Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Rannsókn sem Náttúrustofa Vesturlands gerði fyrir Vegagerðina bendir til að náttúra Álftafjarðar á norðanverðu Snæfellsnesi sé merkilegri en áður var talið.

Náttúrustofan flokkaði og kortlagði vistgerðir1 í fjörum og á grunnsævi Álftafjarðar til að auðvelda mat á umhverfisáhrifum mögulegrar þverunar fjarðarins.

Helstu niðurstöðurnar voru þær að svæðið er að mestu samsett úr þremur jafnalgengum vistgerðum; marhálmsgræðum, kræklingaleirum og sandmaðksleirum, sem hver um sig var ríkjandi vistgerð á rúmlega 30% af ríflega 200 athugunarstöðvum.
Marhálmsgræður og kræklingaleirur eru tvær af þeim þremur vistgerðum í fjörum (ásamt klóþangsfjörum) sem hafa hæst verndargildi hér á landi en sandmaðksleirur hafa miðlungshátt verndargildi (í 9. sæti af 23 vistgerðum). Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir álftir og margæsir og eru marhálmsgræður að líkindum mikilvægt búsvæði fyrir ýmsa nytjafiska, þótt rannsóknir á því skorti hér á landi. Þá eru marhálmsgræður eitt af þeim búsvæðum í sjó sem binda mest kolefni. Kræklingaleirur einkennast af þekju kræklings sem vex í klösum og myndar m.a. búsvæði fyrir þörunga. Í víðari skilningi gegna kræklingaleirur lykilhlutverki sem búsvæði fyrir botndýr, sem fæðuöflunarsvæði fyrir vaðfugla og flatfiska og við næringarefna-
og kolefnishringrás strandsvæða.

Auk þess að á athugunarsvæðinu hafi mikilvægar vistgerðir verið útbreiddar vakti ekki síður athygli að svæðið inniheldur hátt hlutfall flatarmáls allra marhálmsgræða og kræklingaleira við Ísland. Flatarmál vistgerðarinnar marhálmsgræða á athugunarsvæðinu í Álftafirði var metið sem 2,65 km 2 , sem jafngildir um 26% af áætluðu heildarflatarmáli þeirra á landsvísu. Kræklingaleirur á athugunarsvæðinu voru samtals 2,12 km 2 eða um 21% af áætluðu
flatarmáli kræklingaleira við Ísland.

Skoða má skýrslu um vistgerðir í Álftafirði HÉR.

Rannsóknin var hluti af undirbúningi fyrir mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar á Skógarstrandarvegi með mögulegri þverun Álftafjarðar. Náttúrustofan hefur einnig skilað skýrslum um spendýr (HÉR) og mófugla (HÉR) á áhrifasvæði fyrirhugaðra vegaframkvæmda en eftir á að rannsaka fugla í fjörum og á grunnsævi, auk fiska og botndýra á grunnsævi.

Þegar er vitað að svæðið er mikilvægt fyrir vaðfugla, margæsir og álftir en nánari rannsóknir eiga m.a. að skilgreina það nánar og skera úr um mikilvægi afmarkaðra svæða innan athugunarsvæðisins.

1 https://www.natt.is/is/grodur/vistgerdir