Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Út er komin ný grein um stöðu og stjórnun framandi og ágengra lífvera í Evrópu, sem birtist í vísindatímaritinu Global Change Biology. Tveir starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands tóku þátt í rannsókninni og greinarskrifum.

Framandi lífverur eru þær sem maðurinn hefur flutt með beinum eða óbeinum hætti inn á svæði þar sem þær koma ekki náttúrulega fyrir. Hluti þeirra nær fótfestu í nýjum heimkynnum og getur orðið ágengur. Rannsóknin byggir á niðurstöðum ítarlegs spurningalista sem var lagður fyrir þau sem koma að stjórnun og rannsóknum á framandi og ágengum tegundum í 41 Evrópulandi. Þetta eru m.a. þau sem vinna beint í fjölbreyttum aðgerðum gegn framandi tegundum, þ.e.a.s. slætti plantna, dýraveiðum, aðgerðum sem styrkja varnarmátt innlendra tegunda, o.s.frv. Svör fengust frá um tvö þúsund einstaklingum. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fjöldi ágengra tegunda fer vaxandi, sem og útbreiðsla þeirra og neikvæð áhrif, þrátt fyrir að verulegur kostnaður og vinna séu lögð í stjórnun þeirra. 

Ágengar framandi tegundir eru á meðal helstu ógna við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu, auk þess sem þær geta ógnað fjárhagslegum hagsmunum og heilsu mannsins. Rannsóknin sýnir að núverandi aðgerðir gegn ágengum tegundum í Evrópu duga hvergi nærri til að draga úr þeirri ógn sem af þeim stafar. Hún sýnir einnig að afar ólíklegt er að Evrópulönd nái markmiðunum sem sett voru í Kunming-Montreal stefnunni um verndun, sjálfbæra nýtingu og

og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, sem undirrituð var í desember 2022 á alþjóðlegri ráðstefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Í 6. markmiði
stefnunnar var gert ráð fyrir að árið 2030 hefði verið dregið úr innflutningi og bólfestu ágengra tegunda um a.m.k. helming og að þá yrði búið að festa í sessi
öfluga stjórnun ágengra tegunda, með áherslu á forgangssvæði. Enn eru nokkur ár til stefnu en betur má ef duga skal.