Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Í einhverjum tilfellum virðast stofnar ágengra tegunda hrynja eftir að hafa náð miklum þéttleika. Af þeim sökum hafa ýmsir verið þeirrar skoðunar að óþarft sé að ráðast í aðgerðir gegn ágengum tegundum almennt.

Hversu algengt er að stofnar ágengra tegunda þróist með þessum hætti, hverjar eru mögulegar ástæður þess og er hægt að spá fyrir um slíka stofnhegðun? Þessar spurningar voru á meðal þeirra sem alþjóðlegur hópur vísindamanna, þar á meðal tveir frá Náttúrustofu Vesturlands, reyndu að svara í nýrri yfirlitsgrein í hinu virta vistfræðiriti Ecology Letters.

Eitt af því sem vísindamennirnir gerðu var að leita að dæmum um slíka stofnhegðun í viðurkenndum vísindaritum. Í ljós kom að dæmin eru fá. Þrátt fyrir að á Web of Science megi finna þúsundir vísindagreina um stofnhegðun ágengra tegunda, leiddi ítarleg heimildarannsókn í ljós að aðeins 56 þeirra innihéldu magnbundin dæmi um stofnhegðun af þessu tagi.

Rannsóknin sýndi einnig að skilgreiningum á bóluhugtakinu (e. boom-bust) og notkun þess hefur verið verulega ábótavant. Greinin reynir að bæta úr því. Sömuleiðis hefur skort ítarlegar langtímarannsóknir og fullnægjandi greiningar á þeim til að öðlast meiri skilning á fyrirbærinu. Í öllu falli er ljóst að varanlegt hrun ágengra tegunda eftir að þær hafa náð mikilli útbreiðslu og þéttleika er sennilega sjaldgæft og ætti aldrei að nota sem rök fyrir því að aðhafast ekkert til að draga úr mögulegu tjóni af þeirra völdum.

Greinina má lesa í heild sinni hér.