Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Nýverið sótti pólskur minkasérfræðingur Náttúrustofuna heim í þeim tilgangi að afla gagna um rannsóknir, löggjöf, veiðistjórnun, veiðar og ræktun minka á Íslandi. Um var að ræða líffræðinginn Jakub Skorupski, sem starfar við Tækniháskóla Vestur-Pommern í Szczecin í Póllandi og er jafnframt verkefnastjóri hjá samtökunum Baltic Green Belt. Þekkinguna sem Jakub aflaði mun hann nýta til að stuðla að bættum aðgerðum gegn minkum í Póllandi.

Náttúrustofa Vesturlands var opinber gestgjafi og tengiliður í heimsókn hans til landsins. Starfsfólk stofunnar kynnti Jakub helstu niðurstöður íslenskra minkarannsókna og aðstoðaði hann einnig við skipulag ferðarinnar og að komast í samband við lykilaðila varðandi minkinn á Íslandi, þ.e. rannsóknafólk, fulltrúa stjórnsýslunnar, veiðimenn, minkabændur o.fl. Framhald verður á samstarfi Náttúrustofunnar og Jakub, því hann mun nýta minkasýni úr safni Náttúrustofunnar til að rannsaka erfðafræðilegan mun á minkastofnum. Tókst tveggja vikna kynningarferð Pólverjans með ágætum og hélt hann í síðustu viku alsæll heim á leið eftir árangursríka Íslandsheimsókn. Fjársýsluskrifstofa evrópska efnahagssvæðisins og Fjársýsluskrifstofa Noregs styrktu Íslandsför Jakub eftir sameiginlega umsókn hans og Náttúrustofunnar.