Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Náttúrustofan hefur nú lokið við úttekt á kríuvörpum á Snæfellsnesi. Metinn var heildarfjöldi kríuhreiðra í stóra kríuvarpinu við Rif og Hellissand, en það var einnig gert í fyrra í fyrsta sinn. Útbreiðsla varpsins var kortlögð og þéttleiki hreiðra mældur á fjölmörgum stöðum í varpinu, sem valdir voru með tilviljanakenndum hætti. Úrvinnsla stendur yfir og verða niðurstöðurnar birtar í haust.

Í ár voru önnur kríuvörp á Snæfellsnesi einnig heimsótt og stærð hvers þeirra um sig metið gróflega. Er það í fyrsta sinn sem Náttúrustofan gerir slíka úttekt. Litlar birtar upplýsingar eru til um stærð einstakra kríuvarpa fyrr á árum, ef frá er talið gróft mat Freydísar Vigfúsdóttur á stærð varpanna á árunum 2008-2011 (https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/00063657.2013.811214). Af samanburði við þær mælingar er ljóst að ef frá er skilið varpið við Rif, þá hafa kríuvörpin á Snæfellsnesi minnkað stórlega á rúmum áratug, en þegar Freydís framkvæmdi sínar mælingar hafði krían þegar átt í erfiðleikum í einhver ár. Nokkrir þættir gætu átt þátt í þessari miklu fækkun. Þar spilar fæðuskortur við varpstöðvarnar á tímabilinu 2004-2017 stórt hlutverk en einnig er þekkt að allra síðustu ár hafa sumir sjófuglar víða um heim orðið mjög illa fyrir barðinu á fuglaflensu. Það á m.a. við um kríur og aðrar þernur. Þriðja mögulega ástæðan er rysjótt tíðarfar og stórviðri á fyrri hluta varpstímans í ár.

Hver svo sem ástæðan er, þá er þetta einstaklega dapurleg þróun og full ástæða til að gefa stöðu kríunnar og verndun hennar sérstakan gaum!

Í ljósi neikvæðrar umfjöllunar fjölmiðla og annarra um verndaratferli kríunnar við kríuvörp, er við hæfi að nefna að enginn starfsmaður Náttúrustofunnar varð fyrir meiðslum, þrátt fyrir að verja nokkrum dögum við mælingar í þéttum kríuvörpum. Lítið mál er að verjast atferli kríunnar með mjúku höfuðfati og t.d. sokkapari inni í húfu.

Verkefnið er hluti af “vöktun náttúruverndarsvæða”.