Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Nýlega lauk merkingum arnarunga þessa árs, en vöktun arnarstofnsins er samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrustofu Vesturlands og Háskóla Íslands í samvinnu við fuglaáhugafólk. Verkefnisstjórn er í höndum Kristins Hauks Skarphéðinssonar á Náttúrufræðistofnun.

Heimsótt voru arnarhreiður, ungar merktir og sýni tekin, auk þess sem leitast var við að lesa af merkjum varpfugla við hreiður. Undanfarna tvo áratugi hafa nær allir arnarungar í stofninum verið merktir með litmerkjum, sem vel búnir ljósmyndarar geta lesið af ef þeir komast í gott færi. Þannig hafa stóraukist upplýsingar um ferðir og atferli íslenskra arna.

Vöxtur arnarstofnsins og þróun er betur þekkt en hjá nokkurri annarri fuglategund hér á landi. Staðbundin pör eru talin snemma vors og viðkoma metin miðsumars.

Rúmlega 90 arnarpör eru í landinu, auk ungfugla, og hafa ekki verið fleiri síðan þeir voru friðaðir árið 1914, í kjölfar hruns í stofninum. Arnarstofninn á þó enn talsvert í land til að ná fyrri stærð, en einungis 40% þekktra arnarsetra eru í ábúð og er varpútbreiðslan takmörkuð við vestanvert landið, þar sem grunnsævi er víðáttumest.

Í ár komu ríflega 40 arnarpör upp á milli 50 og 60 ungum en á næstunni er gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun tilkynni um lokatölur ársins. Varpið virðist því hafa gengið nokkuð vel í ár, þrátt fyrir óhagstætt veðurfar framan af sumri. Ekki sáust merki um að skæð fuglaflensa hefði hoggið umtalsverð skörð í varpstofninn. Þó er ekki hægt að útiloka að flensan hafi bitnað ver á yngri fuglum en þekkt er að a.m.k. tveir þeirra hafi drepist af hennar völdum.

Ernir og arnarhreiður njóta strangrar verndunar og er óheimilt að koma nær arnarhreiðrum en 500 metra nema með sérstöku leyfi.

Ljósmyndir: Róbert A. Stefánsson.