Í síðustu viku stóðu Umhverfishópur Stykkishólms, Framkvæmdaráð Snæfellsness (umhverfisvottunarverkefni sveitarfélaganna) og Náttúrustofa Vesturlands fyrir málþingi undir heitinu „Umhverfisvænni samgöngur á Snæfellsnesi“. Umhverfishópur Stykkishólms fékk 350.000 kr. styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að standa straum af kostaði við málþingið. Nokkrir helstu sérfræðingar landsins á sviði orkugjafa í samgöngum voru fengnir til Stykkishólms, þar sem þeir héldu mjög fræðandi erindi um orkuskipti, metanbíla, rafbíla, vistakstur o.fl. Gott rúm var fyrir umræður sem voru bæði fjörlegar og áhugaverðar. Málþingið var opið öllum og aðgangur ókeypis.
Fram kom á málþinginu að bæði vegna þess að jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind sem mun klárast og vegna umhverfisáhrifa af brennslu þess er mjög brýnt að leitað verði annarra leiða til að knýja samgöngur. Nú þegar eru ýmsir möguleikar í boði og þeim fjölgar ört. Hér á landi virðast bæði metan- og rafbílar geta átt vel við. Miklar tækniframfarir hafa orðið undanfarin ár sem gera þessa bíla mjög vænlega kosti. Breyta má hefðbundnum bensín- og díselbílum í metanbíla og framboð nýrra metanbíla hefur aukist. Framboð af metani fer vaxandi og er talið geta knúið 15-25% af öllum bílaflota landsmanna. Rafbílum er að fjölga víða um heim og er Noregur þar í fararbroddi. Íslenskt loftslag hentar vel fyrir rafbíla auk þess sem hér er framleitt mikið af rafmagni. Rætt var um kosti og galla við mismunandi gerðir þeirra bíla sem ekki notast við jarðefnaeldsneyti og kom fram að mismunandi gerðir henta misvel eftir aðstæðum á hverjum stað og eftir akstursmynstri hvers og eins. Því er líklegt að í framtíðinni sjáum við einhverja blöndu af farartækjum sem nota mismunandi orkugjafa frekar en að ein ákveðin gerð yfirtaki markaðinn. Á næstunni er brýnt að stjórnvöld, þar með talið sveitarfélög, marki sér og hrindi í framkvæmd metnaðarfullri stefnu um orkuskipti í samgöngum og að innviðir, s.s. orkustöðvar og dreifing, verði byggð upp.
Á málþinginu kom einnig fram að hægt er að spara umtalsverðar fjárhæðir með því að endurskoða bílanotkun sína, án þess að draga úr notkuninni sjálfri, þ.e. án þess að aka minna en nú er gert. Hér skiptir val á bíltegund og ökulag bílstjóra höfuðmáli.
Á málþinginu kom glöggt fram að verði rétt á spilum haldið mun Ísland auðveldlega geta staðið undir framleiðslu orku fyrir allar innanlandssamgöngur. Það mun spara þjóðarbúinu tugi milljarða, sem annars færu í kaup og innflutning á jarðefnaeldsneyti, og bætir öryggi landsmanna ef upp kemur alþjóðlegt neyðarástand í olíumálum. Fæðuöryggi landsmanna og flestar framleiðslugreinar eru algjörlega háð greiðum innflutningi jarðefnaeldsneytis en með orkuskiptum samgöngutækja myndi mengun minnka og fæðu- og atvinnuöryggi stóraukast.
Á málþinginu var rætt um möguleikann á að fá til Snæfellsness sérfræðing til að halda námskeið í vistakstri/sparakstri, sem dregur stórlega úr eldsneytiseyðslu og sliti bifreiða. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í slíku námskeiði eru beðnir um að setja sig í samband við umhverfisfulltrúa Snæfellsness á Náttúrustofu Vesturlands (Theó, s. 433-8123 eða theo@nsv.is).
Recent Comments