Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Umhverfismál og þjónustuverkefni

Umhverfisvottun á starfsemi sveitarfélaga

Starfsemi sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi hefur borið umhverfisvottun frá árinu 2008 en
undirbúningsvinna verkefnisins hófst 2003. Starfsfólk Náttúrustofunnar hefur haft aðkomu að
verkefninu frá upphafi, bæði með beinu vinnuframlagi, ráðgjöf og þjónustu til sveitarfélaganna.
Vinnan að verkefninu er í grófum dráttum tvíþætt. Annars vegar árlegir verkþættir eins og
gagnasöfnun og vöktun auðlindanotkunar, uppfærsla umhverfisstjórnunarhandbókar, útgáfa
ársskýrslu og endurskoðun á framkvæmdaáætlun og innkaupaskráningakerfi. Hins vegar er um að
ræða alls kyns afmörkuð verkefni sem styðja við vottunina og ýta undir úrbætur í umhverfismálum á
Snæfellsnesi. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu þess, www.nesvottun.is.

Vernd Breiðafjarðar

Breiðafjarðarnefnd er ráðherra til ráðgjafar um allt sem viðkemur lögum nr. 54/1995 um vernd
Breiðafjarðar. Náttúrustofa Vesturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða
eiga sameiginlegan fulltrúa í nefndinni og skiptast á að gegna nefndarstörfum. Náttúrustofan hefur
veitt Breiðafjarðarnefnd þjónustu frá 2001 með því að halda utan um dagleg störf nefndarinnar og
vinna ýmis sérverkefni sem tengjast verndarsvæðinu. Nánari upplýsingar um starfsemi
Breiðafjarðarnefndar má finna á vefsíðu hennar, www.breidafjordur.is.

Almenningsfræðsla um náttúru og umhverfismál

Náttúrustofan hefur í gegnum tíðina komið að almenningsfræðslu með ýmsu móti. Þar má nefna að
starfsfólk hennar hefur haldið og staðið fyrir opnum fræðsluerindum um fjölbreytt málefni, sinnt
kennslu, heimsótt skóla og fengið nemendur í heimsókn, skrifað greinar í dagblöð og tímarit og
útbúið fræðslubæklinga og -skilti um ýmis náttúrutengd mál. Þá hefur Náttúrustofan verið helsti
bakhjarl Umhverfishóps Stykkishólms, sem unnið hefur að ýmsum málum og vann til að mynda
frumkvöðlastarf við að draga úr notkun einnota burðarplastpoka í átaksverkefni sem hófst árið 2014.

Nefndaseta og ráðgjöf

Starfsfólk Náttúrustofunnar hefur frá stofnun verið virkt í fjölmörgum nefndum, stjórnum og
starfshópum sem tengjast starfssviði stofunnar. Sem dæmi má nefna að starfsmaður
Náttúrustofunnar var formaður sérfræðinganefndar umhverfis- og auðlindaráðherra sem skilaði
veglegri skýrslu um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra árið 2013. Önnur dæmi um nefndastörf
eru seta í Breiðafjarðarnefnd, stjórn samtaka um vernd íslenskra háhyrninga (Orca Guardians), hópi
íslenskra sérfræðinga um ágengar tegundir (ÍSÁT), stýrihópi InDyNet (Invasion Dynamics Network) og samráðsnefnd um stjórnunar- og verndaráætlun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Þá situr starfsmaður
Náttúrustofunnar í stjórn Fuglaverndar. Einnig veitir Náttúrustofan stjórnvöldum ýmsa ráðgjöf. Þar
má nefna skrif umsagna um ný lagafrumvörp og reglugerðir.

Rannsóknir vegna framkvæmda

Náttúrustofan hefur komið að rannsóknum vegna ýmiss konar framkvæmda, s.s. vegna vegagerðar,
landfyllinga, virkjana og vindorkugarða. Rannsóknir hafa einkum beinst að fuglum og spendýrum, en
einnig hafa verið unnar lýsingar á almennu náttúrufari á fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum.

Villt dýr í neyð

Hverjum þeim sem verður vitni að dýri í neyð ber skylda til að sjá til þess að því sé komið til aðstoðar,
sbr. 7. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Þarna ber að gera greinarmun á raunverulegri neyð
annars vegar og hins vegar aðstæðum þar sem t.d. móðir hefur tímabundið yfirgefið afkvæmi sitt
vegna styggðar eða fæðuöflunar. Starfsfólk Náttúrustofunnar hefur ótal sinnum aðstoðað dýr í neyð,
ýmist á vettvangi úti í náttúrunni eða hlúð tímabundið að dýrum í haldi á meðan þau jafna sig eftir
áverka. Oft hefur þetta tengst haförnum sem hafa komið sér í vandræði en einnig öðrum
fuglategundum og strönduðum hvölum.