hafa eflaust tekið eftir myndarlegum sveppaþyrpingum sem sjá má víða í túnum, m.a. í þéttbýli, um þessar mundir. Er hér um að ræða ullserk eða ullblekil (Coprinus comatus), sem vex nær eingöngu í grennd við híbýli svo sem á túnum, í görðum eða meðfram vegum. Er þessi sveppur ljúffengur og eftirsóttur ætissveppur á meðan hann er ungur og þar sem ekki er mikil mengun vegna bílaútblásturs. Hann er hvítur eða gulhvítur, hár og mjór með langan, mjóan og egglaga hatt. Hann verður allt að 15 sm hár og um 5 sm breiður. Stafurinn er holur að innan. Þegar sveppurinn eldist sortnar hann þar til hann verður alveg bleksvartur og linur.

Fyrir þá sem hafa hug á því að smakka þennan bragðgóða svepp skal benda á að ekki skal tína sveppi sem eru byrjaðir að dökkna, heldur einungis ung eintök og hafa í huga að eftir tínslu verður hann svartur á nokkrum klukkutímum. Best er því að borða hann fljótlega eftir tínslu.

Sveppurinn er einstaklega góður í sósur og mælum við með því að léttsteikja hann í smöri á pönnu og bæta síðan við rjóma, salti og pipar eftir smekk. Einnig er gott að nota mjög ung eintök hrá í salat.

Að gefnu tilefni viljum við beina því til foreldra að koma því áleiðis til barna sinna að þau sparki ekki eða skemmi þessa hágæða matarsveppi. Einnig viljum við nota tækifærið til að benda á að aldrei skal innbyrða eða nota óþekkta sveppi til matargerðar.

Verði ykkur að góðu.

Ullblekill Ullblekill

28. ágúst 2007

Starfsskýrslu Náttúrustofu dreift í Stykkishólmi

Í þessari viku verður starfsskýrslu Náttúrustofu Vesturlands dreift á öll heimili í Stykkishólmi en í næstu viku verður henni dreift til fagstofnana, samstarfsaðila og ýmissa annarra víða um land.

Í skýrslunni er gefið yfirlit um starfsemi Náttúrustofunnar árin 2004-2006. Nú eru 8 ár síðan fyrsti starfsmaður Náttúrustofunnar var ráðinn en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og starfsemin eflst til muna. Síðastliðið ár var starfsemin meiri en nokkru sinni fyrr, ársverkin 5,5 og starfsmenn 10 talsins þegar mest var.

Verkefni Náttúrustofunnar hafa verið af ýmsum toga en rannsóknir hafa þó verið stærsti einstaki þátturinn. Áhersla hefur verið á rannsóknir á landspendýrum og fuglum svæðisins, þótt fleira hafi einnig verið til umfjöllunar. Gagnvart bæjarbúum í Stykkishólmi hefur fræðslustarfsemin líklega verið mest áberandi en Náttúrustofan stendur öðru hverju fyrir fræðslufyrirlestrum um náttúrutengd mál og vettvangsferðum. Þá hefur Náttúrustofan átt í góðu samstarfi við Umhverfishóp Stykkishólms og nú síðast Háskólasetur Snæfellsness um að standa fyrir viðburðum af slíku tagi.

Stjórn og starfsfólk Náttúrustofunnar vonar að bæjarbúar Stykkishólms og aðrir hafi gagn og gleði af lestri plaggsins og verði einhvers fróðari um starfsemi stofunnar. Áhugasamir sem einhverra hluta vegna eru ekki á útsendingarlista okkar geta haft samband við Náttúrustofuna í s. 433 8121 eða sent tölvupóst ásiggabeta@nsv.is og fengið eintak. Fljótlega verður stafrænt eintak skýrslunnar einnig sett á heimasíðu okkar www.nsv.is.

Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee

forsida

 

9. júlí 2007

Erni bjargað úr ógöngum

Síðastliðinn föstudag tók athugull vegfarandi eftir því að ófleygur örn væri við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi. Eftir krókaleiðum var þessum skilaboðum komið til Náttúrustofu Vesturlands, sem brást skjótt við og þeysti á staðinn. Í fyrstu var óttast að örninn kynni að hafa flogið á háspennulínu, sem þarna liggur um. Svo reyndist ekki vera því hann náði að flögra um án þess þó að ná sér fyllilega á flug. Fuglinn var handsamaður og kom þá í ljós að hann var töluvert grútarblautur, líklega eftir viðureign við fýl. Ein kló var brotin og stélið nokkuð laskað, auk þess sem fuglinn var fremur rýr, sem bendir til að hann hafi verið þarna um nokkurn tíma. Án hjálpar mannsins blasti ekkert annað en dauðinn við honum. Fuglinn var ómerktur en rígfullorðinn ef marka má útlitseinkenni.

