Varp margra fugla gekk óvenju illa sumarið 2011 vegna fæðuskorts og slæms tíðarfars. Haförninn átti sömuleiðis í nokkrum vandræðum en þó gekk arnarvarp vonum framar því 29 ungar komust á legg úr 19 hreiðrum. Varpárangur þar sem varpið heppnaðist var mjög góður og komust nú þrír ungar á legg úr einu hreiðri, sem er afar sjaldgæft. Varpið gekk í meðallagi vel við Faxaflóa en illa við norðanverðan Breiðafjörð og á Vestfjörðum.
Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands, Náttúru Vesturlands og Náttúrustofu Vestfjarða. Nánar er fjallað um arnarvarpið 2011 á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.