Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Síðdegis í gær barst Náttúrustofunni tilkynning um fálka í vanda við suðaustanverðan Grundarfjörð. Feðgarnir Gústav Ívarsson og Gústav Alex Gústavsson höfðu ekið fram á fuglinn, sem greinilega átti í erfiðleikum og náði ekki að hefja sig til flugs. Með lagni tókst þeim að handsama fuglinn og koma fyrir í búri. Fljótt var ljóst að fálkinn hafði lent í grúti en við það missir fiðrið einangrunargildi sitt og fuglinn á erfitt með flug.

Fálkinn, sem var ungfugl, var sóttur í Grundarfjörð og sendur til Reykjavíkur í hreinsun og endurhæfingu í Húsdýragarðinum. Þar verður honum hjúkrað til heilsu á ný af starfsfólki Húsdýragarðsins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og vonandi veitt frelsi innan fárra daga.