Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Náttúrustofur eru átta sjálfstætt starfandi stofnanir dreifðar um landið og gegna þeim hlutverkum að rannsaka náttúruna, sinna fræðslu og náttúruvernd og veita þjónustu á starfssviði sínu. Náttúrustofur eru fjármagnaðar með fjárveitingu ríkis, mótframlagi rekstrarsveitarfélaga, styrkjum og útseldum verkefnum. Þar af eru framlög ríkisins langstærsti einstaki tekjuliðurinn og því gríðarlega mikilvæg fyrir starfsemina.

Náttúrustofur hafa reynst sveitarfélögum og íbúum þeirra mikilvægar og hafa löngu sannað gildi sitt sem traustar fagstofnanir og þáttur í eflingu byggða . Þrátt fyrir það hafa þær búið við nánast stöðugan niðurskurð frá árinu 2008, sem nær nýrri lægð árið 2017.

Á meðfylgjandi mynd sést þróun í framlagi ríkisins til Náttúrustofu Vesturlands frá því lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur var breytt árið 2002. Ríkisframlagið hefur aldrei áður verið lægra að núvirði og er niðurskurðurinn frá síðasta ári að lágmarki 9,4% (ofan á það bætist verðbólga þessa árs). Lækkun ríkisframlagsins frá árinu 2008 nemur um 39%. Eins og gefur að skilja hefur þessi mikli niðurskurður haft veruleg áhrif á starfsemina undanfarin ár.

Við á Náttúrustofu Vesturlands viljum blása til sóknar og hverfa af braut áframhaldandi niðurskurðar. Náttúrustofur hafa í sameiningu reynt að beita sér fyrir hækkun ríkisframlagsins að nýju með samskiptum við fjárlaganefnd Alþingis, aðra þingmenn, umhverfisráðuneytið og sveitarstjórnarfólk. Framlagið var tímabundið hækkað árið 2016 en sú hækkun gengur til baka á þessu ári.

Ef þú ert á meðal þeirra sem vilt sjá sterkar og öflugar náttúrustofur, hvetjum við þig til að taka þátt í átaki okkar og beita þér þar sem þú getur. Við erum sannfærð um að hægt sé að snúa þessari þróun við, og er samstillt átak og þrýstingur frá öllum velunnurum stofanna vænlegt til árangurs.