Í sumar mun líffræðineminn Arnór Þrastarson afla upplýsinga um fuglalíf á Snæfellsnesi og í Dölum og koma þeim á form sem nýtist fuglaskoðurum og ferðaþjónustuaðilum. Um er að ræða samstarfsverkefni Náttúrustofunnar (NSV) og Háskólaseturs Snæfellsness (HS), sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði.
Gagnaöflun hófst í síðustu viku þegar starfsmenn NSV og HS skoðuðu fugla á öllu svæðinu. Samtals sást 61 fuglategund í athugunum þessa tvo daga, sumar þeirra aðeins í einu eintaki en aðrar í þúsundatali. Að auki hafa á síðustu dögum sést a.m.k. þrjár tegundir varpfugla og aðrar tvær tegundir flækingsfugla á svæðinu, sem ekki komu fram í talningunni. Á tegundalista Snæfellsness og Dala eru nú m.a. flækingsfuglarnir mandarínönd, skutulönd, landsvala og bjarthegri, fargestirnir rauðbrystingur, margæs, tildra og sanderla og sjaldgæfir varpfuglar á borð við skeiðönd, grafönd, flórgoða og haförn.
Fuglarnir skarta um þessar mundir sínum fínasta varpbúningi og eru næstu dagar og vikur því kjörnar til fuglaskoðunar. Sumar þessara tegunda munu fljótlega hverfa af landi brott, t.d. til varps á heimskautasvæðum Grænlands og Kanada. Örfáir varpfuglar eiga svo eftir að bætast á listann, þar sem þeir eiga enn eftir að láta sjá sig á Snæfellsnesi þetta vorið.
Víðförul sandlóa – Hólmari sást í Frakklandi
Sandlóa sem Tómas G. Gunnarsson merkti við Stykkishólmsflugvöll virðist trygg við sinn varpstað. Hún var merkt sem fullorðinn varpfugl sumarið 2008, sást aftur á sama stað ári síðar og starfsmaður Náttúrustofunnar las á merki hennar um síðastliðna helgi, þar sem hún var enn mætt og byrjuð að verpa. Samkvæmt Böðvari Þórissyni, starfsmanni Náttúrustofu Vestfjarða sem heldur utan um endurheimtur íslenskra sandlóa, sást þessi fugl á vesturströnd Frakklands í september 2010.