Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Náttúrustofa Vesturlands (www.nsv.is) auglýsir eftir líffræðingi til að rannsaka lífríki Vesturlands. Starfið felur einkum í sér rannsóknir á fuglum og spendýrum á vettvangi og á rannsóknastofu, ásamt úrvinnslu gagna og skýrslu- og greinaskrifum á skrifstofu.

Um er að ræða 100% stöðu náttúrufræðings/sérfræðings og mun starfsmaðurinn vinna náið með öðru starfsfólki Náttúrustofunnar í þeim verkefnum sem stofan sinnir.

Starfið er spennandi, krefjandi og mjög fjölbreytt. Náttúrustofu Vesturlands er staðsett í Stykkishólmi og mun skrifstofu- og rannsóknastofuvinna fara fram þar. Vettvangsvinna fer hins vegar fram á öllu Vesturlandi. Nánari upplýsingar um rannsókna- og vöktunarverkefni náttúrustofunnar má finna hér. Starfsmaðurinn mun að auki taka þátt í fræðslumálum og ýmsum verkefnum sem tengjast náttúruvernd.

Um laun, réttindi og skyldur fer samkvæmt kjarasamningum Félags íslenskra náttúrufræðinga og ríkis, stofnanasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga og Náttúrustofu Vesturlands, sem og starfsreglum Náttúrustofu Vesturlands.

Gerð er krafa um eftirfarandi hjá umsækjendum:

Háskólagráða sem nýtist í starfi (a.m.k. B.S. í líffræði eða sambærileg gráða)

Fuglagreiningarhæfni

Líkamleg færni til að stunda krefjandi vettvangsvinnu

Ökuréttindi

Skipulagshæfileikar

Sjálfstæði, nákvæmni og samviskusemi í vinnubrögðum

Jákvæðni og góð samskiptafærni

Góð tölvukunnátta

Auk þess er ákjósanlegt að viðkomandi hafi einhverja reynslu af fuglarannsóknum á vettvangi og búi yfir góðri ritfærni á íslensku og ensku.

Umsókn skal vera skrifleg og samanstanda af: 1) Náms- og ferilsskrá með mynd, 2) greinargerð um ástæður þess að umsækjandi telur sig hæfan í starfið og langi til að sinna því og 3) skriflegum meðmælum frá tveim vinnuveitendum, samstarfsaðilum eða kennurum, ásamt nöfnum tveggja annarra sem gætu gefið upplýsingar í síma.

Umsóknir og fyrirspurnir skal senda í tölvupósti á netfangið nsv@nsv.is. Öllum umsóknum verður svarað. Áskilinn er réttur til að hafna öllum umsóknum. Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl 2022. 

Starfið er hugsað til framtíðar en reynslutími er 6 mánuðir. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf eigi síðar en 1. júní.  

Nánari starfslýsing:

Helstu verkefni fela í sér:

A. Rannsóknir á fuglalífi Vesturlands, þar á meðal þátttaka í vöktun vatnafugla, strandfugla, mófugla og bjargfugla. Vinnan felur í sér vettvangsathuganir, innslátt og úrvinnslu gagna, ásamt skýrslu- og greinaskrifum. 

B. Rannsóknir á spendýrum, þar á meðal mælingar á afla minkaveiðimanna, atferlisrannsóknir á landselum og könnun á ábúðarhlutfalli refagrenja. Fyrstnefnda verkefnið fer einkum fram á rannsóknarstofu og felur m.a. í sér krufningar og undirbúning aldursgreininga, auk gagnainnsláttar og úrvinnslu, en síðarnefndu tvö verkefnin fela í sér vettvangsvinnu, ásamt innslætti og úrvinnslu gagna. 

C. Aðrar rannsóknir sem Náttúrustofan sinnir, eftir því sem aðstæður, tími og þekking starfsmanns leyfir. Á meðal slíkra rannsókna gæti t.d. verið vöktun fiðrilda, úttektir á náttúrufari í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda o.s.frv.