Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi auglýsir eftir sérfræðingi í starf verkefnisstjóra við mótun á framtíð fyrirkomulags verndar Breiðafjarðar. Breiðafjörður er einstök náttúruperla á heimsvísu og er vernduð með lögum um vernd Breiðafjarðar (nr. 54/1995). Starfið felur í sér að halda utan um vinnu sem tengist stefnumótun vegna verndar fjarðarins, m.a. með hliðsjón af byggðaþróun.

Um er að ræða 100% stöðu á Náttúrustofu Vesturlands (www.nsv.is) og mun verkefnisstjórinn vinna náið með annars vegar stýrihópi um framtíð verndunar Breiðafjarðar (sbr. samning á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Fjórðungssambands Vestfirðinga og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi) og hins vegar Breiðafjarðarnefnd. 

Vinnan felur í sér fundahald ásamt undirbúningi og frágangi funda með stýrihópi, Breiðafjarðarnefnd og öðrum hagsmuna- og fagaðilum, sem og öflun og greiningu gagna sem tengjast forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar. Þá verða skrif lokaskýrslu um verkefnið í höndum verkefnisstjórans í samstarfi við stýrihópinn.

Upplýsingar um Breiðafjarðarnefnd má finna á www.breidafjordur.is og er áhugasömum umsækjendum bent á að kynna sér sérstaklega vel ritið „Framtíð Breiðafjarðar“. Störf stýrihóps og verkefnisstjóra munu m.a. byggja á þeirri vinnu.

Starfið er spennandi, krefjandi og fjölbreytt. Leitað er eftir kraftmiklum, skipulögðum, jákvæðum og samviskusömum einstaklingi með þekkingu og áhuga á umhverfismálum og náttúruvernd. Starfið er unnið á starfsstöð Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi og er ráðningin til eins árs, með möguleika á framlengingu.

Um laun, réttindi og skyldur fer samkvæmt kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags og stofnanasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga og Náttúrustofu Vesturlands, sem og starfsreglum Náttúrustofu Vesturlands.

Gerð er krafa um eftirfarandi hjá umsækjendum:

 • Háskólagráða sem nýtist í starfi (a.m.k. BA eða BS) 
 • Geta til að stýra verkefnum
 • Skipulagshæfileikar
 • Jákvæðni og góð samskiptafærni
 • Sjálfstæði í vinnubrögðum
 • Góð ritfærni á íslensku
 • Góð enskukunnátta
 • Færni í að miðla upplýsingum á rituðu og töluðu máli
 • Góð tölvukunnátta

Mjög æskilegt er að umsækjandi búi yfir þekkingu eða reynslu á sviði náttúruvísinda, umhverfisfræða eða náttúruverndar.

Til að umsókn komi til álita skal hún vera skrifleg og samanstanda af: 1) Náms- og ferilsskrá með mynd, 2) greinargerð um ástæður þess að umsækjandi telur sig hæfan í starfið og langi til að sinna því og 3) skriflegum meðmælum frá tveim vinnuveitendum, samstarfsaðilum eða kennurum, ásamt nöfnum tveggja annarra sem gætu gefið upplýsingar í síma.

Umsóknir og fyrirspurnir skal senda í tölvupósti á netfangið nsv@nsv.is. Öllum umsóknum verður svarað. Áskilinn er réttur til að hafna öllum umsóknum. Umsóknarfrestur er til og með 14. nóvember 2021. 

Nánari starfslýsing:

Verkefnisstjóri er starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi og vinnur í nánu samstarfi við annars vegar stýrihóp um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun og hins vegar Breiðafjarðarnefnd. Helstu verkefni fela í sér:

A. Vinna með stýrihópi um framtíð verndunar Breiðafjarðar: 

 • Verkefnisstjóri boðar til funda stýrihóps (í samvinnu við formann), skrifar fundargerðir og heldur utan um gögn.
 • Samantektir og greiningar:
  • Samantekt og umsjón gagna um náttúrufar og minjar, náttúruvernd og loftslagsmál.
  • Þátttaka í greiningum sem snúa að náttúrufari.
  • Umsjón niðurstaðna greininga sem unnar verða af öðrum.
 • Þátttaka í samráði og samtali:
  • Undirbúningur og þátttaka í fundum með hagsmunaaðilum. Ábyrgð á fundarboðun og umsjón funda, ritun fundagerða, umsjón fundagagna.
  • Umsjón með gerð og kynningu fræðslu til almennings.
 • Skrif lokaskýrslu verkefnisins í samstarfi við stýrihópinn.

B. Vinna með Breiðafjarðarnefnd:

 • Sinna daglegum fyrirspurnum og erindum. 
 • Undirbúa og ganga frá fundum nefndarinnar.
 • Rita bréf fyrir hönd nefndarinnar.
 • Hafa umsjón með gögnum nefndarinnar.
 • Hafa umsjón með fjárhag nefndarinnar. 

C. Önnur verkefni sem tengjast vernd Breiðafjarðar og framkvæmd verndar, í samráði og/eða samstarfi við Breiðafjarðarnefnd og eftir atvikum stýrihóp um framtíð Breiðafjarðar, sem og forstöðumann eða aðra starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands.