Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Náttúrustofa Vesturlands leitar nú eftir samvinnu við minkaveiðimenn vegna rannsóknarverkefnisins „Íslenski minkastofninn – stofngerð og áhrifaþættir stofnbreytinga“.

Minkur er framandi og ágeng tegund hér á landi. Mikilvægt er að lágmarka tjón af hans völdum og auka þekkingu á stofninum. Nú þegar er talsverð þekking fyrir hendi hjá veiðimönnum og vísindamönnum, en æskilegt er að auka hana enn frekar, m.a. vegna þess að rannsóknir á íslenska minkastofninum nýtast ekki bara á Íslandi heldur einnig í fjölda annarra landa þar sem reynt er að draga úr tjóni af völdum minks.

Náttúrustofa Vesturlands óskar eftir þátttöku minkaveiðimanna í verkefninu með því að senda til rannsóknar minka sem veiðast frá september 2017 til ársloka 2018 eða hluta þess tímabils. Á stofunni verða minkar krufðir og skráðar verða fjölþættar upplýsingar um hvert dýr. Gerðar verða ýmsar stærðarmælingar, minkar aldursgreindir, frjósemi læðna metin, líkamsástand kannað o.fl. Einnig verða tekin ýmis sýni til frekari rannsókna, t.d. vegna veirusýkingarinnar plasmacytosis, rannsóknar á fæðuvali og til mögulegra mælinga á mengunarefnum. Þá verða tekin erfðasýni úr þeim minkum sem berast fyrir 10. júní 2018 og þau notuð til rannsókna á erfðasamsetningu villta minkastofnsins. Það verkefni verður unnið í samstarfi Náttúrustofu Vesturlands og pólsku háskólanna University of Szczecin og West Pomeranian University of Technology. Niðurstöður erfðarannsóknarinnar munu væntanlega bæta til muna skilning á landnámi minksins á 20. öld og áhrifum þess á erfðasamsetninguna, auk þess sem þær ættu að geta sagt til um blöndun við dýr sem sleppa af minkabúum.

Upplýsingar sem fást úr verkefninu má m.a. nota til að öðlast aukinn skilning á þeim þáttum sem áhrif hafa á sveiflur í stærð stofnsins og munu vonandi á endanum nýtast til að ná auknum árangri við að draga úr tjóni af völdum minka.

Ávinningur fyrir þá veiðimenn sem taka þátt felst einkum í því að fá árlega senda upplýsingar um hvert og eitt dýr sem skilað var inn, auk samantektar um samsetningu (kynjahlufall, aldurshlutfall, líkamsástand o.s.frv.) allra þeirra minka sem komu til rannsóknar. Því miður er ekki fjármagn til að greiða veiðimönnum fyrir það ómak að koma minkum sínum til Náttúrustofunnar en hún greiðir að sjálfsögðu fyrir sendingarkostnað.

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá undirrituðum í s. 433-8122/898-6638 eða á robert@nsv.is.

Virðingarfyllst,
Róbert A. Stefánsson, verkefnisstjóri
Náttúrustofa Vesturlands
Hafnargötu 3
340 Stykkishólmi