Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag
Ljósmynd: Róbert A. Stefánsson

Íslenski arnarstofninn einkennist af skyldleikaæxlun og er erfðafræðilega einsleitur. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í glænýrri vísindagrein hóps evrópskra fræðimanna, sem birtist í vísindaritinu Molecular Ecology. Verkefnið var unnið undir stjórn sérfræðinga við Háskóla Íslands en sérfræðingar á Náttúrustofu Vesturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands og deCODE komu einnig að greininni.


Litlu munaði að íslenskum haförnum hefði verið útrýmt á fyrri hluta 20. aldar. Arnarstofninn fór niður í um 20 varppör um 1920 og breyttist stærð hans lítið fyrr en um 1970, eftir að útburður eitraðra hræja hafði verið bannaður árið 1964. Síðan þá hefur stofninn vaxið jafnt og þétt og telur nú ríflega 90 pör. Þrátt fyrir þennan vöxt síðustu áratugi hefur varpárangur íslenskra arna verið lakari en hjá sömu tegund í öðrum löndum. Þá er stofninn enn mjög lítill og mun minni en hann var fyrr á
öldum. Þetta gerir hann viðkvæman fyrir áföllum.


Náttúrustofa Vesturlands tekur þátt í vöktun arnarstofnsins, sem fram fer undir stjórn Kristins Hauks Skarphéðinssonar á Náttúrufræðistofnun Íslands. Upp úr síðustu aldamótum var að frumkvæði Náttúrustofunnar byrjað að safna blóðsýnum úr arnarungum en tilgangur þess var einmitt að skoða hvort innæxlun í arnarstofninum gæti mögulega átt þátt í hægum vexti stofnsins. Hluti þessara sýna var nýttur í rannsóknina sem nú er birt.


Vísindagreinin í Molecular Ecology ber saman sýni úr örnum frá Íslandi, Grænlandi, Noregi, Danmörku, Eistlandi og Tyrklandi. Á meðal þess sem niðurstöðurnar sýna er að erfðafræðilegur munur er á milli mismunandi landsvæða og skera Ísland og Grænland sig sérstaklega úr, þótt einnig sé marktækur munur á þeim innbyrðis.


Enginn samgangur virðist vera á milli arna Íslands og annarra landa en það, ásamt mjög litlum íslenskum stofni, hefur m.a. valdið því að erfðabreytileiki íslenska stofnsins er mjög lítill og skyldleiki á milli einstaklinga hans mjög hár. Þetta ástand eykur hættuna á að skaðlegar stökkbreytingar festi sig í sessi og valdi stofninum skaða, auk þess sem stofninn hefur lítið svigrúm til að aðlagast breytingum, þar á meðal nýjum sjúkdómum, breytingum á bráðarstofnum, loftslagi, hita o.fl. Á tímum hraðra umhverfisbreytinga setur þetta íslenska stofninn í vanda sem gæti ógnað honum til lengri tíma litið.


Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Charles Christian Riis Hansen og er hann fyrsti höfundur greinarinnar ásamt Áka Jarli Lárusyni. Verkefnið var unnið undir stjórn Snæbjarnar Pálssonar, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.


Greinina í heild má finna hér.