Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Glæný vísindagrein Náttúrustofu Vesturlands og samstarfsaðila lýsir því að háhyrningur hafi sést annast kálf annarrar tegundar, en því hefur aldrei áður verið lýst í vísindariti. Kvenháhyrningurinn sem um ræðir nefnist „Sædís“ (einkennisnúmer SN0540) og sást í nánu samneyti við nýfæddan grindhvalskálf við Snæfellsnes í ágúst 2021. Engir aðrir grindhvalir voru í nágrenninu á þeim tíma.


Sædís hefur margsinnis sést við Snæfellsnes en aldrei með sinn eigin kálf, þannig að talið er mögulegt að hún hafi þarna gert tilraun til að ættleiða grindhvalskálf. Háhyrningar og grindhvalir eru taldir hafa svipað félagskerfi og tengsl móður og afkvæmis, sem gerir umönnun af þessu tagi mögulega. Engu að síður hafði svona löguðu á milli þessara tegunda aldrei áður verið lýst þegar atburðurinn átti sér stað. Sædís sást aftur í samskiptum við grindhvali sumarið 2022 en kálfurinn var þá hvergi sjáanlegur.


Nánari lýsing með myndum af þessari athugun og umræður um hana hafa nú birst í vísindaritinu Canadian Journal of Zoology, ásamt frekari lýsingum á samskiptum háhyrninga og grindhvala við Snæfellsnes. Gögnunum var safnað og þau greind af starfsmönnum Orca Guardians Iceland og Náttúrustofu Vesturlands, í samstarfi við Cape Breton Pilot Whale
Project og hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours.


Gögnum um háhyrninga og grindhvali er safnað á hvalaskoðunarskipum Láki Tours og frá landi á Snæfellsnesi, með athugunum á háhyrningum árið um kring frá 2014 og á grindhvölum frá 2019.


Stutt og aðgengilegt myndband um helstu niðurstöður rannsóknarinnar má sjá hér: https://youtu.be/d6iuEpK4Nvk


Greinina má finna hér: https://cdnsciencepub.com/doi/full/10.1139/cjz-2022-0161


Frekari upplýsingar má nálgast hjá aðalhöfundi greinarinnar, Marie Mrusczok (marie@nsv.is).

Forsíða greinar