Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Síðastliðinn laugardag fór fram gríðarlega vel heppnuð og fjölsótt vísindaveisla í Stykkishólmi. Atburðurinn var haldinn í samstarfi Háskólalestar Háskóla Íslands og W-23 hópsins á Snæfellsnesi.

W-23 hópurinn á Snæfellsnesi samanstendur af Náttúrustofu Vesturlands, Háskólasetri Snæfellsness, útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar í Ólafsvík, Vör Sjávarrannsóknarsetri við Breiðafjörð og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Hópurinn hefur tvisvar haldið vísindavöku fyrir almenning, haustið 2008 í Grundarfirði og haustið 2009 í Ólafsvík, og var röðin nú komin að Stykkishólmi. Þegar fréttist af komu Háskólalestarinnar var ákveðið að slá vísindavökunni saman við heimsókn lestarinnar og kalla atburðinn Vísindaveislu. Um morguninn leiddu starfsmenn Náttúrustofunnar og Háskólasetursins fuglaskoðun í Stykkishólmi en formleg dagskrá á Hótel Stykkishólmi hófst á hádegi. Fjölmargt áhugavert var í boði og virtist fólk skemmta sér hið besta. A.m.k. var eftir því tekið að margir gestanna dvöldu í veislunni allan tímann eða frá kl. 12-16.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um fjölda gesta en áætlað er að um 300 manns hafi lagt leið sína á Hótelið. Starfsfólk Náttúrustofunnar þakkar samstarfsaðilum og gestum kærlega fyrir vel heppnaðan dag.