Rannveig Magnúsdóttir frá Landvernd hélt áhugavert erindi um matarsóun í fyrirlestrarröð NSV 19. apríl sl.
Margt kom fram á fundinum sem var vel sóttur. Matarsóun er vandamál sem á sér stað allt frá framleiðendum til neytenda. Í erindi Rannveigar kom fram að um þriðjungur alls matar endar í ruslinu. Það þýðir ekki einungis að verið sé að henda verðmætum frá heimilinu, það þýðir að uppskera af um þriðjungi ræktarlands, sem oft verður til á kostnað náttúrulegra búsvæða plantna og dýra, lendir í ruslinu. Hér er ekki tekið tillit til beina o.þ.h. sem fólk leggur sér ekki til munns.
Almenningur getur unnið gegn matarsóun á ýmsan hátt. Meðal annars er hægt að skipuleggja innkaup betur, gera greinarmun á „síðasti notkunardagur“ og „best fyrir“, treysta skynfærunum við mat á gæðum matar, uppröðun í ísskáp og aðra skápa til að koma í veg fyrir að matur týnist, réttar aðferðir við geymslu og að sjálfsögðu að kaupa og elda rétt magn hverju sinni.
Hægt er að fræðast meira um matarsóun á matarsoun.is
Recent Comments