Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Rannsóknir og vöktun

Minkur – Stofnvistfræði

Starfsfólk Náttúrustofunnar hefur rannsakað minkastofninn frá árinu 1997 en stór hluti þeirra rannsókna hefur farið fram í góðri samvinnu við minkaveiðimenn, sem senda afla sinn til rannsóknar á Náttúrustofunni. Með krufningum minka frá minkaveiðimönnum hafa fengist upplýsingar um aldursdreifingu, líkamsástand, frjósemi, sjúkdóma o.s.frv. Minkur er upprunninn í N-Ameríku en er framandi og ágeng tegund á Íslandi og hefur valdið skaða á lífríki Íslands og margra annarra landa í Evrópu og S-Ameríku. Upplýsingar úr verkefninu í heild auka skilning á ástandi minkastofnsins og þeim ferlum sem stjórna sveiflum í stærð hans en hvort tveggja getur gagnast til að gera veiðistjórn markvissari og draga úr tjóni af völdum minks. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við Háskóla Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Minkur – Atferlisfræði

Starfsfólk Náttúrustofunnar hóf rannsóknir á atferli villtra minka árið 1996 og hefur m.a. nýtt til þess senditæki á lifandi minkum, greiningu á fæðuinnihaldi í meltingarvegi og stöðugum samsætum í vefjum. Rannsóknirnar varpa ljósi á það hvernig minkar nýta landið og auka sömuleiðis skilning á félags- og mökunarkerfi tegundarinnar. Á Íslandi á minkur ekki í teljandi samkeppni við aðrar tegundir og afrán á honum (utan veiða mannsins) er hverfandi, ólíkt því sem gerist annars staðar í heiminum. Að rannsaka atferli minka hérlendis veitir þannig einstakt tækifæri til að kanna betur „sveigjanleika“ tegundarinnar m.t.t. atferlis hennar. Slíkar upplýsingar eru dýrmætar til að skilja betur bæði tegundina sjálfa, en einnig greind og atferli dýra í stærra samhengi og hvaða þættir móta atferli og breytingar á því. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við Háskóla Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. 

Framandi, ágengar plöntur

Náttúrustofa Vesturlands hefur kortlagt útbreiðslu ágengra plantna og ráðlagt sveitarfélögum um stjórnun þeirra. Einnig rannsakar hún í samvinnu við Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands áhrif aðgerða gegn alaskalúpínu á lúpínuna sjálfa og annan gróður en slíkar upplýsingar eru mjög hagkvæmar þegar kemur að viðeigandi viðbrögðum við óæskilegum áhrifum ágengra plantna. Verkefnið er unnið í samstarfi við Stykkishólmsbæ.

Framandi og ágengar tegundir – líffræði, áhrif og stjórnun

Starfsmenn Náttúrustofunnar hafa sérhæfingu á sviði ágengra tegunda. Utan rannsókna á  einstökum ágengum tegundum eru framandi og ágengar tegundir skoðaðar í víðu samhengi, þar á meðal hvað varðar stofnsveiflur og þá þætti sem ráða því hvernig þær dreifast um heiminn og hvernig stjórnun þeirra er háttað. Þessi vinna er að stórum hluta unnin í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga um ágengar tegundir, þar á meðal samstarfsnetið InDyNet (Invasion Dynamics Network), www.indynet.de, og byggir að stórum hluta á heimildarannsóknum og þróun hugmyndafræði.

Ábúð refagrenja 

Náttúrustofan hefur frá stofnun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls 2001 vaktað hlutfall þekktra refagrenja í ábúð í þjóðgarðinum en býr jafnframt yfir upplýsingum um fjölda unninna refagrenja á svæðinu frá 1989-2001. Um er að ræða nærri 30 greni sem heimsótt eru um mitt sumar til að meta ábúð. Hlutfall grenja í ábúð er mælikvarði á stofnbreytingar refa á svæðinu. Frá árinu 2020 hefur vöktunin verið fjármögnuð af verkefninu „Vöktun náttúruverndarsvæða“, sem er samstarfsverkefni allra náttúrustofa landsins, Náttúrufræðistofnunar Íslands o.fl.

Áhrif ferðamanna á atferli sela 

Sumarið 2020 hófust rannsóknir á fjölda, dreifingu og atferli sela og ferðamanna á vinsælum selaskoðunarstað við Ytri Tungu í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Vonast er til að rannsóknirnar geti nýst til bættrar stjórnunar ferðamanna á svæðinu til að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á seli, sem átt hafa erfitt uppdráttar á undanförnum árum. Verkefnið er hluti verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“.

Háhyrningar

Háhyrningar sjást við Snæfellsnes nær allt árið. Frá árinu 2014 ár hefur verið safnað einstökum upplýsingum um ferðir og atferli þekktra einstaklinga við Snæfellsnes í samstarfi við Orca Guardians og hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours. Áhersla er á söfnun gagna með aðferðum sem ekki trufla náttúrulegt atferli dýranna, þar á meðal ljósmyndun þar sem greina má einstaklinga.

