Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Árið 2017 var annasamt hjá starfsfólki náttúrustofunar eins og endranær. Á stofunni unnu 3-4 fastráðnir starfsmenn á hverjum tíma, auk sumarstarfsmanna, háskólanema og sjálfboðaliða. Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee, líffræðingar, unnu bæði í fullu starfi að fjölbreyttum verkefnum allt tímabilið. Birna Heide Reynisdóttir, líffræðingur, vann í 80% stöðu að umhverfisvottunarverkefni sveitarfélanna á Snæfellsnesi til maíloka, en Guðrún Magnea Magnúsdóttir, sem hefur menntun í mannfræði, þróunarfræðum og alþjóðasamskiptum, tók við því starfi þann 1. september. Theódóra Matthíasdóttir, ferðamála- og jarðfræðingur, vann að málum Breiðafjarðarnefndar, lengstum í 25% starfi en í 60% starfi frá miðjum september til ársloka. Menntaskólaneminn Sara Rós Hulda Róbertsdóttir og veiðimaðurinn Guðmundur G. Símonarson voru verkefnaráðin hluta sumarsins og dýrafræðingurinn Rakel Dawn Hanson vann um skeið sem sjálfboðaliði við rannsóknir á minkum og flokkun botnsýna úr Kolgrafafirði. Svanhvít Lilja Viðarsdóttir og Pavle Estrajher, bæði nemendur við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, unnu B.S. verkefni sín um vaðfugla og fuglaskoðun hjá Náttúrustofunni og Florian Ruland, líffræðingur og doktorsnemi við Freie Universität í Berlín, hóf verkefni sitt um áhrif minka á fuglalíf í samstarfi við Náttúrustofuna.

Náttúrustofunni er samkvæmt lögum ætlað að stunda vísindalegar náttúrurannsóknir og safna gögnum, stuðla að náttúruvernd og fræðslu,veita ráðgjöf og þjónustu og sinna eftirliti eftir föngum. Náttúrustofan leitaðist við að uppfylla þessi víðfeðmu hlutverk á árinu sem leið.

Vísindalegar náttúrurannsóknir og gagnasöfnun: Náttúrustofan hélt áfram fjölmörgum vöktunarrannsóknum, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðrar stofnanir. Er um að ræða gagnasöfnun sem er endurtekin árlega. Bar þar hæst vöktun á haförnum, bjargfuglum, mófuglum, vatnafuglum, vetrarfuglum, fiðrildum og ábúð refagrenja. Vetrarfuglatalningar eru framkvæmdar í byrjun janúar en að öðru leyti fer gagnaöflun við þessar rannsóknir fyrst og fremst fram að sumarlagi og er sá árstími því oft mjög annasamur. Náttúrustofan tók á árinu einnig þátt í rannsóknum sem eru afmarkaðri og hannaðar til að svara ákveðnum spurningum, þar á meðal um eiturefnabyrði og skyldleikaæxlun hjá örnum og áhrif síldardauðans á lífríki Kolgrafafjarðar. Þá hefur Náttúrustofan beint sjónum sínum að ágengum tegundum eins og mink og vegna þess sérsviðs var leitað til líffræðinga hennar um alþjóðlegt samstarf, sem þeir sinntu annars vegar með þátttöku í alþjóðlegum hópi sérfræðinga (InDyNet) sem leitast við að samþætta þekkingu og skrifa yfirlitsgreinar um ágengar tegundir og hins vegar með formlegu samstarfi við tvo háskóla í Póllandi. Á vegum fyrrnefnda hópsins tóku sérfræðingar Náttúrustofunnar þátt í skrifum tveggja yfirlitsgreina á árinu, og birtist önnur þeirra í ágúst en hin er í ritrýniferli. Á vegum þess síðarnefnda er hafin þriggja ára erfðarannsókn á villtum minkum á Íslandi.

