Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Margir hafa eflaust tekið eftir talsverðum fjölda fiðrilda flögrandi um eða sitjandi á húsveggjum síðustu daga og vikur. Hvaða fiðrildi eru á ferli þegar svo langt er liðið á haustið?

Þetta er hinn svokallaði haustfeti (Operophtera brumata), sem ber nafn með rentu, enda verða flestir lítið varir við hann fyrr en í september og er hann á flögri fram í nóvember. Súluritið sýnir meðalfjölda haustfeta sem komu í fiðrildagildru Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi árin 2012-2021. Fyrstu einstaklingarnir hafa oftast veiðst seint í september en þeir síðustu snemma í nóvember. Hámarksfjöldinn hefur að meðaltali verið í vikum nr. 41-43, sem eru í kringum miðjan
október.

Tegundin telst vera framandi en hún barst að öllum líkindum til landsins með innfluttum trjám, runnum eða jarðvegi einhvern tíma fyrir 1944. Innlend útbreiðsla er að mestu bundin við sunnanvert landið.

Þótt haustfeti sjáist helst á haustin má finna grænar lirfur hans allt sumarið í görðum og á öðrum vaxtarstöðum lauftrjáa. Geta lirfurnar valdið umtalsverðum skemmdum á laufi trjáa snemma sumars og eru ein aðalástæða þess að sumir garðeigendur grípa til eiturúðunar.

Kvendýr haustfetans eru ófleyg og hafa aðeins litla vængstubba. Þær klekjast úr púpum í jarðvegi að haustlagi, skríða út á trjágreinar og laða til sín karldýr með ferómónum. Þær þroska svo egg og verpa á trjágreinarnar. Fullvængjaðir haustfetar eru allir karlkyns.

Almennar upplýsingar um haustfeta eru teknar af Pödduvef Náttúrufræðistofnunar Íslands.