Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Nýlega voru 10 ár liðin frá því að þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, opnaði Náttúrustofu Vesturlands með formlegum hætti á fallegum sumardegi, 28. júní. Að því tilefni standa dyr Náttúrustofunnar opnar sunnudaginn 2. október nk. og býður starfsfólkið íbúum Vesturlands og öðrum velunnurum að kynna sér starfsemina og fagna þessum áfanga.

Starfsemi Náttúrustofunnar hefur frá upphafi verið fjölbreytt en rannsóknir á náttúru landshlutans hafa skipað stærstan sess í starfseminni, auk ýmiss konar fræðslu- og ráðgjafarverkefna. Á næstu dögum kemur út skýrsla um starfsemi Náttúrustofunnar á árunum 2007-2010 en þar getur að líta gott yfirlit um það sem helst hefur drifið á daga starfsfólksins undanfarin ár.

Dagskráin á sunnudaginn stendur frá kl. 13-16. Í upphafi verður flutt erindi þar sem farið verður yfir sögu stofunnar og helstu verkefni hennar á síðasta áratug en kl. 14-15 verður gestum boðið að ganga um húsnæði Náttúrustofunnar og fræðast frekar um starfsemina, t.d. skoða rannsóknarstofur og fylgjast með krufningu minks. Að lokum verður boðið upp á léttar veitingar. Náttúrustofan er til húsa í ráðhúsi Stykkishólms og eru allir velkomnir á sunnudaginn.