Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Vel var mætt á fyrirlestur Jörunds Svavarssonar, prófessors í sjávarlíffræði og frístundabónda í Helgafellssveit, sem bar heitið Grjótkrabbinn og aðrir nýbúar í sjó við Ísland – ógnir og tækifæri. Erindið flutti hann á Ráðhúsloftinu í Stykkishólmi og sýndu áheyrendur efninu mikinn áhuga.

Maðurinn á það til að flytja lífverur út fyrir sitt náttúrulega útbreiðslusvæði, hvort sem það er viljandi eða óviljandi, og eiga þær það til að vera mikil ógn við lífríkið sem fyrir er. Bæði geta áhrif þess verið á lífríkið sjálft en einnig efnahag.

Þúsundir tegunda ferðast um heimsöfin hvern dag, fyrst og fremst í kjölfestuvatni flutningaskipa. Sumar þessara tegunda ná að fótfesta sig á nýjum stað. Í erindi sínu sýndi Jörundur dæmi um tjón af völdum ágengra tegunda í sjó víða um heiminn og hvernig útbreiðsla þeirra hefur aukist mjög hratt.

Færri ágengar tegundir finnast hér við land en annarsstaðar og má rekja það til einangrunar landsins. Það er þó ekki þar með sagt að Ísland hafi sloppið algjörlega. Gott dæmi um ágenga tegund hér á landi er minkurinn. Jörundur fjallaði sérstaklega um grjótkrabba, flundru og glærmöttul. Grjótkrabbinn er talinn hafa borist hingað til lands í kringum síðustu aldamót, en hann fannst fyrst í Hvalfirði árið 2006. Hann hefur fjölgað sér með ógnarhraða og nær þekkt útbreiðsla hans nú frá Reykjanesi til Eyjafjarðar. Á sunnanverðum Faxaflóa er hann orðinn algengasti stórkrabbinn og skákar þar bæði bog- og trjónukrabba. Enn er fremur lítið vitað um áhrif hans á annað lífríki en mögulega eru þau talsverð. Ljóst er að stórauka þarf rannsóknir hvað það varðar. Grjótkrabbinn er mikið lostæti og væri tilvalið að reyna strax að hægja á útbreiðslu hans og fjölgun með veiðum. Flatfiskurinn flundra veldur mögulega skaða á stofnum ferskvatnsfiska og möttuldýrið glærmöttul gæti ógnað fiskeldi hér við land.

Næsti fyrirlestur í röðinni verður miðvikudaginn 3. maí. Hann ber heitið Breiðafjörður – mikilvægasta fuglasvæði landsins. Þar mun Kristinn Haukur Skarphéðinsson fræða áheyrendur um mikilvægi Breiðafjarðar fyrir fuglalíf.