Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Ágengar tegundir[1] eru taldar á meðal helstu umhverfisógna ásamt loftslagsbreytingum og eyðingu búsvæða. Náttúrustofa Vesturlands stundar rannsóknir á ágengum tegundum á Íslandi, einkum hinum amerískættuðu mink og alaskalúpínu.

Á undanförnum árum hefur starfsfólk Náttúrustofunnar í auknum mæli tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi sem snertir ágengar tegundir. Er einkum um að ræða tvö verkefni.

IndyNet

InDyNet (Invasive species dynamics network), sem er fjölþjóðlegur samstarfshópur sérfræðinga undir stjórn Freie Universität Berlin og Leibniz-Institute of Freshwater Ecology and Inland Fisheries. Hópurinn hefur tvisvar komið saman á vinnufundum í Berlín og er næsti fundur fyrirhugaður í febrúar 2018. Verkefnið er styrkt af Þýska rannsóknasjóðnum Deutsche Forschungsgemeinschaft. Hópurinn vinnur að samantekt og úrvinnslu ýmissa gagna um ágengar tegundir, með áherslu á niðurstöður langtímarannsókna. Undirhópar vinna að ritun nokkurra vísindagreina og birtist ein þeirra, sem tveir starfsmenn Náttúrustofunnar tóku virkan þátt í, í hinu virta vísindariti Ecology Letters á nýliðnu sumri. Greinin fjallaði um þá tilhneigingu sumra ágengra tegunda að verða mjög algengar eftir að þær ná fótfestu en fækka svo verulega á ný. Þótt slík dæmi séu til, eru þau fremur sjaldgæf og ætti ekki að nota sem afsökun fyrir aðgerðaleysi þegar kemur að aðgerðum gegn mögulegu tjóni. Greinina í heild sinni má lesa hér (sjá einnig frétt um greinina hér).

Samstarf Íslendinga og Pólverja

Hitt samstarfsverkefnið er við tvo háskóla í norðvestanverðu Póllandi, University of Szczecin og West Pomeranian University of Technology, og fjallar um miðlun upplýsinga og þekkingar á ágengum tegundum milli Póllands og á Íslands, m.a. um það hvernig best hefur reynst að rannsaka, fræða og takmarka tjón af slíkum tegundum. Pólskir fulltrúar verkefnisins heimsóttu Ísland í lok ágúst og byrjun september sl. og hittu sérfræðinga um ýmsa þætti íslenskrar náttúru víða um land, auk þess að halda erindi við Háskóla Íslands og á Náttúrufræðistofnun Íslands. Tveir fulltrúar Náttúrustofunnar endurguldu heimsóknina í lok september, tóku þar þátt í tveggja daga ráðstefnu og héldu sömuleiðis fyrirlestra í háskólanum í Szczecin um náttúruvernd og ágengar tegundir á Íslandi. Samstarfsverkefnið er styrkt af styrktarsjóði Evrópska efnahagssvæðisins (sem Ísland á aðild að) og Noregs (EEA and Norway Grants) og pólska þjóðarsjóðnum um náttúruvernd og stjórn vatnamála (National Fund for Environmental Protection and Water Management).

Samstarf af þessu tagi er afar mikilvægt fyrir faglegt starf og tengslamyndun stofunnar. Bæði verkefnin ganga afar vel og væntum við áfram mikils ávinnings af þeim.

[1] Ágengar tegundir eru sá hluti framandi tegunda sem veldur neikvæðum áhrifum á annað lífríki, heilsu manna eða innviði.