Starfsfólk Náttúrustofunnar, Daníel Bergmann, stjórnarmaður í Fuglavernd og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, komu fuglinum í Húsdýragarðinn í Reykjavík, þar sem grúturinn verður þveginn úr honum á næstu dögum og honum gefið að éta. Vonast er til að hægt verði að sleppa honum aftur sem fyrst en þó ekki fyrr en hann hefur étið vel og er laus við grútinn úr fiðrinu.

Myndatexti:

 1. Örninn var á sléttlendi innst í Kolgrafafirði og náði sér ekki á flug vegna grúts í fiðri. Takið eftir gulum goggi og ljósu höfði, einkennum fullorðinna arna ásamt ljósu stéli.
 2. Róbert hefur handsamað fuglinn. Merki Náttúrustofunnar er viðeigandi.
 3. Róbert heldur á erninum. Klútum var vafið um klærnar til að fyrirbyggja að örninn læsti klónum í fólk.
 4. Örninn er tignarleg skepna.
 5. Starfsfólkið var kallað út eftir lok vinnudags og fengu dæturnar því að fljóta með. Þær sýndu erninum mikinn áhuga.
 6. Menja og örninn hafa komið sér fyrir áður en haldið er af stað áleiðis til Stykkishólms og síðar Reykjavíkur.
mynd mynd
mynd mynd
mynd mynd  

 

 

9. júlí 2007

Varp virðist hafa misfarist hjá snjógæsunum

Einn heimamanna heimsótti snjógæsirnar á Breiðafirði síðastliðinn sunnudag og skýrði Háskólasetri Snæfellsness frá afdrifum varps í kjölfarið. Snjógæsirnar voru enn í grennd við hreiðurstaðinn. Hreiðrið bar þess merki að hans mati að ungar hafi komið úr eggjunum, en þeir voru hins vegar hvergi sjáanlegir. Hann taldi að líkast til hefðu hrafnar eða svartbakar náð ungunum.

Jón Einar Jónsson, HS

 

28. júní 2007

Snjógæs verpur við Breiðafjörð

Um miðjan júní barst Háskólasetri Snæfellsness og Náttúrustofu Vesturlands áreiðanleg ábending um varp snjógæsar á eyju í Breiðafirði. Var þegar ákveðið að Jón Einar Jónsson (HS) heimsótti varpstaðinn, enda rannsakaði hann snjógæsir í Louisiana, Bandaríkjunum, á árunum 2000-2005.

Snjógæs er norður-amerísk tegund og telur stofn hennar þar að minnsta kosti 6 milljónir fugla. Hefur tegundinni fjölgað mjög frá því um 1970. Snjógæsir sjást nær árlega á Íslandi, þá gjarnan stakar eða fáar í hóp með öðrum gæsategundum.

Með góðra manna hjálp heimsótti Jón Einar hreiðrið 19. júní en í því voru þá 3 egg, sem samkvæmt vatnsprófi á eggjum hafði verið orpið í kringum 13. júní. Meðallengd álegutíma villtra snjógæsa er 23 dagar, sem er nokkuð styttra en hjá t.d. grágæs og heiðagæs. Snjógæsirnar í Breiðafirði voru báðar af hvíta litarafbrigðinu, en einnig er þekkt dökkt litarafbrigði. Hátterni gæsanna bendir sterklega til þess að þær séu upprunnar úr andagarði, líkast til á Bretlandseyjum.

Þetta er a.m.k. önnur þekkt varptilraun snjógæsa hérlendis, en Ævar Petersen lýsti hinni fyrri í Náttúrufræðingnum árið 1984 (Hvítgæsir verpa á Íslandi, bls: 177-189, 3.-4. hefti, 53. árg). Þá urpu saman tveir blendingar snjógæsar og mjallgæsar. Svo skemmtilega vill til að Jón Einar er nýfluttur í Breiðafjörð og var það eitt af hans fyrstu verkum að hitta aftur sína gömlu félaga frá Ameríku.

