Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Á Náttúrustofu Vesturlands voru ríflega þrjú stöðugildi á liðnu ári. Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee unnu að fjölbreyttum verkefnum og Theódóra Matthíasdóttir sinnti umhverfisvottunarverkefni sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og Breiðafjarðarnefnd. Um mitt ár fór hún í barnseignarleyfi. Birna Heide Reynisdóttir var ráðin í stöðu verkefnisstjóra umhverfisvottunarverkefnisins frá októberbyrjun.

Að vanda var unnið að margvíslegum verkefnum á Náttúrustofunni, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra, svo sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, aðrar náttúrustofur, Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands, Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, sveitarfélög og ýmsa erlenda samstarfsaðila á rannsóknastofnunum og í háskólum. Verður hér stiklað á stóru um helstu verkefnin.

Rannsóknir og vöktun: Rannsóknir og vöktun á náttúrunni eru á meðal hornsteina starfseminnar. Starfssvæði Náttúrustofunnar nær frá Hvalfirði til Gilsfjarðar og taka rannsóknirnar mið af því eftir því sem hægt er. Rannsókn á áhrifum síldardauðans á botndýralíf í Kolgrafafirði hélt áfram með árlegri sýnatöku og úrvinnslu sýna. Fuglarannsóknir voru fjölbreyttar eins og endranær. Vetrarfuglatalning Náttúrustofunnar og samstarfsaðila fór fram á 15 talningarsvæðum á norðanverðu Snæfellsnesi, þéttleiki og tegundasamsetning mófugla var metin á um 100 talningarstöðum á 6 svæðum. Endurteknar talningar voru gerðar á bjargfuglum í 8 byggðum og vatnafuglum á 27 stöðuvötnum, tjörnum og ám, rjúpur voru taldar á einu talningarsvæði og Náttúrustofan tók þátt í árlegri vöktun, merkingum og sýnaöflun vegna rannsókna á haförnum. Frá vori til hausts var vikulega safnað fiðrildum í þar til gerðar gildrur á tveim stöðum á Snæfellsnesi. Þá var unnið í gögnum tengdum minka- og gróðurrannsóknum.

Greinaskrif: Á árinu birtust eða voru sendar til birtingar fjórar vísindagreinar í innlend rit og tvær í erlend rit. Í Náttúrufræðingnum birtust tvær greinar, annars vegar um niðurstöður samanburðartilraunar á áhrifum eitrunar og sláttar til eyðingar lúpínu í Stykkishólmi og hins vegar yfirlitsgrein um svokallaðar vatnamýs, sem myndast þegar mosi veltist í vatni vegna öldugangs eða straumkasts. Um mitt ár birtist grein um íslenska minkastofninn í tímaritinu Breiðfirðingi og grein um nýtingu eggja og unga villtra fugla á Íslandi var skilað í desember og mun birtast í Fuglum, ársriti Fuglaverndar, á næstu dögum. Þá var send til birtingar fræðileg yfirlitsgrein um fjölgun og hrun í stofnum ágengra lífvera, í samvinnu við alþjóðlegan hóp sérfræðinga. Hluti af sama hópi vinnur einnig undir stjórn Náttúrustofunnar að gagnavinnslu vegna greinar um þróun í minkastofnum víðs vegar um heiminn. Í árslok var komin í prentun grein í vísindaritinu Acta Biologica um landnámssögu íslenska minkastofnsins og stöðu hans í dag.

Fyrirlestrar: Fyrirlestrar voru fluttir við ýmis tækifæri um náttúruna og verkefni Náttúrustofunnar. Þar má nefna fyrirlestur á ráðstefnu Vistfræðifélags Íslands um veiðar á fuglategundum sem valda tjóni og fyrirlestur um mikilvægi þangs og þara fyrir lífríki strandsvæða og möguleg áhrif aukinnar nýtingar á slík vistkerfi, sem haldinn var á ársfundi Stofnunar fræðasetra H.Í. og endurfluttur á svipuðu formi fyrir Breiðafjarðarnefnd og Lionsklúbbinn í Stykkishólmi. Þá var haldinn fyrirlestur um burðarplastpokaverkefnið í Stykkishólmi á ráðstefnunni „Saman gegn sóun“ í Reykjavík og um meinta hnignun evrópskra minkastofna á fundi alþjóðlegra sérfræðinga um ágengar tegundir í Berlín. Einnig voru starfsmenn Náttúrustofunnar meðhöfundar að erindum annarra, s.s. um sjálfbærni fuglaveiða á ráðstefnu Umhverfisstofnunar, aðferðir til að eyða lúpínu, á evrópskri ráðstefnu um endurheimt vistkerfa, og um loftslagsbreytingar og rannsóknir náttúrustofanna á þeim á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Einnig má nefna að Náttúrustofan stóð fyrir fræðsluerindi utanaðkomandi sérfræðinga um háhyrninga og hörpudisk í Stykkishólmi á árinu.

