Út er komin vísindagrein í tímaritinu Marine Mammal Science, sem er afrakstur háhyrningarannsókna við Snæfellsnes. Hún segir frá því að háhyrningar sem sést hafa nokkrum sinnum við Snæfellsnes sáust við Noreg og svo aftur við Ísland. Þetta er í fyrsta sinn sem staðfest hefur verið að villtir háhyrningar ferðist þessa leið fram og til baka en háhyrningurinn Keikó, sem þá var að mestu undir mannahöndum, synti frá Vestmannaeyjum til Noregs á meðan á aðlögun hans stóð eftir áralanga dvöl við slæmar aðstæður í sædýragörðum í Bandaríkjunum.
Starfsfólk Náttúrustofunnar, Orca Guardians Iceland og samstarfsaðila skrifaði greinina í sameiningu en vinnan (eins og aðrar háhyrningarannsóknir við Snæfellsnes) var leidd af Marie-Thérèse Mrusczok.
Grunnur að uppgötvunum eins og þessari er stöðug og skipuleg söfnun upplýsinga um háhyrninga við Vesturland í samvinnu við hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours. Fjöldi þekktra einstaklinga sem heimsótt hafa svæðið á undanförnum árum er kominn vel yfir 1.000. Skoða má myndir af þeim hér. Smám saman hefur komið betri mynd á fjölskyldumynstur þeirra háhyrninga sem sjást oftast við Snæfellsnes og má skoða það hér.
Greinin um ferðir háhyrninga á milli Íslands og Noregs er í lokuðum aðgangi en þeim sem áhuga hafa á að lesa hana í fullri lengd er bent á að hafa samband við Náttúrustofu Vesturlands (nsv@nsv.is) eða Marie sjálfa (marie@nsv.is).