Haförn 

Hafarnarstofninn hefur verið vaktaður lengst allra íslenskra fuglastofna. Náttúrustofan tekur virkan þátt í vöktuninni með því að merkja unga og taka sýni úr þeim, ásamt því að sinna almennu eftirliti á svæðinu og bregðast við þegar ernir þarfnast aðstoðar. Verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, sem fer með verkefnisstjórn, og fuglaáhugafólk.

Bjargfuglar 

Náttúrustofan hefur frá árinu 2008 fylgst með breytingum á fjölda og varpárangri bjargfugla á Snæfellsnesi og sunnanverðum Breiðafirði. Á Snæfellsnesi nær vöktunin nú til talningarsniða á Arnarstapa, í Þúfubjargi, Saxhólsbjargi og Vallnabjargi en á Breiðafirði eru vöktunarsvæðin í Hvítabjarnarey, Þórishólma og Elliðaey. Á rannsóknarsvæðunum er helsti varpfuglinn rita og sömuleiðis fýll í minna mæli en á utanverðu Snæfellsnesi verpa einnig langvía, stuttnefja og álka. Verkefnið er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og er hluti af landsvöktun bjargfuglastofna, sem stýrt er af Náttúrustofu Norðausturlands. Frá árinu 2020 er verkefnið hluti verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“.

Strandfuglar

Náttúrustofan hefur talið fugla á leirum og með ströndinni á nokkrum svæðum á Vesturlandi. Þar má nefna að á Mýrum og í Andakíl hafa fuglar verið taldir með reglulegum hætti frá árinu 2020 og 2022 hófust talningar á leirufuglum á fartíma að vori í Helgafellssveit. Með þessum talningum fást upplýsingar um fjölda og tegundasamsetningu fugla á mörgum af mikilvægustu strandsvæðum Vesturlands fyrir fugla, þar á meðal Ramsarsvæði, verndarsvæði og svæði á Náttúruverndaráætlun. Talningarnar eru hluti verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“.

Mófuglar

Svokallaðir mófuglar eru að miklu leyti vaðfuglar og innihalda m.a. marga af stærstu fuglastofnum þurrlendis á Íslandi. Þrátt fyrir það hefur lengst af lítið verið vitað um raunverulegan þéttleika þeirra og hvernig og hvers vegna hann sveiflast á milli ára. Náttúrustofan hefur frá árinu 2013 rannsakað þéttleika mófugla á talningarpunktum á Snæfellsnesi í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands

Vatnafuglar 

Vöktun vatnafugla á Snæfellsnesi hófst árið 2011. Fuglar eru taldir á og við aðgengileg vötn, tjarnir og ár á hluta Snæfellsness og sumarið 2020 var vötnum á Mýrum bætt við verkefnið. Áherslan er á vatnafugla en allir fuglar á athugunarstöðum eru þó skráðir. Talið er tvisvar á ári, um mánaðamótin maí-júní til að meta fjölda varpfugla og svo aftur snemma í ágúst til að meta ungaframleiðslu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi.

Fiðrildi 

Náttúrustofan vaktar fiðrildi á Snæfellsnesi með ljósgildrum við Stykkishólm (frá 2012) og Gufuskála (frá 2011). Fiðrildi eru veidd frá apríl til nóvember og aflinn sóttur vikulega. Með rannsókninni fást betri upplýsingar um fiðrildafánu svæðisins, þ.e. hvaða tegundir er að finna á hvaða svæðum, hlutfallslegt algengi þeirra og hvenær þau eru helst á flugi. Einnig gefur verkefnið mikilvægar upplýsingar um umhverfisbreytingar, svo sem landnám og dreifingu nýrra tegunda og breytingar á flugtíma einstakra tegunda vegna eldgosa, veðurfars og loftslagsbreytinga. Gildran við Gufuskála er rekin í samvinnu við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Verkefnið er hluti af vöktun fiðrilda á landsvísu, en í henni taka þátt flestar náttúrustofur, Náttúrufræðistofnun Íslands o.fl.

Ástand áningarstaða ferðamanna 

Frá árinu 2020 hefur ástand á völdum verndarsvæðum á Vesturlandi verið kannað og sett í samhengi við ágang ferðamanna. Aflað er grunnupplýsinga um ástand og álag á hverjum stað með staðlaðri ljósmyndatöku og lagt mat á það hvort ástæða sé til reglulegrar vöktunar eða að grípa til einhverra aðgerða til að draga úr tjóni á náttúru. Gögn sem safnað er má nota til samanburðar síðar meir. Verkefnið er hluti af verkefninu „Vöktun náttúruverndarsvæða“.

Kolgrafafjörður

Tugir þúsunda tonna af síld drápust í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi veturinn 2012-2013 með miklum afleiðingum fyrir lífríki svæðisins (sjá t.d. hér). Náttúrustofan hefur vaktað fuglalíf að vetrarlagi á þessu svæði frá árinu 2001 og hrinti í kjölfar síldardauðans af stað rannsókn á áhrifum hans á botndýralíf í firðinum. Verkefnið er unnið í samvinnu við Háskóla Íslands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Ljósmyndir: Starfsfólk Náttúrustofunnar nema minkur á ís, köttur, lóuþræll og flórgoði (©Daníel Bergmann).

s. 433-8122
nsv@nsv.is
kt. 420299-2659