Snjógæsir Snjógæsahreiður

Ljósmyndir: Jón Einar Jónsson
26. júní 2007

Náttúruskoðun um Snæfellsnes

Næstkomandi laugardag, þann 30. júní, stendur Umhverfishópur Stykkishólms fyrir náttúruskoðunarferð um Snæfellsnes í samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands og Háskólasetur Snæfellsness.

Rúta leggur af stað frá ráðhúsinu í Stykkishólmi á laugardagsmorgunn kl. 10 og ekur sem leið liggur hringinn í kringum Snæfellsnes. Á leiðinni verður stoppað við nokkrar af óteljandi náttúruperlum svæðisins og þær skoðaðar. Áhersla verður á fuglaskoðun og er þátttakendum því ráðlagt að taka með sér sjónauka og fuglaskoðunarbók. Einnig verða sérstakir fuglaskoðunarsjónaukar með í för sem allir geta kíkt í. Þátttakendum verður leiðbeint við greiningar á fuglum. Ekki er þörf á öðrum sérstökum búnaði utan viðeigandi klæðnaðar, skófatnaðar, nestis og góða skapsins. Heimkoma er áætluð á bilinu kl.19-20.

Þessi áhugaverða ferð er ÓKEYPIS en sætaframboð er takmarkað. Því skulu sæti pöntuð í s. 898 6638 eða í tölvupósti á robert@nsv.is. Allir eru velkomnir en börn skulu vera í fylgd með fullorðnum.

Natturuskodun

 

 

7. júní 2007

Rjúpum fjölgar en fækkar!

Að venju tekur Náttúrustofa Vesturlands þátt í vöktun rjúpnastofnsins, sem er í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). Náttúrustofan tók þátt í talningu á svæði NÍ á Mýrum og taldi á sínu svæði við sunnanverðan Hvammsfjörð seint í maí með hjálp starfsmanna Háskólaseturs Snæfellsness.

Fjöldi rjúpukarra fór úr 8 árið 2006 í 18 nú í vor en það er sami fjöldi karra og í hámarki sem varð árið 2004. Þessar niðurstöður nú komu nokkuð á óvart í ljósi þess að aldurshlutföll í stofninum síðasta haust bentu til áframhaldandi niðursveiflu stofnsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslandshttp://ni.is/frettir/nr/597 varð um fjórðungs fækkun rjúpna að meðaltali á 41 svæði á landinu öllu. Ekki eru fyrir hendi skýringar á þessu ósamræmi í stofnbreytingum en þó er þekkt að einstök talningarsvæði geta fyrir tilviljun sveiflast á annan veg en landsmeðaltalið, sem sýnir fram á mikilvægi þess að hafa mörg talningarsvæði.

rjupa

Einn af rjúpukörrunum 18 sem sáust á talningarsvæði Náttúrustofunnar við sunnanverðan Hvammsfjörð. 

 

6. júní 2007

Umhverfishópur fær styrk

Í gær voru í fyrsta skipti afhentir styrkir úr Umhverfissjóði Snæfellsness en sá sjóður var stofnaður til minningar um Guðlaug Bergmann, athafnamann á Hellnum og á seinni hluta ævi sinnar frumkvöðul í umhverfismálum. Stjórn sjóðsins skipa Stefán Gíslason, sem er formaður, Guðrún Bergmann og Sigríður Finsen. Úthlutað var 550.000 króna til þriggja verkefna sem talin voru stuðla að sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála á Snæfellsnesi.

Umhverfishópur Stykkishólms, sem starfað hefur í þrjú ár og í eru um 60 félagar, fékk úthlutuðum styrk að fjárhæð 200 þúsund króna, sem nýttur verður til að styrkja starf hópsins. Fram til þessa hefur hópurinn einkum stuðlað að aukinni fræðslu um
umhverfismál og náttúrufræði og kemur styrkurinn sér einkar vel til þess.

Önnur verkefni sem hlutu styrk var efling umhverfisfræðslu Grundarfjarðarkirkju annars vegar, sem hlaut 200 þúsund krónur og undirbúningur sameiginlegrar jarðgerðar á Hellissandi, sem hlaut 150 þúsund króna styrk.

