Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Nú er lokið árlegri talningu vetrarfugla sem fer fram í kringum áramót. Á talningarsvæðunum á Snæfellsnesi voru nú samtals 20.719 fuglar af 35 tegundum. Fuglalífið var óvenju blómlegt líkt og síðasta vetur, að líkindum vegna mikillar síldargengdar í Breiðafirði þriðja veturinn í röð. Algengustu tegundirnar voru hvítmáfur, svartbakur og æðarfugl með samtals ríflega 80% af heildarfjölda. Miðað við áætlaða stofnstærð hvítmáfs og svartbaks sást á þessu svæði talsverður hluti landsstofns þessara tegunda. Auk þess kom þarna fram mikilvægur hluti vetrarstofns tjalds á landinu. Athygli vakti að engar álftir sáust að þessu sinni en undanfarin ár hafa nokkrar álftir haldið til allan veturinn í Álftafirði og nágrenni.

Tegundir og fjöldi fugla sem sáust í talningunni á Snæfellsnesi:

AlgengiTegundirAlls
1.Hvítmáfur6.453
2.Svartbakur5.310
3.Æðarfugl5.157
4.Bjartmáfur954
5.Tjaldur810
6.Stokkönd391
7.Toppönd265
8.Sendlingur209
9.Toppskarfur167
10.Snjótittlingur165
11.Hrafn158
12.Dílaskarfur119
13.Stari104
14.Straumönd102
15.Hávella97
16.Hettumáfur65
17.Rauðhöfðaönd37
18.Fýll35
19.Silfurmáfur32
20.Súla19
21.Lómur15
22.Urtönd9
23.Rjúpa9
24.Gulönd7
25.Haförn6
26.Teista6
27.Tildra4
28.Fálki3
29.Auðnutittlingur3
30.Stelkur2
31.Álka2
32.Rauðbrystingur1
33.Stormmáfur1
34.Brandugla1
35.Æðarkóngur1
Samtals20.719

Talningarsvæðum fjölgaði verulega á svæðinu í fyrra og í ár bættust við talningarmenn úr Snæfellsbæ, sem töldu svæði vestast á Snæfellsnesi. Á meðfylgjandi korti má sjá legu talningarsvæðanna.

Náttúrufræðistofnun tekur við niðurstöðum talninganna og búast menn þar á bæ við að talið hafi verið á hátt í 200 svæðum á Íslandi í ár. Endanlegar niðurstöður ættu að liggja fyrir á næstu dögum.

Talningarmenn á Snæfellsnesi að þessu sinni voru:

Daníel Bergmann
Jón Einar Jónsson
Lúðvík V. Smárason
Ómar Lúðvíksson
Rannveig Magnúsdóttir
Róbert A. Stefánsson
Skúli Alexandersson
Smári Lúðvíksson
Sæmundur Kristjánsson
Sævar Friðþjófsson
Viðar Gylfason
Þröstur Þorsteinsson

Við þetta má bæta að Halla S. Steinólfsdóttir taldi 64 fugla af 5 tegundum á nýju talningarsvæði á Skarðsströnd.

Finna má frekari upplýsingar um vetrarfuglatalninguna á landsvísu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands http://www.ni.is/dyralif/fuglar/vetrarfuglar/ en þar segir m.a.:

„Árlegar vetrarfuglatalningar hófust á Íslandi um jólaleytið 1952 að amerískri fyrirmynd. Þetta verkefni er ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda Fyrsta árið var talið á 11 svæðum en þeim fjölgaði svo jafnt og þétt næstu árin og voru þau orðin 44 árið 1958 víðsvegar um land en fremur fá svæði bættust síðan við fram yfir 1970 (Ævar Petersen 1983). Fuglaáhugamenn tóku þessu nýja verkefni fagnandi og töldu margir af upphafsmönnum svæði sín áratugum saman eftir það. Frá upphafi hafa áhugamenn unnið þetta verk í sjálfboðavinnu og á síðustu árum hafa hátt á annað hundrað manns tekið þátt. Talningar fóru lengst af fram á frídegi milli jóla og nýárs og oft varð annar dagur jóla fyrir valinu. Af þeim sökum hafa talningar þessar oft verið nefndar „jólatalningar”.

Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningar eru staðlaðar og geta því nýtist til vöktunar einstakra stofna.“