Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Vertu með á efstu hæð ráðhúss Stykkishólmsbæjar, Hafnargötu 3 í Stykkishólmi kl. 20. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá:

Miðvikudagur 8. febrúar 2017: Tvisvar í sömu fötum!? Er það í lagi!
Stefán Gíslason, UMÍS ehf. Environice

Hver Íslendingur kaupir líklega um 17 kg af fötum og öðrum textílvörum á hverju ári. Þar af enda um 10 kg í ruslinu. Fatakaup eiga stóran þátt í vistspori hvers einasta heimilis og því skiptir miklu máli hvernig fólk hagar þessum hluta af lífi sínu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um íslenska „fataneyslu“ í norrænu samhengi og reynt að komast að því hverju þurfi að breyta til að auka lífsgæði allra þeirra sem ganga í fötum.
……

Miðvikudagur 15. febrúar 2017: Fiskurinn, fæðan og súrnun hafsins
Hrönn Egilsdóttir, Háskóla Íslands

Erindið fjallar um súrnun hafsins og þá ógn sem lífríkinu stafar af þessum manngerðu breytingum. Stiklað verður á stóru um stöðu þekkingar á áhrifum súrnunar hafsins á fiska, fæðuna þeirra og ýmsar aðrar lífverur hafsins.

Mánudagur 6. mars 2017: Landið í ástandinu – Að lesa landið til að meta heilsu íslenskra vistkerfa
Ólafur Arnalds, Landbúnaðarháskóla Íslands

Mánudagur 13. mars 2017: Hvers vegna fækkaði minkum?
Róbert A. Stefánsson, Náttúrustofu Vesturlands

Eftir komu sína til Íslands fjölgaði minkum stöðugt í marga áratugi eða þangað til fyrir rúmum áratug, þegar þeim virtist fækka verulega. Hvað segja rannsóknaniðurstöður um þessa sveiflu og mögulegar ástæður hennar?

Þriðjudagur 28. mars 2017: Hvernig skal hreiðrað um sig?
Jón Einar Jónsson, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Fjallað verður um hvar og hvernig æðarfuglar velja sér stað fyrir hreiður og hvaða þættir ráða valinu. Einnig verður rætt hvort tegundin sker sig frá öðrum öndum að þessu leyti og hvernig hreiður eru flokkuð.

Miðvikudagur 19. apríl 2017: Elskum mat og sóum honum ekki
Rannveig Magnúsdóttir, Landvernd

Fjallað verður um hvað matarsóun er, umfang hennar og hvaða áhrif hún hefur á Jörðina. Einnig hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir matarsóun.

Þriðjudagur 25. apríl 2017: Grjótkrabbinn og aðrir nýbúar í sjó við Ísland – ógnir og tækifæri
Jörundur Svavarsson, Háskóla Íslands

Framandi tegundir hafa víða um heim valdið miklu tjóni, þar á meðal á lífríki sjávar. Hingað til hafa Íslendingar sloppið vel en grjótkrabbinn og fleiri tegundir breiðast nú út með miklum hraða og geta mögulega haft áhrif á annað lífríki. Fjallað verður um stöðu þekkingar og hvaða ógnir og tækifæri þessu fylgi.

Miðvikudagur 3. maí 2017: Breiðafjörður – mikilvægasta fuglasvæði landsins!
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands

Við Breiðafjörð eru lykilbúsvæði margra tegunda varpfugla og hánorrænna fargesta sem byggja afkomu sína á víðáttumestu fjörum landsins og gjöfulu grunnsævi. Rætt verður um ástand þessara fuglastofna og nauðsynlegar verndaraðgerðir.

Fimmtudagur 11. maí 2017: Lesið í blóð og bein – íslenski refastofninn fyrr og nú
Ester Rut Unnsteinsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands

Hvað veldur fækkun og fjölgun í refastofninum? Er landfræðilegur munur á lífskilyrðum refa? Þessum og fleiri spurningum verður reynt að svara með aðstoð rannsóknagagna um íslenskar tófur, sem ná yfir marga áratugi, en gagnagrunnurinn á sér enga hliðstæðu á heimsvísu.

Miðvikudagur 24. maí 2017: Heimiliskötturinn – Drápsvél í krúttbúningi?
Menja von Schmalensee, Náttúrustofu Vesturlands

Maðurinn hefur haft gagn og gaman af heimiliskettinum í þúsundir ára og hefur enn, en kettir eru jafnframt slungnar veiðiklær sem geta haft neikvæð áhrif á villt dýr. Rætt verður um ketti og áhrif þeirra, samband manna og katta og hvað hægt sé að gera til að takmarka neikvæð áhrif katta án þess að ganga um of á velferð þeirra.