Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Komutíma ritu (Rissa tridactyla) í vörp við upphaf varptíma seinkaði um 2,6 daga að meðaltali og brottför að varpi loknu um 1,2 daga fyrir hverja breiddargráðu sem farið var í norðurátt eftir N-Atlantshafi. Þetta var á meðal þess sem fram kom í rannsókn sem Náttúrustofa Vesturlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi komu að og birtist á vef alþjóðlega vísindaritsins Ibis þann 4. mars.

Greinin er afrakstur samstarfs vísindamanna við N-Atlantshaf, sem komu fyrir og höfðu umsjón með neti myndavéla, og almennings, sem taldi fugla á myndum sem birtust á vef Sjófuglavaktarinnar (Seabird Watch https://www.zooniverse.org/proj…/penguintom79/seabirdwatch). Í greininni er lýst aðferðafræði sem þróuð var til að greina myndirnar með hjálp almennings. Í framhaldinu verður myndefnið greint frekar og aðferðin notuð til að greina áhrif breytinga í umhverfi fuglanna, m.a. vegna loftslagsvárinnar.

Verkefnið er unnið undir stjórn Oxfordháskóla en Náttúrustofan og Háskólasetrið sáu um viðhald myndavéla í tveim eyjum á Breiðafirði, Elliðaey og Hvítabjarnarey, auk þess að koma að greinarskrifum.

Greinin er í opnum aðgangi á vef Ibis: https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/ibi.13317.

Ljósmynd: Rita með unga í Hvítabjarnarey (mynd: Róbert A. Stefánsson).