Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Ólafur Arnalds verður þriðji fræðimaðurinn sem heldur erindi í fyrirlestraröð Náttúrustofu Vesturlands, næstkomandi mánudag kl. 20. Hann er helsti sérfræðingur þjóðarinnar um jarðveg og ástand gróðurfars á Íslandi og annar höfunda bókarinnar „Að lesa og lækna landið“, sem er tilvalin fyrir þá sem vilja læra að skynja ástand lands og hlúa að landinu þar sem þörf er á því.

Oft er talað um Ísland sem tiltölulega ósnortið land en staðreyndin er sú að landið hefur mótast mjög af aldalangri búsetu manna. Út frá ástandi jarðvegs og gróðurs má lesa heilmiklar upplýsingar um búsetu manna, landnotkun og þróun gróðurfars. Innsýn í þetta gefur nýja vídd þegar ferðast er um landið. Fyrirlestur Ólafs á því erindi við alla þá sem áhuga hafa á náttúru og búsetusögu Íslands frá landnámi til okkar dags.

Fyrirlesturinn verður á Ráðhúsloftinu í Stykkishólmi og er öllum opinn. Efnið á erindi við alla sem áhuga hafa á útivist og náttúru landsins en er sérstaklega áhugavert fyrir umsjónarmenn lands, t.d. bændur, hestamenn og sveitarstjórnarfólk.