Vettvangsvinnu sumarsins er lokið að þessu sinni. Unnið var að fjölbreyttum verkefnum vegna gagnaöflunar fyrir ýmis rannsókna- og vöktunarverkefni sem eru hluti af rannsóknum Náttúrustofunnar á spendýrum, fuglum og gróðri.
Spendýr
Selalátrið við Ytri Tungu í Staðarsveit dregur að sér þúsundir ferðamanna árlega. Þar stendur yfir rannsókn Náttúrustofunnar, sem beinist að áhrifum ferðamanna á atferli selanna. Við látrið má finna upplýsingaskilti með leiðbeiningum um hvernig skuli haga sér á svæðinu til að valda selunum ekki óþarfa streitu. Því miður eru þessar leiðbeiningar ítrekað brotnar á hverjum degi og getur það haft neikvæð áhrif á selina.
Í sumar voru heimsótt öll þekkt refagreni í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli eins og gert hefur verið frá stofnun þjóðgarðsins árið 2001. Sömuleiðis eru varðveittar upplýsingar frá veiðimönnum um fjölda unninna grenja frá 1989-2000. Því er til ríflega 30 ára samfelld saga um ábúðarhlutfall refagrenja í þjóðgarðinum.
Háhyrningar við Snæfellsnes voru rannsakaðir í nánu samstarfi við Orca Guardians og hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours. Áherslan var á ferðir, fjölskyldumynstur og atferli þekktra einstaklinga en gagna er aflað með aðferðum sem ekki trufla náttúrulegt atferli dýranna, þar á meðal ljósmyndun þar sem greina má einstaklinga.
Fuglar
Vettvangsvinna vegna fuglavöktunar gekk vel í sumar. Kannaðir voru athugunarstaðir á Breiðafirði og Snæfellsnesi vegna vöktunar bjargfugla. Einnig vötn og tjarnir á Snæfellsnesi og Mýrum vegna vöktunar vatnafugla. Þá voru gerðar endurteknar talningar á leiru- og strandfuglum á Ramsarsvæðinu í Andakíl og á Mýrum og að venju voru arnarhreiður heimsótt og ungar mældir og merktir í samvinnuverkefni sem stýrt er af Náttúrufræðistofnun Íslands. Þéttleiki mófugla í Þjóðgarðinum Snæfellsnesi var metinn með punkttalningum á 60 stöðum og blesgæsir voru taldar á Hvanneyri og Mýrum. Eitt þjónustuverkefni vegna fuglalífs var unnið fyrir Snæfellsbæ.
Gróður
Náttúrustofan er Stykkishólmsbæ til ráðgjafar um aðgerðir gegn ágengum plöntum, sem staðið hafa yfir samfellt frá árinu 2010. Á tímabilinu hefur dregið verulega úr útbreiðslu alaskalúpínu og risahvanna vegna aðgerðanna og er hún nú aðeins brot af því sem hún var við upphaf verkefnisins. Aftur á móti hefur skógar- og spánarkerfli fækkað mun minna, þótt tekist hafi að stöðva frekari útbreiðslu tegundanna, sem annars hefði orðið.
Áhrif aðgerða gegn alaskalúpínu á hana sjálfa og annað gróðurfar hafa verið rannsökuð með því að bera saman gróðurfar í tilraunareitum sem hafa fengið mismunandi meðhöndlun árlega frá árinu 2010. Í sumar var gerð nákvæm úttekt á gróðurreitunum í samvinnu við sérfræðinga frá Landgræðslunni og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ástand áningarstaða ferðamanna
Sumarið 2021 var annað ár vettvangsvinnu vegna samvinnuverkefnis náttúrustofa og Náttúrufræðistofnunar Íslands um Vöktun náttúruverndarsvæða. Hluti af því felur í sér að heimsækja valda ferðamannastaði og gera á þeim frumúttekt varðandi álag á náttúru. Í sumar voru 16 slíkir staðir heimsóttir. Staðir sem eru undir miklu álagi, vantar nægilega innviði eða eru viðkvæmir fyrir ágangi verða vaktaðir.
Recent Comments