Kennsla og leiðbeining: Náttúrustofan kom dálítið að leiðbeiningu og kennslu á árinu. Þar má fyrst nefna meistaraverkefni Aldísar E. Pálsdóttur, sem varði ritgerð sína um varphætti æðarfugls og afrán í æðarvörpum við Háskóla Íslands. Einnig var leiðbeint í fjórum nemendaverkefnum við Landbúnaðarháskólann, þ.e. um fjöruþörunga í Kolgrafafirði (Hinrik Konráðsson), fuglaskoðunarstaði á Vesturlandi (Pavle Estrajher), komutíma vaðfugla á leirur (Svanhvít L. Viðarsdóttir) og náttúrufar á ferðamannastöðum á Snæfellsnesi (Sólrún Þórðardóttir). Að auki má nefna aðkomu að kennslu í sumarnámskeiði í vistfræði við Landbúnaðarháskólann og á átthaganámskeiði á Snæfellsnesi.

Þörungar: Fyrirhuguð er stóraukin nýting þangs og þara úr Breiðafirði. Náttúrustofan og samstarfsfólk fékk styrki frá Breiðafjarðarnefnd og AVS til að kanna stöðu þekkingar í heiminum um áhrif slíkrar nýtingar og til að gera áætlun um þær rannsóknir sem ráðast þarf í til að tryggja sjálfbærar nytjar. Unnin var umfangsmikil heimildarannsókn og er unnið að ritun yfirlitsgreinar um hana. Drög að rannsóknaáætlun liggja sömuleiðis fyrir og er gert ráð fyrir að klára verkefnið fyrir mitt ár 2017.

Umhverfisvottun: Nýlega var endurnýjaður samningur Náttúrustofunnar við sveitarfélögin á Snæfellsnesi vegna vinnu að sjálfbærari starfsemi í gegnum umhverfisvottun EarthCheck. Eldri samningur rann út um mitt ár en nýr tók gildi í október. Allir starfsmenn Náttúrustofunnar koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti en einkum hvílir það þó á herðum verkefnisstjórans, sem heldur utan um verkefnið og hvetur stjórnendur og starfsfólk sveitarfélaganna áfram til framfara í umhverfismálum. Í byrjun ársins var bæklingurinn „Skref í rétta átt. Hverju hefur vinna að umhverfisvottun sveitarfélaga á Snæfellsnesi skilað?“ dreift inn á öll heimili á Snæfellsnesi ásamt margnota poka, en Náttúrustofan vann hvort tveggja í samráði við Framkvæmdaráð Snæfellsness. Önnur verkefni tengjast árlegri vottun og vinnu að verkefnum á Framkvæmdaáætlun verkefnisins, sem finna má á www.nesvottun.is.

Breiðafjarðarnefnd: Breiðafjarðarnefnd er umhverfisráðherra til ráðgjafar um málefni verndarsvæðis Breiðafjarðar. Skipunartími starfandi nefndar rann út í haust og bíður nýs ráðherra að skipa í nefndina á ný. Þjónusta Náttúrustofunnar við nefndina nemur 25% starfi.

Dýrabjörgun og nefndaseta: Starfsmenn Náttúrustofunnar komu á árinu að stofnun félagsins Orca Guardians, sem vinnur að verndun og fræðslu um íslenska háhyrninga. Aðalsprautan í starfsemi félagsins og stjórnarformaður er Marie Mrusczok í Grundarfirði en tveir frá Náttúrustofunni sitja í fjögurra manna stjórn. Hvetjum við alla til að skoða heimasíðu félagsins, www.orcaguardians.org. Fulltrúi Náttúrustofunnar situr í Samráðsnefnd um sjálfbærar veiðar, sem er Umhverfisstofnun til ráðgjafar um slík mál og úthlutanir úr Veiðikortasjóði. Hann situr einnig í svokölluðum Samráðsvettvangi Vesturlands. Öðru hverju berast Náttúrustofunni tilkynningar um dýr í vanda stödd og er leitast við að hjálpa þeim eins og kostur er, t.d. með húsaskjóli og æti, ef talið er mögulegt að bjarga lífi þeirra.

Efling Náttúrustofunnar: Nýlega kom fram í fjölmiðlum að framlög ríkisins til Náttúrustofunnar hafa verið skorin niður um tæp 40% á undanförnum árum. Þetta hefur auðvitað komið mjög illa við reksturinn en á hverju ári fer talsverð orka í að verja fjárveitingar og leita styrkja og nýrra tækifæra. Áfram verður rætt við ríkið um leiðréttingu framlags og einnig hafa stjórnendur Náttúrustofunnar reynt að beita sér fyrir að starfsemi í tengslum við Verndarsvæði Breiðafjarðar verði styrkt, ekki síst í ljósi stóraukins ferðamannastraums til svæðisins og fjölmargra ófjármagnaðra verkefna sem eru í verndaráætlun þess.

Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee