Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Nú birtist í fyrsta sinn skýrsla sem inniheldur skrá yfir fjölskyldutengsl háhyrninga í kvenlegg við strendur Íslands. Þar er fjallað um háhyrninga sem sáust við Snæfellsnes í 737 tilvikum á árunum 2014-2023.

Félagskerfi háhyrninga byggir á fjölskylduhópum sem leiddir eru af eldri kvendýrum. Afkvæmi fylgja yfirleitt móður sinni alla ævi. Vegna þessa byggist ættartré hvers hóps í kringum eldri kvendýrin og afkvæmi þeirra. Í skýrslunni má finna ættartré sem ná nú þegar yfir allt að þrjá ættliði. Þar sem upplýsingar liggja fyrir er tilgreind tímasetning fæðingar og dauða, kyn o.fl. fyrir einstaklinga í samtals 38 fjölskyldum.

Kortlagning ættartengslanna í kvenlegg var sameiginlegt verkefni Orca Guardians Iceland og Náttúrustofu Vesturlands, með ómetanlegum stuðningi frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Láki Tours. Þar að auki var notast við ljósmyndir frá leiðsögumönnum í hvalaskoðun, rannsakendum og almenningi, sem teknar voru á árunum 2006-2023. Skýrslan er viðbót við heildarskrá yfir alla þekkta háhyrninga við Snæfellsnes, sem uppfærð er reglulega af Orca Guardians Iceland og Náttúrustofu Vesturlands. Báðar skrárnar eru ókeypis og aðgengilegar á netinu.

Skoða má skýrslu með fjölskyldutengslum háhyrninga í kvenlegg hér.

Fá má nánari upplýsingar og senda fyrirspurnir á netföngin info@orcaguardians.org og marie@nsv.is.