Ný vísindagrein, sem fjallar um fjárhagslegan kostnað af og stjórnun á framandi ágengra tegunda á Norðurlöndum (The economic costs, management and regulation of biological invasions in the Nordic countries), er komin út. Greinin, sem birtist í tímaritinu Journal of Environmental Management, er afrakstur samstarfs margra sérfræðinga, en fulltrúar Íslands í þessu starfi voru Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson á Náttúrustofu Vesturlands og Sindri Gíslason á Náttúrustofu Suðvesturlands. Í greininni er dregin saman staðan í hverju landi og fyrir Norðurlöndin í heild.
Helstu niðurstöður eru:
- Á árunum 1960-2021 var heildarkostnaður af framandi ágengum tegundum á Norðurlöndum, sem fram kom í birtum heimildum, 8,35 milljarðar dollara, sem nemur um 1.200 milljörðum íslenskra króna.
- Birtur kostnaður virðist vera verulegt vanmat á raunverulegum kostnaði.
- Nauðsynlegt er að bæta þekkingu, stefnu og löggjöf varðandi framandi ágengar tegundir á Norðurlöndum og stórbæta skráningu á kostnaði vegna ágengra framandi tegunda. Á það allt sérstaklega við um Ísland, sem er mikill eftirbátur hinna Norðurlandanna hvað þetta varðar.
Í greininni er að finna tvo sérstaka kafla um stöðuna á Íslandi, einn í megintexta greinarinnar og annan í viðauka 3 (Appendix A. Supplementary data. Multimedia component 3).
Greinin er öllum opin á þessum hlekk til 9. desember 2022:
https://authors.elsevier.com/c/1fyJl14Z6tlEgM