Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag
Ráðhúsið í Stykkishólmi þar sem Náttúrustofa Vesturlands er til húsa

Um Náttúrustofu Vesturlands

Náttúrustofa Vesturlands er staðsett í ráðhúsi Stykkishólmsbæjar við Hafnargötu. Húsið var áðurkaupfélag, sem byggt var árið 1931, en verslunarrekstur lagðist þar af árið 1987. Eftir að húsið hafði staðið autt um nokkurt skeið, var ákveðið að taka það undir ráðhús. Hófst þá gagnger endurnýjun hússins og bæjarskrifstofurnar fluttu í það árið 1998. Gengið var frá kaupum Náttúrustofunnar á tæplega helmingi 2. hæðar árið 2000 en auk þess leigir hún rannsóknaaðstöðu í kjallara hússins.

Tíð forstöðumannaskipti urðu til þess að starfsemin komst fyrst almennilega af stað árið 2001. Róbert A. Stefánsson hóf störf sem forstöðumaður í desember 2000 en áður höfðu tveir menn gegnt forstöðu en það voru dr. Kristján Geirsson, sem var ráðinn snemma árs 1999, og dr. Jón Baldur Sigurðsson, sem starfaði frá nóvember 1999 til september 2000.

Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, opnaði Náttúrustofu Vesturlands formlega þann 28. júní 2001 að viðstöddu fjölmenni. Fyrir utan að Náttúrustofan opnaði, var þetta merkur dagur fyrir Vestlendinga vegna þess að þá var einnig stofnaður Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Ýmsir tóku til máls á opnun Náttúrustofunnar og einkenndist opnunin af jákvæðni og bjartsýni, sem skiluðu sér beint inn
í starfsemi hennar.

Náttúrustofur eru nú átta talsins, dreifðar um landið. Þær eru fyrst og fremst rannsókna- og fræðslustofnanir. Meðal helstu hlutverka þeirra er að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir ásamt því að veita fræðslu og ráðgjöf til
náttúruverndarnefnda, sveitarfélaga og annarra. Hver og ein náttúrustofa er rekin sem sjálfstæð eining en þær eiga þó með sér ýmsa samvinnu undir hatti Samtaka náttúrustofa (https://sns.is/), bæði um sameiginleg hagsmunamál en einnig um rannsóknir o.fl.

Fyrsta ár eiginlegrar starfsemi Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi var 2001. Síðan þá hefur áherslan verið á vistfræðirannsóknum, sérstaklega á spendýrum og fuglum, og hefur við það verið beitt fjölbreyttum aðferðum vistfræðinnar og skyldra greina.