Náttúruvernd og fræðsla: Stjórnendur Náttúrustofunnar hafa ávallt álitið fræðsluhlutverk hennar mikilvægt og ákváðu á árinu að prófa nýtt fyrirkomulag opinna fræðsluerinda. Heil fyrirlestraröð með 10 erindum var skipulögð og auglýst í heilu lagi. Erindin voru haldin nokkuð þétt í mánuðunum febrúar-maí. Óhætt er að segja að fyrirlestraröðin hafi heppnast mjög vel en að jafnaði mættu 24 á hvert erindi, sem telja verður afbragðs árangur. Starfsmenn Náttúrustofunnar fluttu einnig á árinu erindi á málþingi um válista, á og í tengslum við ráðstefnu um ágengar tegundir í Póllandi, á Líffræðiráðstefnunni og á Náttúrustofuþingi, sem og á ýmsum fundum og samkomum. Samtals fluttu starfsmenn Náttúrustofunnar 25 erindi á árinu og skipulögðu þar að auki samtals 14 erindi gestafyrirlesara, kynntu tvö veggspjöld á ráðstefnum og birtu tvær vísindagreinar og unnu að þremur greinum til viðbótar sem vonandi birtast 2018. Helstu önnur verkefni Náttúrustofunnar á árinu á sviði náttúruverndar og fræðslu var vinna að rannsóknaáætlun og úttekt á stöðu þekkingar vegna þörungatekju, seta í ýmsum nefndum og ráðum á sviði náttúruverndar, vinna tengd strandhreinsun og verkefninu „Margnota Snæfellsnes“ og vinna með Breiðafjarðarnefnd að verkefnum sem tengjast vernd Breiðafjarðar.

Ráðgjöf og þjónusta: Náttúrustofan veitti sveitarfélögunum á Snæfellsnesi þjónustu vegna EarthCheck umhverfisvottunarverkefnis þeirra, eins og hún hefur gert frá upphafi þess verkefnis. Í þeirri vinnu fólst m.a. gerð styrkumsókna, skrif árskýrslu og árangursmat verkefnisins, uppfærsla á Framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna 2018-2022, gagnaöflun um auðlindanotkun sveitarfélaganna og undirbúningur fyrir næstu úttekt vottunarinnar. Einnig var unnið að strandhreinsun á Norræna strandhreinsideginum og að verkefninu Margnota Snæfellsnes, sem bæði hlutu verðskuldaða athygli fyrir virka þátttöku íbúa og samtakamátt á svæðinu. Náttúrustofan veitti Breiðafjarðarnefnd einnig þjónustu, m.a. með svörun erinda, undirbúningi funda, eftirfylgni með verkefnum sem nefndin samþykkti, umsjón með reikningum og fjárhagsáætlun, ritun starfsskýrslu, gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Breiðafjarðarnefnd 2018-2021, vinnu að greinargerð um endurskoðun laga um vernd Breiðafjarðar, vinnu að undirbúningi þess að Breiðafjörður verði mögulega tilnefndur á Ramsarskrá, auk þess að vinna yfirlit um örnefnaskráningar á verndarsvæðinu. Þá var starfsfólk Náttúrustofunnar Stykkishólmsbæ innan handar vegna ráðgjafar um aðgerðir gegn ágengum plöntutegundum í sveitarfélaginu.

Eftirlit: Starfsfólk Náttúrustofunnar hefur eftirlit með náttúru Vesturlands á ferðum sínum og tekur við ábendingum frá almenningi. Eins og oft áður kom Náttúrustofan einnig að hjálp villtra dýra í neyð, en samkvæmt lögum um velferð dýra ber þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti að veita því umönnun eftir föngum. Náttúrustofan hjúkraði særðum smyrli til heilsu, var ráðgefandi og tók þátt í aðgerðum til hjálpar erni í vandræðum og var einnig lögreglu til ráðgjafar um björgunaraðgerðir og fylgdist með gangi mála er sjálfboðaliðum tókst naumlega að afstýra strandi grindhvalavöðu við utanvert Snæfellsnes.

Náttúrustofan átti í farsælu samstarfi við fjölmarga aðila á sviði náttúrurannsókna og umhverfisverndar á árinu, og má þar helst nefna Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi (m.a. fuglarannsóknir og botndýr í Kolgrafafirði), aðrar náttúrustofur (t.d. bjargfuglar, fiðrildi, efling náttúrustofa), Náttúrufræðistofnun (haförn, vetrarfuglar o.fl.), Háskóla Íslands (haförn, botndýr í Kolgrafafirði o.fl.), Landbúnaðarháskólann (nemendaverkefni), InDyNet (ágengar tegundir), University of Szczecin og West Pomeranian University of Technology (minkur, ágengar tegundir), Landvernd (strandhreinsun, margnota Snæfellsnes o.fl.) og UMÍS (umhverfisvottunarverkefni).

Starfsfólk þakkar stuðning og samstarf á liðnu ári og óskar Hólmurum og Vestlendingum öllum gæfuríks árs.

Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson