Síðastliðinn föstudag handsamaði Jón Bjarni Þorvarðarson, bóndi á Bergi við vestanverðan Grundarfjörð, hrakinn örn sem ekki náði að hefja sig til flugs. Við nánari skoðun sást að hann var grútarblautur, rétt eins og fálkinn sem náðist við Grundarfjörð tveim dögum fyrr og dvelur nú í Húsdýragarðinum í Reykjavík. Ekki er vitað um uppruna grútsins en mögulega er um síldargrút að ræða.
Við álestur merkisins á fótum arnarins kom í ljós að hér var á ferðinni enginn annar en fjölmiðlastjarnan Sigurörn, sem Sigurborg Sandra Pétursdóttir (þá 12 ára) handsamaði á frækinn hátt við Grundarfjörð árið 2006. Þá var örninn bæði grútarblautur og stélbrotinn en náði skjótt bata og var sleppt á ný.
Sigurörn er nú tæplega 12 ára gamall en hann var merktur sem ungi í hreiðri við sunnanverðan Faxaflóa. Saga hans er allskrautleg og í raun einstök. Hann var handsamaður grútarblautur árið 2003 við Selvog, aftur grútarblautur og jafnframt stélbrotinn árið 2006 við Grundarfjörð og nú náðist hann í þriðja sinn grútarblautur á svipuðum slóðum. Ekki er vitað til að hann hafi nokkru sinni parast við kvenfugl.
Starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands fluttu Sigurörn áleiðis til Reykjavíkur, þar sem Kristinn Haukur Skarphéðinsson arnarsérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands, kom á móti þeim og flutti örninn í Húsdýragarðinn. Þar mun hann dvelja næstu daga og fá sápuþvott og æti. Enga áverka var að sjá á honum og ætti hann því fljótt að ná kröftum á ný eftir meðhöndlun.
Sigurörn hlaut nafnið eftir björgun Sigurborgar en e.t.v. væri við hæfi að nefna hann Sigurörn Ófeig, því það er með ólíkindum að hann hafi þrisvar komist undir manna hendur eftir að hafa lent í grút sem annars hefði orðið honum að bana.
Í ljósi þess að tveir grútarblautir ránfuglar fundust í síðustu viku er skorað á fólk að hafa augun opin því líklegt er að fleiri slíkir séu á svæðinu. Hafa má samband við Náttúrustofu Vesturlands í s. 433 8121 ef fólk telur sig vita um slíka fugla.
Recent Comments