Fjöldi fólks hlýddi á Ester Rut Unnsteinsdóttur, refasérfræðing Náttúrufræðistofnunar Íslands og formann stjórnar Melrakkaseturs, þegar hún hélt erindi sitt Lesið í blóð og bein – íslenski refastofninn fyrr og nú. Erindið var liður í fyrirlestrarröð NSV sem hefur verið í gangi í vetur og þótt vel heppnað.
Refurinn nær yfir norðurheimskautið og aðliggjandi lönd og teygir sig suður fyrir heimskautabaug. Íslenski stofn heimskautarefsins er einn einangraðasti stofninn og hefur hann að miklu leyti mikla sérstöðu. Við landnám var refurinn eina landspendýrið á landinu.
Í erindi sínu rakti Ester aðlögun refsins að heimskautaloftslagi, útbreiðslu hans, frjósemi, fæðuval o.s.frv. Ester tók við vöktun stofnsins eftir lát Páls Hersteinssonar árið 2011 en hann hafði byggt upp einstakan gagnagrunn um íslenska stofninn með því að rannsaka hræ af dýrum sem veiðimenn sendu til hans; samvinna sem borið hefur mikinn ávöxt hvað þekkingu á stofninum varðar.
Íslenski refastofninn var í lágmarki á milli 1970 og 1980 í kjölfar kuldaskeiðs, mikilla veiða og eitrunar. Eftir að eitrunarherferðinni var hætt óx stofninn fyrst rólega en svo með auknum hraða, og var um tífalt stærri árið 2008 en í lágmarkinu. Á síðustu árum virðist stofninn hafa minnkað eitthvað aftur, þótt enn séu refir miklu fleiri en fyrir 40 árum. Á þessum tíma hefur frjósemi haldist nær óbreytt en fæðuframboð fyrir ref jókst mikið með stækkandi fuglastofnum (einkum fýl, vaðfuglum og gæs) og auknum útburði ætis að vetrarlagi. Helsta breytingin í refastofninum, sem varð til að hann stækkaði, var að hærra hlutfall kynþroska dýra tók þátt í æxlun.
Samstarf veiðimanna við Pál og síðar Ester hefur reynst gríðarlega mikilvægt fyrir þekkingaröflun um stofninn og ber að lofa óeigingjarnt starf veiðimannanna sem tekið hafa þátt í verkefninu í gegnum tíðina.
Fyrirlestraröðinni fer senn að ljúka, en einungis er einn fyrirlestur eftir. Það er fyrirlestur Menju von Schmalensee sem ber heitið Heimiliskötturinn – Drápsvél í krúttbúningi?
Hann verður á Ráðhúsloftinu í Stykkishólmi miðvikudaginn 24. maí kl. 20.
Eins og alltaf er frítt inn og allir velkomnir.
Recent Comments