Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Kristinn Haukur Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands hélt fyrirlestur á Ráðhúsloftinu í liðinni viku. Fyrirlestur Kristins bar heitið Breiðafjörður – mikilvægasta fuglasvæði landsins! og fjallaði um mikilvægi fjarðarins fyrir fuglalíf.

Augljóst var á mætingunni að áhugi á efninu er mikill.

Í erindi sínu sýndi Kristinn gögn um útbreiðslu fuglategunda á landsvísu og mátti þá glögglega sjá mikilvægi Breiðafjarðar. Skýra má mikilvægið með því að benda á víðáttumiklar fjörur og mikið grunnsævi sem stuðlar að miklu fæðuframboði.

Lítil sem engin vöktun er á um helmingi fuglategunda sem háðar eru Breiðafirði og að mati Kristins þarf að bæta úr því. Neikvæð stofnþróun hefur verið síðustu ár hjá sjö tegundum sjófugla og eru þær nú komnar í hættuflokk. Það eru svartbakur, hvítmáfur, lundi, teista, kría, fýll og rita.

Nýting náttúruauðlinda verður að vera sjálfbær, að mati Kristins, og stunduð af skynsemi. Varlega þarf að fara í aðgerðir sem skerði náttúruleg búsvæði fjarðarins. Fjörðurinn er náttúruperla sem ganga þarf vel um. Þá þarf að stýra straumi ferðamanna og takmarka truflun á viðkvæmum stöðum á ákveðnum tímum.

Ljóst er að verndun fjarðarins þarf að stórefla, en Kristinn taldi að þrátt fyrir sérlög um verndun eyja og fjara Breiðafjarðar, virtist sú verndun ekki ganga lengra en gildandi náttúruverndarlög. Skýrist það m.a. af því að enn hafa ekki verið settar reglugerðir um útfærslu verndarinnar á grundvelli laganna, þrátt fyrir að lögin séu nú 22 ára gömul. Löngu tímabært er að bæta úr því.

Næsti fyrirlestur í röðinni er Lesið í blóð og bein – íslenski refastofninn fyrr og nú. Þar mun Ester Rut Unnsteinsdóttir fjalla um íslenska refastofninn. Fyrirlesturinn verður á Ráðhúsloftinu í Stykkishólmi fimmtudaginn 11. maí kl. 20. Allir velkomnir.