Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Undanfarið hafa fregnir borist af fjölda hvala og fugla í Grundarfirði og Kolgrafafirði á norðanverðu Snæfellsnesi. Þar eru máfar og fýlar í þúsundatali ásamt öðrum sjófuglum, s.s. súlu. Af hvölum hafa háhyrningar verið mest áberandi en einnig hefur sést til höfrunga, hrefnu og hnísu. Svo virðist sem þetta fjöruga lífríki í og ofan sjávarborðs endurspegli síldargöngur á svæðinu.

Starfsfólk Náttúrustofunnar leit til hvala frá ströndinni í hægu en þungbúnu veðri þegar langt var liðið á gærdaginn og fylgja hér til gamans fáeinar myndir sem teknar voru frá landi á svæðinu frá Hellnafelli að Grundarfjarðarhöfn. Allar myndirnar eru af einum hópi 7 háhyrninga, væntanlega fjölskyldu, sem synti meðfram ströndinni frá vestri til austurs. Fleiri háhyrningar sáust utar á firðinum og telja sjómenn á svæðinu að mest hafi verið hundruð hvala í firðinum undanfarna daga.

Háhyrningar eru stundum kallaðir úlfar hafsins, enda eru þeir öflug rándýr sem fara víða og veiða gjarnan í fjölskylduhópum. Kýr verða geta orðið meira en 80 ára gamlar og allt að 7 metra langar en tarfar allt að 50 ára og 10 metra langir. Mikill breytileiki er í lögun bakhyrnu og litamynstri og má nota þessi einkenni til að greina einstaklinga.

Fréttir af hvalagengd síðustu daga:

Ljósmyndir af háhyrningunum í Grundarfirði og Kolgrafafirði: