Eins og áður tók Náttúrustofa Vesturlands í sumar þátt í vöktun bjargfugla á landsvísu með því að heimsækja vöktunarsnið á Snæfellsnesi og í eyjum sunnanverðum Breiðafirði. Verkefninu á landsvísu er stýrt af Náttúrustofu Norðausturlands og er einkum unnið af náttúrustofum. Undir verkefnið heyra rita og fýll, ásamt svartfuglunum langvíu, stuttnefju og álku.
Ákveðnir staðir í fuglabjörgum á Snæfellsnesi (Arnarstapi, Þúfubjarg, Saxhólsbjarg/Svörtuloft og Vallnabjarg) og á Breiðafirði (Elliðaey, Þórishólmi og Hvítabjarnarey) voru heimsóttir til að meta breytingar á fjölda varpfugla framangreindra tegunda (seint í júní) og varpárangur ritu (seint í júlí).
Ástandið í björgunum á Snæfellsnesi og sunnanverðum Breiðafirði var óvenju slæmt að þessu sinni. Hreiður voru almennt fá og varpárangur ritu lélegur. Að líkindum má skýra þessa niðurstöðu að mestu eða öllu leyti með því að vestan stórviðri gekk yfir vesturhluta landsins eftir að álega fuglanna hófst og er líklegt að stórar öldur hafi skolað mjög mörgum hreiðrum í sjóinn. Þeir rituungar sem sáust í úttektinni voru flestir skammt á veg komnir í þroska í lok júlí, sem gefur til kynna að einhverjar ritur hafi orpið eftir að veður skánaði og því seinna en ella. Þrátt fyrir það voru ungar mun færri en í venjulegu ári.
Vöktun bjargfugla á Snæfellsnesi og sunnanverðum Breiðafirði er unnin í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og er hluti af vöktun náttúruverndarsvæða.