Á annarri myndinni má sjá Menju von Schmalensee, formann Umhverfishóps Stykkishólms taka við viðurkenningarskjali úr höndum Guðrúnar Bergmann en á hinni myndinni eru styrkþegar ásamt stjórn Umhverfissjóðs Snæfellsness.

Umhverfishopur Umhverfishopur

 

6. júní 2007

Töskukrabbi finnst í Breiðafirði í fyrsta sinn

Þann 23. maí færði Björn Ásgeir Sumarliðason, skipverji á Hafrúnu, Náttúrustofunni torkennilegan krabba. Hann hafði komið upp með plógi sem dreginn var eftir hafsbotninum í nágrenni Hrappseyjar á Breiðafirði.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þarna var um að ræða svokallaðan töskukrabba (Cancer pagurus), sem enn er mjög sjaldgæfur við Ísland og hefur aldrei áður fundist í Breiðafirði, skv. Jörundi Svavarssyni, prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands, sem um þessar mundir vinnur að rannsókn á útbreiðslu tegundarinnar hér við land.

Skjaldarbreidd þessa einstaklings var um 9 cm en fullvaxnir verða þeir allt að 30 cm breiðir og 4-6 kg, þótt sjaldan verði þeir meira en 20 cm breiðir. Töskukrabbar eru um 3 cm eins árs gamlir en verða kynþroska 5-6 ára, þá um 12 cm. Þessi krabbategund er mjög vinsæl til átu en 10 cm breiður krabbi gefur um 100 g af kjöti.

Toskukrabbi

 

20. maí 2007

Verðlaun fyrir árangur í náttúrufræði

Fjölbrautaskóli Snæfellinga brautskráði stúdenta þann 17. maí síðastliðinn. Við það tækifæri veitti Náttúrustofa Vesturlands Áslaugu Karen Jóhannsdóttur, nýstúdent af náttúrufræðibraut, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í náttúrufræði. Verðlaunin voru bókin „Fuglar í náttúru Íslands” eftir Hólmarann Guðmund Pál Ólafsson.

Náttúrustofan óskar Áslaugu Karen og öðrum þeim er brautskráðust frá Fjölbrautaskólanum bjartrar framtíðar.

Áslaug Karen

Áslaug Karen Jóhannsdóttir, nemandi á náttúrufræðibraut, hlaut samtals sjö verðlaun við útskrift sína úr skólanum, þar á meðal fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fyrir bestan árangur í náttúrufræði. 

 

 

23. apríl 2007

Hörpudiskurinn í Breiðafirði – Veiðar, þróun og framtíð

Fimmtudaginn 26. apríl, kl. 20:00 á ráðhúsloftinu mun Jónas Páll Jónasson, líffræðingur, flytja erindi um hörpudisk í Breiðafirði. Í erindinu verður fjallað um sögu veiðanna og stofnstærðarbreytingar í ljósi áhrifa veiða og breytilegs umhverfis. Sérstök áhersla verður lögð á að reyna að skýra orsakir hnignunar stofnsins. Einnig verður fjallað um mögulegar framtíðarrannsóknir á hörpudiski og vistkerfinu í Breiðafirði, sem geta nýst til að ná markmiðum um sjálfbærar veiðar í sem bestri sátt við umhverfið.

Jónas lauk meistaraprófsnámi við Háskóla Íslands árið 2005 en meistaraprófsverkefni hans bar heitið: Áhrif umhverfisþátta og veiða á afkomu hörpudisks.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Hörpudiskur

 

18. apríl 2007

Vel heppnaður fyrirlestur Jóns Einars

Í gærkvöldi hélt Jón Einar Jónsson, starfsmaður Háskólaseturs Snæfellsness, mjög fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur um snjógæsir og önnur dýr í Louisiana á ráðhúsloftinu í Stykkishólmi. Fyrirlesturinn var vel sóttur en um 30 gestir mættu. Jón Einar er nýlega kominn til starfa en hann mun stunda rannsóknir á stofnvistfræði æðarfugls.

Jón Einar
Jón Einar Jónsson

 

18. apríl 2007

Vogmær finnst á Snæfellsnesi

Í gær fann Jón Ingi Hjaltalín um 1 m langa sjórekna vogmey (Trachipterus arcticus) skammt frá Bjarnarhöfn á norðanverðu Snæfellsnesi. Um er að ræða fremur sjaldgæfan fisk við Ísland. Landið er við norðurmörk útbreiðslusvæðisins, sem nær yfir norðaustanvert Atlantshaf frá Íslandi til norðurhluta Afríku. Vogmærin er allsérkennileg, hávaxin, þunnvaxin og allt að 3 metrar á lengd.

