Mánudagskvöldið 13. febrúar mun Hálfdán H. Helgason, líffræðingur, sýna svipmyndir frá Bjarnarey (Bjørnøya) en hann hefur undanfarin sumur stundað þar rannsóknir, einkum á sjófuglum, á vegum Norsk Polarinstitutt (www.npolar.no).
Bjarnarey er 180 ferkílómetra eyja milli Noregs og Svalbarða. Staðsetning hennar við hafstraumaskil gera hana að mikilvægri varpstöð ýmissa sjófuglategunda. Náttúrufar eyjarinnar er um margt sérstakt og hafa gríðarlegar auðlindir á og við hana orsakað milliríkjadeilur. Fjallað verður um eyjuna í máli og myndum og rannsóknir sem þar eru stundaðar.
Erindið, sem haldið er á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi og Náttúrustofu Vesturlands, verður á ráðhúsloftinu, Hafnargötu 3 í Stykkishólmi.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
Recent Comments