Vogmeyjar hafa veiðst eða fundist sjóreknar nokkrum sinnum á síðustu mánuðum, t.d. við Húsavík í janúar, skv. frétt á vef Náttúrustofu Norðausturlands(http://www.nna.is/news.asp?id=630&news_ID=404&type=one).
Nánari fróðleik um vogmeyjar má finna á Vísindavefnum(http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3980).

Vogmær

 

16. apríl 2007

Snjógæsir og fleiri dýr – Náttúrufar í Louisiana

Á morgun, þriðjudaginn 17. apríl kl. 20:00 heldur Jón Einar Jónsson, dýravistfræðingur við Háskólasetur Snæfellsness, erindi á ráðhúsloftinu.

Jón Einar er nýkominn til starfa á Háskólasetrinu og mun einkum fást við rannsóknir á æðarfugli. Hann bjó í Bandaríkjunum síðustu ár og vann þar við rannsóknir á snjógæsum. Snjógæsir í Bandaríkjunum telja um tíu milljónir og mynda gríðarstóra og tilkomumikla hópa.

Í fyrirlestrinum verður fjallað almennt um snjógæsir og sagt frá ýmsum örðum dýrum í Louisiana, m.a. krókóldílum, pelíkönum, hegrum, otrum, svartbjörnum og beltisdýrum.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

snjógæsir

 

11. apríl 2007

Fjölmennt á umhverfisbíói

Í gærkvöldi og í dag hafa um 140 Hólmarar og nærsveitungar séð Óskarsverðlaunamyndina „An Inconvenient Truth” eða „Óþægilegur sannleikur” í umhverfisbíói Náttúrustofunnar. Í gærkvöldi var opin sýning Náttúrustofunnar og Umhverfishóps Stykkishólms fyrir almenning en í dag komu sex efstu bekkir Grunnskólans í Stykkishólmi og horfðu á myndina ásamt kennurum sínum og umsjónarfólki.

Myndin fjallar um hlýnun jarðar af mannavöldum og á boðskapur myndarinnar brýnt erindi við íbúa Snæfellsness eins og aðra jarðarbúa. Í hnotskurn eru þar sett fram rök fyrir því að ef við viljum halda jörðinni byggilegri fyrir komandi kynslóðir er kominn tími til að við endurskoðum lífshætti okkar.

Starfsfólk Náttúrustofunnar er mjög ánægt með góðar móttökur umhverfisbíósins og þess má vænta að á næstu misserum standi hún fyrir fleiri sýningum á vönduðum fræðslumyndum er tengjast umhverfismálum.

Myndin var sýnd með leyfi Smáís fyrir hönd Sam mynda.

umhverfisbio

 

11. apríl 2007

Minkaveiðar á Snæfellsnesi og við Eyjafjörð

Náttúrustofa Vesturlands vinnur í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands að minkarannsóknum vegna tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins um svæðisbundna útrýmingu minks. Allir þeir sem veiða minka á Snæfellsnesi eða við Eyjafjörð eru hvattir til að senda inn hræ til rannsókna.

Senda skal hræin í heilu lagi og mun Náttúrustofan koma upplýsingum um veiðimenn og fjölda veiddra minka til Umhverfisstofnunar, sem sér um að greiða verðlaun fyrir hvern veiddan mink.
Stofnunin greiðir flutningskostnað ef um hann er að ræða og eru veiðimenn þá beðnir um að merkja sendinguna sem frystivöru.

Ekki er óskað eftir minkum sem veiddir eru á öðrum landsvæðum

Upplýsingar sem þurfa að fylgja minkahræi:

 • Dagsetning veiði
 • Staðsetning (helst GPS en annars nákvæm lýsing með örnefnum)
 • Veiðiaðferð (ef gildra, þá hvaða gerð?)
 • Agn (ef við á)
 • Ef hvolpar veiðast með móður skulu þeir vera í sama poka og hún og tilgreina skal hvort veiðimaður telji að allir hvolpar hafi náðst.
 • Nafn og heimilisfang veiðimanns

Minkar veiddir á Snæfellsnesi eða nágrenni (t.d. svæði sem markast af Skógarströnd norðan megin og Hítará að sunnanverðu) sendist til:

Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargötu 3
340 Stykkishólmur

Á Snæfellsnesi eru merktir minkar í náttúrunni. Mikilvægt er því að tilkynna Náttúrustofunni í s. 433 8121 eða 898 6638 um veiddan mink þótt honum sé ekki skilað strax svo rannsóknamenn eyði ekki tíma í að leita merktra minka sem þegar hafa veiðst. Boðið er upp á þá þjónustu að minkahræ verði sótt til veiðimanns, oftast samdægurs eða innan mjög fárra daga

Minkar veiddir við Eyjafjörð sendist til:

Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar
Borgum v/Norðurslóð
600 Akureyri

 

10. apríl 2007

Umhverfisbíó í kvöld

Í kvöld verður UMHVERFISBÍÓ á ráðhúsloftinu. Sýnd verður hin margverðlauna fræðslumynd „An inconvenient truth“. Sýningin hefst kl. 20:00 og er aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

umhverfisbio

 

29. mars 2007

Fyrirlestraröð náttúrustofa gengur framar vonum

Á Íslandi starfa 7 náttúrustofur. Samtök náttúrustofa hafa tekið upp þá nýbreytni að standa fyrir fræðsluerindi í hádeginu síðasta miðvikudag hvers mánaðar og er honum varpað í gegnum fjarfundabúnað um land allt. Þeir staðir sem tekið hafa á móti þessum fyrirlestrum eru Reykjavík, Stykkishólmur, Ísafjörður, Sauðárkrókur, Húsavík, Egilsstaðir, Neskaupstaður og Vestmannaeyjar.

Í gær var haldinn 3. fyrirlesturinn í þessari fyrirlestraröð en áður hafði Gunnar Þór Hallgrímsson, Náttúrustofu Reykjaness, fjallað um rannsóknir sínar á sílamáf á Suðvesturlandi og Þorsteinn Sæmundsson, Náttúrustofu Norðurlands vestra, um rannsóknir sínar á jarðfræðilegum ummerkjum snjóflóða. Í gær var svo komið að Róbert A. Stefánssyni og Menju von Schmalensee, Náttúrustofu Vesturlands, sem héldu fyrirlestur um sérstöðu og verndun Breiðafjarðar.

Þessi tilraun náttúrustofa til miðlunar fræðslu hefur gengið framar vonum þrátt fyrir fremur litla kynningu fram til þessa. Á fyrirlestur Gunnars Þórs mættu samtals 49 manns, 45 á fyrirlestur Þorsteins og 62 á fyrirlestur Róberts og Menju í gær. Þetta telst vera framúrskarandi mæting á fyrirlestra af þessu tagi. Því má bæta við að nýlega héldu Róbert og Menja hliðstæðan fyrirlestur á Ráðhúsloftinu í Stykkishólmi, þar sem um 40 gestir mættu.

Næstu erindi verða haldin 25. apríl frá Náttúrustofu Vestfjarða, 30. maí frá Náttúrustofu Norðausturlands, 26. september frá Náttúrustofu Austurlands og hringnum verður svo lokað 31. október með fyrirlestri frá Náttúrustofu Suðurlands. Fyrirlestrunum er varpað til símenntunarmiðstöðva víða um landið og eru allir velkomnir.

 

26. mars 2007

Sérstaða og verndun Breiðafjarðar

Miðvikudaginn 28. mars nk., kl. 12:15 til 12:45 munu Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee líffræðingar hjá Náttúrustofu Vesturlands flytja erindið „Sérstaða og verndun Breiðafjarðar“.

Erindið verður flutt í fræðsluverinu í Egilshúsi og eru allir velkomnir.

Erindið er hluti af fræðsluerindaröð sem Samtök Náttúrustofa standa fyrir og flutt eru í fjarfundarbúnaði um land allt.

fjarfundur

 

28. febrúar 2007

Uppbygging rannsókna hjá VÖR

VÖR Sjávarrannsóknasetur við Breiðafjörð hlaut styrk úr Rannsóknasjóði til rannsóknarverkefnisins: „Vöktun umhverfisþátta og framvindu svifþörunga í Breiðafirði.“  Eitt af markmiðum athugunarinnar er að kanna tengsl eðlis- og efnafræðilegra þátta (meðal annars styrk næringarefna, sjávarhita,  ljóss) og magns og tegundasamsetningar svifþörunga í innan- og utanverðum Breiðafirði.

Nú leitar VÖR að starfskrafti til að vinna að greiningu þörunga úr náttúruperlunni Breiðafirði. Frekari upplýsingar um störf í boði og rannsóknaráherslur má finna á heimasíðu VARAR www.sjavarrannsoknir.is eða með því að hafa samband við Erlu Björk Örnólfsdóttur (erla@sjavarrannsoknir.is).

 

28. febrúar 2007

Fræðsluerindi Náttúrustofanna í fjarfundarbúnaði um land allt

Í dag, frá kl. 12:15 – 12:45, mun Þorsteinn Sæmundsson, doktor í jarðfræði hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra, flytja erindið „Jarðfræðileg ummerki snjóflóða„.

Hægt er að sjá fræðsluerindin á eftirtöldum stöðum:

Reykjavík: Háskóli Íslands – Í kjallara Odda

Stykkishólmur: Egilshús

Ísafjörður: Háskólasetrið

Sauðárkrókur: Farskólinn Norðurlandi vestra

Húsavík: Þekkingarsetur Þingeyinga

Egilsstaðir: Vonarland

Neskaupstaður: Verkmenntaskóli Austurlands

Vestmannaeyjar: Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja.

mynd

 

13. febrúar 2007

Sérstaða Breiðafjarðar

Fimmtudaginn 15. febrúar kl. 20:00 á ráðhúsloftinu mun Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, halda fyrirlestur um hið margbreytilega náttúrufar í bakgarðinum okkar og fjalla um sérstöðu þess. Hann mun einnig segja frá verndarsvæði Breiðafjarðar og ræða þau tækifæri sem felast í vernduninni.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Sérstaða Breiðafjarðar

 

30. janúar 2007

Vel heppnað bíó hlaut skjótan endi

Umhverfisbíóið í gærkvöldi, þar sem sýndar voru tvær af náttúrufræðslumyndum Magnúsar Magnússonar, heppnaðist sérstaklega vel. Mætingin var framúrskarandi, um 45 manns, og stemningin góð.

Að lokinni sýningu seinni myndarinnar hófust umræður en þær hlutu skjótan og óvæntan endi þegar rafmagn fór af öllu Snæfellsnesi vegna bilunar í raflínu nærri Skógarnesi í Eyja- og Miklaholtshreppi. Nokkrir dvöldu þó lengur við spjall í myrkrinu.

Í ljósi þess hversu vel tókst til með sýninguna er ljóst að leikurinn verður endurtekinn fyrr eða síðar.

 

29. janúar 2007

Umhverfisbíó

Í kvöld verður UMHVERFISBÍÓ á ráðhúsloftinu. Sýndar verða á tjaldi tvær skemmtilegar náttúrulífsmyndir eftir Magnús Magnússon, sem nýlega gaf safn mynda sinna til Náttúrustofunnar, Háskólasetursins og Stykkishólmbæjar.

Dagskrá kvöldsins:

kl. 20:00. Sýning myndarinnar „Fuglabjörg – Sjófuglar á Íslandi“
Kl. 20:45. Stutt hlé. Kaffiveitingar
Kl. 20:55. Sýning myndarinnar „Hvert fara þeir? – Fuglamerkingar í 100 ár“
Kl. 21:25. Léttar umræður.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

mynd

 

26. janúar 2007

Fræðsluerindi Náttúrustofanna í fjarfundarbúnaði um land allt

Náttúrustofur eru staðsettar í öllum landshlutum. Þar starfar hópur fagfólks á hinum ýmsu fræðisviðum. Náttúrustofurnar hafa bundist samtökum sem heitaSamtök Náttúrustofa og standa nú fyrir fróðlegum fræðsluerindum í fjarfundarbúnaði víðsvegar um landið.

Fræðsluerindin eru síðasta miðvikudag í hverjum mánuði, frá kl. 12:30-13:00.

Allir eru velkomnir.

Hægt er að sjá fræðsluerindin á eftirtöldum stöðum:

Reykjavík: Háskóli Íslands – Í kjallara Odda

Stykkishólmur: Egilshús

Ísafjörður: Háskólasetrið

Sauðárkrókur: Farskólinn Norðurlandi vestra

Húsavík: Þekkingarsetur Þingeyinga

Egilsstaðir: Vonarland

Neskaupstaður: Verkmenntaskóli Austurlands

Vestmannaeyjar: Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja.

Fleiri staðir geta hugsanlega tengst ef þess er óskað.

Fyrsta fræðsluerindið verður miðvikudaginn 31. janúar nk. frá klukkan 12:30-13:00. Þá flytur Gunnar Þór Hallgrímsson doktorsnemi í líffræði hjá Náttúrustofu Reykjaness erindið: Af sílamáfum á Suðvesturlandi.

Önnur fræðsluerindi verða sem hér segir:

Þann 28. febrúar – Náttúrustofa Norðurlands vestra: Jarðfærðileg ummerki snjóflóða

Þann 28. mars – Náttúrustofa Vesturlands

Þann 25. apríl – Náttúrustofa Vestfjarða

Þann 30. maí – Náttúrustofa Norðausturlands

Þann 26. september – Náttúrustofa Austurlands

Þann 31. október – Náttúrustofa Suðurlands

Einstök erindi verða auglýst nánar þegar nær dregur.

mynd

 

16. janúar 2007

Vetrarfuglar á Snæfellsnesi í janúar 2007

Í janúar fór fram á Íslandi árleg talning vetrarfugla, sem skipulögð er af Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrustofa Vesturlands hefur frá árinu 2001 tekið þátt í verkefninu og talið vetrarfugla við Kolgrafafjörð og Hraunsfjörð á Snæfellsnesi (frá Eiði við Kolgrafafjörð að nyrðri brú yfir Hraunsfjörð).

Samtals sáust 19 tegundir samanborið við 14-21 tegund hin árin en aldrei fyrr hafa sést eins margir fuglar á svæðinu eða 2.566. Fyrir utan heildarfjölda fugla skar þetta ár sig helst úr að því leyti að nú voru æðarfugl og hávella algengari en áður og ekki hafa sést fleiri stokkendur síðan 2001, tjaldar voru óvenjulega margir (dálítið fleiri árið 2003), svartbakar voru fleiri en áður en teistur sáust ekki núna frekar en árin 2002 og 2003. Æðarkóngur sást nú í fyrsta skipti á svæðinu í vetrarfuglatalningu. Að öðru leyti voru niðurstöðurnar svipaðar fyrri árum.

mynd

Einn æðarkóngur sást í Kolgrafafirði. Hann er skyldur æðarfugli en hefur norðlægari útbreiðslu. Hann sést árlega á Íslandi en verpur hér sjaldan.


12. janúar 2007

Náttúrustofan, Háskólasetrið og Stykkishólmsbær fá veglega gjöf

Skömmu fyrir jól kom kvikmyndagerðarmaðurinn Magnús Magnússon færandi hendi í Stykkishólm og gaf Náttúrustofu Vesturlands, Háskólasetri Snæfellsness og Stykkishólmsbæ afnot af ævistarfi sínu. Um er að ræða 16 DVD diska með meira en 13 klukkustunda efni um náttúru Íslands. Gjöfin er blanda af náttúrulífsmyndum og þáttum sem sýndir hafa verið í sjónvarpi og sumar einnig í kvikmyndahúsum. Þar má nefna kvikmyndirnar „Hinn helgi örn”, „Fuglabjörg – sjófuglar á Íslandi” og „Hvert fara þeir? Fuglamerkingar í 100 ár” og þáttaraðirnar „Náttúra Íslands – Friðlýst svæði og náttúruminjar” og „Náttúra Íslands – Fuglar”.

Gjöfin er ákaflega vegleg, þar sem áðurnefndir aðilar fá um leið sýningarétt á mynddiskunum. Náttúrustofan og Háskólasetrið munu standa fyrir sýningum myndanna fyrir almenning og verða þær auglýstar síðar. Sjálfsagt er að stofnanir bæjarins fái diskana að láni til kennslu eða sýninga á sinni stofnun, en Náttúrustofan mun sjá um varðveislu og útlán.

Þess má geta að Náttúrustofan, Háskólasetrið og Magnús Magnússon vinna nú að handritsgerð og fjármögnun nýrrar kvikmyndar um náttúru Vesturlands með áherslu á Breiðafjörð og Snæfellsnes. Starfsmenn náttúrustofunnar hafa áður unnið að myndinni „Minkur í náttúru Íslands” með Magnúsi.

mynd